Bátarnir hans Hallgríms
Auk þess að kenna nemendum á listnámsbraut VMA mundar Hallgrímur Ingólfsson penslana í frístundum og gefur nú að líta í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri afrakstur vinnu hans undanfarna mánuði á hans tíundu einkasýningu. Á sýningunni eru vatnslitamyndir og í sumum myndunum hefur hann einnig notast við túss. Þema sýningarinnar er bátar og sjávarsíðan.
Hallgrímur segist alltaf dunda sér í eigin listsköpun meðfram kennslunni í VMA. Hann segir því ekki að neita að þessi gen séu í blóðinu því báðir foreldrar hans, Ingólfur Árnason og Anna Hallgrímsdóttir, hafi bæði verið ágætlega drátthög. „En ég hugsa að helstu áhrifavaldar í myndlistinni hér á Akureyri hafi verið Einar Helgason og Guðmundur Ármann,“ rifjar Hallgrímur upp.
Á sínum tíma lærði hann innanhússarkitektúr í Danmörku og síðar grafíska hönnun og í framhaldi af því starfaði Hallgrímur um árabil sem auglýsingateiknari.
Þema sýningarinnar segir Hallgrímur að sé ekki tilviljun því á yngri árum hafi hann tíðum verið til sjós og æ síðan togi sjórinn alltaf töluvert í hann.
Sýning Hallgríms í Mjólkurbúðinni stendur yfir þessa viku og lýkur nk. sunnudag. Sýningin er opin daglega kl. 14 til 17.