Bifvélavirkjunin komin á Eyrarlandsholtið
Undanfarin ár hefur kennsla í bifvélavirkjun farið fram í húsnæði við Fjölnisgötu á Akureyri en frá og með þessu skólaári færðist hún inn í húsnæði VMA á Eyrarlandsholti og þar fer nú öll kennsla í bifvélavirkjun fram.
Meðalnámstími í bifvélavirkjun er þrjú og hálft ár að meðtaldri grunndeild málm- og véltæknigreina. Áður en nemendur hefja sjálft bifvélavirkjanámið þurfa þeir sem sagt að taka grunndeild málm- og véltæknigreina, sem er tveggja anna nám. Heildarlengd til bifvélavirkja er því samtals 5 annir í skóla og 48 vikna starfsþjálfun. Náminu lýkur með sveinsprófi sem veitir rétt til að starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.
Bifvélavirkjanámið er bæði bóklegt og verklegt og fer verklega kennslan fram í rými þar sem m.a. hefur verið komið fyrir bílalyftu til að auðvelda nemendum að skoða bíla, rétt eins og um væri að ræða verkstæði.
Þegar litið var í kennslustund í bifvélavirkjun voru nemendur á þriðju önn, þ.e. nemendur sem hófu bifvélavirkjanám núna í upphafi skólaárs eftir að hafa tekið grunndeild málm- og véltæknigreina sl. vetur, m.a. að skoða kúplingar og gírkassa.
Haraldur Vilhjálmsson, kennari í bíliðngreinum, segir það hafa komið vel út að flytja bifvélavirkjunina í húsnæði VMA á Eyrarlandsholti. „Já, þetta kemur mjög vel út. Við erum hér með verklega hlutann og síðan fer bóklegi hluti námsins fram í stofunum hérna í kring. Það var jákvætt að flytja starfsemina hingað úr Fjölnisgötunni því áður voru nemendur í litlum tengslum við annað starf í skólanum,“ segir Haraldur.
Það fór ekki á milli mála að nemendur veltu mikið vöngum yfir viðfangsefnum dagsins og sýndu þeim mikinn áhuga. „Við erum núna að fara með nemendum í gegnum ýmislegt er varðar kúplingu og gírkassa. Einnig erum við m.a. að skoða rafmagn, stýri og fjöðrun og áður höfum við farið í bremsur. Nemendur taka gírkassa í sundur og setja saman aftur í þeim tilgangi að skilja hvernig þetta allt virkar. Þeir taka líka kúplinguna úr bílnum og bilanagreina hana. Þetta er sama vinnan og unnin er á alvöru bifreiðaverkstæðum.“
Nám í bifvélavirkjun skiptist sem næst til helminga í bóklegt og verklegt nám. „Við förum í gegnum hlutina í bóklega hlutanum og fylgjum því svo eftir með því að fara í sömu hluti hér í verklegum tímum. Með þeim hætti verður kennslan markvissari og skilningur nemenda á viðfangsefninu betri,“ segir Haraldur.
Nemendur sem núna eru á þriðju önn taka fjórðu önnina á vorönn og síðan gera þeir hlé á náminu í skóla á haustönn 2015 og er hún hugsuð til þess að nemendur fari út á örkina og starfi í greininni. Þeir koma síðan aftur í skólann á vorönn 2016 og ljúka fimmtu og síðustu önninni í náminu.
Aðeins ein kona, Sólveig Ólafsdóttir, er í bifvélavirkjanámi á þriðju önn. Haraldur segist ekki vita af hverju fagið höfði ekki til fleiri kvenna, en það sé sannarlega ekkert síður kvenna- en karlafag. Undir það tekur Sólveig, sem segist hafa mikla ánægju af náminu og sjái síður en svo eftir því að hafa valið þessa námsbraut.
Hér má sjá myndir sem voru teknar í verklegum tíma nemenda á þriðju önn.
Haraldur segir að óneitanlega hafi bifvélavirkjun breyst umtalsvert á umliðnum árum vegna stóraukinnar tölvuvæðingar í nýjum bílum. Þessu sé reynt að fylgja eftir í náminu og í sambandi við tölvuhlutann njóti VMA velvildar verkstæða á Akureyri, sem séu fús að miðla þessari þekkingu til nemenda. „Í nútíma bíl eru um og yfir tuttugu tölvur og síðan eru í þeim flókin samskiptakerfi. Það má nefna að í bílnum er vélatölva, skiptingatölva, ABS-tölva, tölvur fyrir skriðvörn og spólvörn og svo framvegis. Það hefur því orðið hröð framþróun í þessu eins og öðru og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Við þurfum að vera í stakk búin að fylgja þessari þróun eftir í náminu,“ segir Haraldur.