Bestu lausna leitað í hársnyrtiiðn
Ein af þeim námsbrautum í VMA þar sem stór hluti námsins er verklegur er hársnyrtiiðn. Þar eru tveir námshópar, annars vegar nemendur á sjöttu önn, sem eru að ljúka námi sínu í vor, og hins vegar nemendur á 2. önn. Hefðbundið fjarnám í gegnum tölvur er eilítið flóknara fyrir þessa nemendur en marga aðra vegna mikils vægis verklegrar kennslu í náminu.
Harpa Birgisdóttir, kennari í hársnyrtiiðn, segir að þessi staða sé algjörlega ný fyrir sig sem kennara og hún og Hildur Salína Ævarsdóttir, brautarstjóri og hinn kennarinn í hársnyrtiiðn, hafi verið í góðu sambandi við nemendur um að finna eins góðar leiðir í kennslunni og mögulegt væri við þessar aðstæður. Hún segir að þangað til fyrr í þessari viku hafi verkleg kennsla nemenda á sjöttu önn færst yfir á hársnyrtistofur og þar hafi nemendur gert verklegar æfingar og þreytt próf, eins og þeir væru í skólastofu í VMA. Það hafi hins vegar breyst með hertum reglum um samkomubann og þar með lokun hársnyrtistofa. Harpa segir að vissulega hafi þetta sett strik í reikninginn en engu að síður sé engin ástæða til að ætla annað en að þessir nemendur ljúki sínu námi í vor eins og áætlað hafi verið enda sé staða þeirra almennt góð.
Varðandi nemendur í hársnyrtiiðn á 2. önn segir Harpa að nú sé lögð áhersla á bóklegar greinar eins og t.d. iðnfræði. Í gær var Hildur Salína Ævarsdóttir t.d. með nemendur í kennslustund í iðnfræði í gegnum Google Meet fundakerfið. Harpa segir mikilvægt að nýta tímann vel í bóklegar faggreinar, sem unnt sé að kenna í fjarkennslu, til þess að meira svigrúm skapist síðar fyrir verklega hlutann. Harpa nefnir að nemendur hafi tekið heim með sér "æfingahausa" til þess að gera margvíslegar æfingar heima. Hins vegar sé sýnt að einhverja verklega þætti hjá nemendum á 2. önn þurfi að færa til næsta hausts og úr því verði unnið þegar þar að kemur. „Almennt hef ég ekki miklar áhyggjur af okkar nemendum í hársnyrtiiðn. Við vinnum að farsælum lausnum með nemendum,“ segir Harpa.