Birna Karen fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna

Birna Karen Sveinsdóttir verður fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna sem verður haldin annað kvöld, 12. apríl, í Háskólabíói. Keppnin verður í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu og hefst kl. 19:45.
Birna Karen tryggði sér farseðilinn í Söngkeppni framhaldsskólanna með sigri í Sturtuhausnum – söngkeppni VMA í nóvember sl. Þar söng hún til sigurs lag GDRN, Hafið.
Birna Karen, sem er 19 ára gömul, hefur í fimm ár verið í námi í rythmískum söng hjá Heimi Bjarna Ingimarssyni við Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Hún stundar nám á textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA.
Þó svo að keppnin verði sýnd í beinni útsendingu á RÚV er ástæða til að hvetja alla til þess að leggja leið sína í Háskólabíó og verða vitni að tónlistarveislu framhaldsskólanema. Miðasala er á Tix.is - miðinn kostar kr. 3000. Kynnar kvöldsins verða Ágúst Þór Brynjarsson og Jóna Margrét Guðmundsdóttir.