Benedikt Barðason ráðinn aðstoðarskólameistari VMA
Benedikt Barðason hefur verið ráðinn aðstoðarskólameistari VMA og hefur þegar hafið störf. Benedikt hefur starfað í VMA til margra ára bæði sem kennari og stjórnandi. Frá árinu 2009 hefur hann verið annar af tveimur áfangastjórum skólans og leysti af aðstoðarskólameistara skólaárið 2011-2012. Þá hefur Benedikt verið einn af þeim sem hefur leitt vinnu við skipulag og þróun nýrra námsbrautarlýsinga í VMA. Benedikt er efnatæknifræðingur, iðnrekstrarfræðingur og með framhaldsskólaréttindi. Jafnframt hefur hann verið í stjórnunarnámi á meistarastigi við Háskólann á Akureyri. Benedikt er giftur Friðnýju B. Sigurðardóttur og eiga þau þrjú börn.
Fjórir sóttu um stöðuna, auk Benedikts þau Helgi Geir Sigurgeirsson Kópavogi, Katrín Helgadóttir Akureyri og Íris Jóhannsdóttir Noregi.