Blái dagurinn í dag
Í dag, 9. apríl, er „Blái dagurinn“, sem er dagur einhverfunnar. Í tilefni dagsins eru allir hvattir til þess að klæðast bláum fötum og fagna fjölbreytileikanum í hinu mannlega litrófi. Blái dagurinn er jafnan haldinn hér á landi sem næst alþjóðlegum degi einhverfu, sem er 2. apríl.
Styrktarfélag barna með einhverfu ber nafnið Blár apríl og var það stofnað fyrir átta árum. Frá byrjun hefur markmið félagsins verið að stuðla að fræðslu og vitundarvakningu um málefni barna með einhverfu.
Hvað er einhverfa?
Á heimasíðu Einhverfusamtakanna er að finna ítarlegar upplýsingar um einhverfu:
„Einhverfa tengist óvenjulegum taugaþroska. Hún birtist í því hvernig einstaklingur skynjar sig sjálfan og veröldina, á samskipti við aðra og myndar tengsl við fólk og umhverfi. Einhverfa er yfirleitt meðfædd og kemur fram í barnæsku. Hún er ólík hjá fólki, allt eftir aldri, þroska og færni en er til staðar út ævina. Einhverfueinkenni eru þannig breytileg eftir einstaklingum, bæði hvað varðar fjölda og styrk og því er talað um einhverfuróf.
Einhverfa er ekki sjúkdómur. Greining byggist á því að meta upplifun og viðbrögð einstaklingsins við umhverfi sínu í ólíkum aðstæðum. Upplýsingar um þroska- og hegðunarsögu eru einnig mikilvægar. Við greiningu á einhverfu er stuðst við alþjóðlegar skilgreiningar. Ef einkenni ná tilteknum viðmiðum þá er talað um einhverfu eða raskanir á einhverfurófi. Aspergersheilkenni telst til einhverfurófsins. Algengt er að börn og fullorðnir á einhverfurófi séu með ýmsar meðraskanir eins og kvíða, þunglyndi, ADHD eða flogaveiki.
Einhverfueinkenni birtast á ólíkan hátt hjá einstaklingum en eru skilgreind sem áskoranir í félagslegum samskiptum ásamt endurtekningarsamri hegðun og afmörkuðu áhugasviði. Einhverfan getur engu að síður verið styrkleiki ef viðkomandi mætir skilningi og fær einstaklingsmiðaðan stuðning og getur þannig nýtt hæfileika sína og sérkunnáttu til að ná árangri. Þekking annarra á því hvernig einstaklingur á einhverfurófi upplifir umhverfi sitt er afar mikilvæg, ásamt því að aðlaga athafnir og aðstæður að þörfum viðkomandi. Margir einhverfir eiga erfitt með að vinna úr skynáreitum, átta sig illa á óskrifuðum félagslegum reglum og þurfa að eyða mikilli orku í að skilja hvað aðrir ætlast til af þeim.
Fólk á einhverfurófi er ekki í öllum tilvikum fatlað. Fötlun verður til í samspili einstaklings, færni hans og umhverfis. Ýmsir þættir eins og félagslegar aðstæður, viðhorf, lög og reglugerðir, aðgengi að þjónustu, tækifæri til náms, atvinnu og félagslífs skipta miklu fyrir virka þátttöku fólks á einhverfurófi í samfélaginu. Ef þekking á einhverfu er ekki fyrir hendi og einstaklingur á einhverfurófi fær ekki viðeigandi stuðning hefur það yfirleitt neikvæð áhrif á heilsu og lífsgæði.
Orsakir einhverfu eru ekki þekktar en rannsóknir benda til þess að um sé að ræða samspil erfða og umhverfis án þess að vitað sé nákvæmlega hvaða þættir það eru. Algengi einhverfu er yfir 1% og engar vísbendingar eru um að tíðni fari lækkandi. Það þýðir að eitt af hverjum 83 börnum að lágmarki greinist á einhverfurófi. Minna er vitað um algengi einhverfu hjá fullorðnum.“