Birna Karen sigraði Sturtuhausinn 2024
Birna Karen Sveinsdóttir sigraði Sturtuhausinn – söngkeppni VMA í Gryfjunni í gærkvöld. Hún flutti lag GDRN, Hafið, með miklum glæsibrag. Í öðru sæti urðu þeir félagarnir Steindór Ingi Tómasson, Hannes Logi Jóhannsson og Haukur Leo Þórðarson. Þeir fluttu rapplag að hætti hússins í anda Herra Hnetusmjörs. Í þriðja sæti varð Harpa Signý Benediktsdóttir með lag Amy Winehouse, Back to Black.
Birna Karen, sem er 19 ára gömul, hefur í fimm ár verið í námi í rythmískum söng hjá Heimi Bjarna Ingimarssyni við Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Hún stundar nám á textíllínu listnáms- og hönnunarbrautar VMA.
Sem sigurvegari Sturtuhaussins 2024 verður Birna Karen fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna vorið 2025.
Í ár voru sex lög í keppninni. Hin þrjú lögin fluttu Sigrún Dalrós Eiríksdóttir, Svavar Máni Geislason og Þórir Nikulás Pálsson.
Undirleikur í keppninni var að mestu í höndum hljómsveitarinnar Sót en í henni eru Ísleifur Jónsson gítar, Ívar Leó Hauksson bassi, Daníel Hrafn Ingvarsson gítar og Bjarmi Friðgeirsson trommur. Ísleifur og Ívar stunda nám við VMA og Daníel Hrafn stundar nám við MA. Stórfin og vel spilandi hljómsveit!
Aron Frey Ívarsson, sem sigraði Sturtuhausinn í fyrra, flutti tvö rokklög af harðari gerðinni, fyrra lagið áður en keppendur stigu á svið og það síðara eftir að keppendur höfðu lokið við flutning laganna sex.
Í dómnefnd kvöldsins voru Anna Skagfjörð, Kristjana Arngrímsdóttir og Selma Rut Guðmundsdóttir.
Kynnar kvöldsins voru kennararnir Mummi og Vala og fá þeir hrós, sem og nemendafélagið Þórdunu fyrir flotta umgjörð og gott skipulag keppninnar, sem var prýðilega vel sótt.
Myndavélar voru á lofti á Sturtuhausnum til að varðveita augnablikin:
Myndaalbúm 1 - Árni Már Árnason
Myndaalbúm 2 - Árni Már Árnason og Vilhjálmur Arngrímsson
Myndaalbúm 3 - Vilhjálmur Arngrímsson