Bílaáhuginn varðaði veginn
Um tugur nemenda stundar nú nám í bifvélavirkjun í VMA undir stjórn Braga Finnbogasonar, brautarstjóra bíliðngreina. Nemendur höfðu áður farið í grunndeild málmiðnaðar, sem er sá grunnur sem er krafist áður en námið í bifvélavirkjun hefst. Nemendur sem nú eru í bifvélavirkjun hófu nám sitt sl. haust og verða áfram næsta vetur. Einnig ber þeim eins og í öðrum verklegum greinum að taka samningstíma sinn á verkstæði.
Þegar litið var inn í tíma í vikunni hjá Braga og nemendum hans í bifvélavirkjun unnu þeir að því að rífa í sundur sjálfskiptingar úr mismunandi tegundum bíla. Bragi segir að lærdómsríkt sé fyrir nemendur að kafa inn í kjarna sjálfskiptinganna og sjá hvernig þær eru byggðar upp. Það sama eigi við um mótora, gírkassa og millikassa, sem nemendur hafa fyrr í vetur rifið í sundur og púslað aftur saman. Bragi segir að þennan fyrri vetur námsins í bifvélavirkjun sé farið meira í grunninn en næsta vetur verði farið dýpra í ýmsa hluti, þ.m.t. rafeindahlutann sem er vitaskuld orðinn mjög stór þáttur í öllum nýjum bílum.
Þeir Sigurbjörn Albert Sigursteinsson og Ómar Smári Ágússson eiga það sameiginlegt að hafa lengi haft brennandi áhuga á bílum og einnig hafa þeir báðir unnið á verkstæðum og fengið þannig ágæta innsýn í bílaviðgerðir. Sigurbjörn er Ólafsfirðingur og er með bifvélavirkjunina í blóðinu, ef svo má segja, því faðir hans er einnig eigenda Múlatinds, rótgróins verkstæðis í Ólafsfirði, og þar segist Sigurbjörn hafa lengi unnið í sumarfríum og með skóla. Raunar segist hann fara á milli á hverjum degi og fari gjarnan í vinnugallann síðdegis þegar hann komi frá Akureyri. Að sjálfsögðu er Sigurbjörn Albert á samningi á Múlatindi, enda þar í góðum höndum hjá föður sínum og afa.
Ómar Smári er frá Þórustöðum í Eyjafjarðarsveit. Hann segist hafa verið meira og minna í kringum bíla frá því hann var smástrákur. Faðir hans er bifvélavirki á bílaverkstæði Hölds á Akureyri og á Höldi er Ómar Smári að vinna með skólanum á verkstæðinu sem annast viðhald á útleigubílum bílaleigunnar. Hann segir að áhugi sinni hafi alltaf legið á þessu sviði og því hafi legið nokkuð beint við að fara í bifvélavirkjun.