Bangsavélin malar eins og köttur!
Fyrir rúmu ári réðust nemendur í áfanganum Viðhald véla og kennari þeirra, Jóhann Björgvinsson, í það áhugaverða og skemmtilega verkefni að gera upp bensínmótor í hálfrar aldrar gömlum snjóbíl sem hefur verið þekktur undir nafninu Bangsi og er á ýmsan hátt sögulegur. Snjóbíllinn er af gerðinni Bombardier árg. 1973 en mótorinn er Chrysler Industrial.
Þegar farið var af stað í þetta verkefni var með öllu óljóst hvort unnt væri að koma mótornum af stað á ný. Snjóbíllinn hafði staðið lengi og mótorinn virtist fastur. Verkefni vélstjórnarnemanna í vélaáfanganum var því að rífa mótorinn í sundur og skoða lið fyrir lið ástand hans, panta varahluti í hann frá Bandaríkjunum og koma þeim á sinn stað. Ekki tókst að ljúka verkinu sl. vor og því tóku nemendur sem sitja þennan sama áfanga á þessari önn upp þráðinn þar sem frá var horfið og luku við samsetningu vélarinnar og undirbúning þess að ræsa hana. Í liðinni viku var komið að því að setja vélina í gang og auðvitað tókst ræsingin eins og til var ætlast og hún gengur eins og klukka!
Hér er Dagnýr Atli Rúnarsson, einn vélstjórnarnemanna í áfanganum Viðhald véla, við Bangsamótorinn. Einnig eru hér nokkrar myndir af mótornum eins og hann lítur út eftir uppgerð.