Bjartsýnn á að sýningin slái í gegn
Í kvöld er komið að stóru stundinni – frumsýning verður á Litlu hryllingsbúðinni í uppfærslu Leikfélags VMA í Samkomuhúsinu kl. 20. Mikil vinna er að baki hjá leikhópnum og nú er allt klárt fyrir frumsýninguna í kvöld.
„Jú, jú það er smá stress en þetta leggst þó bara vel í mig. Æfingarnar hafa vissulega verið strangar og álagið hefur verið mikið en við höfum verið í góðum höndum leikstjóra og listrænna stjórnenda og því kvíði ég engu,“ segir Freysteinn Sverrisson, sem fer með hlutverk Músnikks í Litlu hryllingsbúðinni. Freysteinn er enginn nýgræðingur á leiksviðinu því hann hefur m.a. komið fram í uppfærslunni í Menningarhúsinu Hofi á Pílu Pínu og nýverið var hann á fjölum Samkomuhússins á Akureyri í leikritinu Listin að lifa, sem Sindri Snær Konráðsson, leikstýrði, en hann er einmitt í burðarhlutverkinu Baldri í Litlu hryllingsbúðinni. „Ég þekkti ekki mikið til þessa verks áður en við fórum að æfa það, það eina sem ég þekkti til þess var tannlæknalagið. Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir sýningunni og er bjartsýnn á að hún muni slá í gegn. Ég get í það minnsta sagt að við við getum lofað mjög góðri skemmtun,“ segir Freysteinn Sverrisson.
Fanney Edda Felixdóttir, sem leikur Auði í Litlu hryllingsbúðinni, segir að í sínu brjósti hafi mun frekar búið um sig spenna en stress fyrir frumsýninguna í kvöld, hún hlakki til þess að stíga á svið í kvöld og túlka Auði fyrir áhorfendur. „Þetta er fyrsta stóra hlutverkið en ég var í minna hlutverki í Bjart með köflum í fyrra. Þetta hefur verið mikil en jafnframt skemmtileg törn en það verður vissulega gott að eignast líf á nýjan leik því leiklistin hefur átt hug minn allan síðustu vikur. Sennilega veit ég ekki hvað ég á við tímann að gera,“ segir Fanney Edda. Hún segir að Auður sé margslungin persóna, hún sé afar brotin og hafi orðið fyrir bæði líkamlega og andlegu ofbeldi en hún sé jafnframt mjög góðhjörtuð. „Æfingatíminn hefur verið mjög gefandi og skemmtilegur og ég hef lært margt, ekki síst hef ég lært á sjálfa mig og öðlast meira sjálfstraust. Nú geri ég hluti sem mig óraði ekki fyrir að ég ætti eftir að gera, sem er bara mjög skemmtilegt. Ég hef ekki síst lært að taka af skarið og trúa á sjálfa mig. Ég hef fulla trú á því að sýningin eigi eftir að ganga mjög vel,“ segir Fanney Edda Felixdóttir.
Önnur sýning verður annað kvöld, laugardagskvöld, kl. 20. Örfáir miðar eru eftir á frumsýninguna og sýninguna annað kvöld. Þrjár sýningar verða síðan um aðra helgi, föstudagskvöldið 28. október kl. 20 og laugardagskvöldið 29. október verða tvær sýningar, kl. 19 og 22.
Verð aðgöngumiða er kr. 3.490. Miðasala er annars vegar á mak.is og hins vegar tix.is.