Bifvélavirkjunin heillar
„Það er langt síðan ég ákvað að ég ætlaði að verða bifvélavirki. Afi minn er bifvélavirki í Kópavogi og þegar ég var yngri var ég oft hjá honum á verkstæðinu og heillaðist af því sem hann var að gera,“ segir fyrsta árs neminn Thelma Björk Sævarsdóttir frá Akureyri.
Thelma Björk og Zorana Rajkovic, einnig frá Akureyri, voru í „eyðu“ í stundaskránni og nýttu tímann til þess að fá sér hádegissnarl. Þær hófu báðar nám í VMA sl. haust, Thelma Björk á almennri braut og Zorana á félagsfræðabraut. Vegna mikils áhuga á bifvélavirkjun og bílum kom ekkert annað til greina í huga Thelmu Bjarkar en að velja að fara í grunndeild málmiðnaðar eftir áramót. „Ég þarf að byrja á því að fara í grunnnámið áður en ég get komist í sjálfa bifvélavirkjunina. Þetta hefur bara alltaf heillað mig. Nei, það er rétt að það er ekki mikið um að stelpur fari í þetta fag, en það skiptir mig engu máli,“ segir Thelma Björk.
Zorana er fædd og uppalinn í Serbíu en hún kom hingað til lands með foreldrum sínum fyrir þrettán árum. Eftir að hafa búið í þetta mörg ár hér á landi segist hún frekar líta á sig sem Íslending en Serba. Hún er jafnvíg á bæði málin – íslensku og serbnesku, enda talar fjölskyldan serbnesku heima. Zorana segist ætla að halda áfram á félagsfræðabraut í VMA, en hvað við taki eftir framhaldsskólann sé óráðið.