Bókajólatré á aðventu
Í dag, mánudaginn 6. desember, er lokaverkefnisdagur nemenda sem þýðir að nemendur á stúdentsprófsbrautum kynna lokaverkefni sín. Engin kennsla er í dag, kennslu lauk sl. föstudag. Hins vegar geta nemendur komið eftir sem áður í skólann og unnið að lokaáfanga þeirra verkefna sem þeir eru að vinna að eða nýtt aðstöðuna á bókasafninu til lesturs fyrir annarprófin sem hefjast nk. miðvikudag.
Og það er ástæða til þess að undirstrika að bókasafnið verður að sjálfsögðu opið fyrir nemendur til loka næstu viku, föstudagsins 17. desember. Opnunartími er kl. 08:00-16:00 frá mánudegi til fimmtudags og kl. 08:00-15:00 á föstudögum.
Til viðbótar skal þess getið, eins og kom fram hér á heimasíðunni fyrir helgi, að frá og með fyrsta prófadegi, nk. miðvikudag, og til 15. desember, geta nemendur fengið afnot af stofum D1-D7 frá kl. 08:00 til 18:00 mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga en til kl. 16:00 nk. föstudag. Það skal þó tekið fram að nk. fimmtudag og föstudag, 9. og 10. desember, verða próf eftir hádegi á D-gangi og því aðeins stofur D1 og D2 opnar til próflesturs meðan á prófunum stendur.
Óskað er eftir að nemendur sýni tillitssemi, skapi vinnufrið og gangi vel um, bæði í lestrarkennslustofunum í D-álmu og á bókasafninu, og viðhafi sem fyrr persónulegar sóttvarnir, spritti snertifleti og borð að notkun lokinni.
Annars er hið árlega bókajólatré komið upp á bókasafninu. Hanna Þórey og Hildur á bókasafninu hafa af kostgæfni og verkvísi útbúið þetta smekklega jólatré úr stórum sem litlum bókum, þykkum sem þunnum. Hér hefur mikið verkfræðihyggjuvit ráðið ferðinni!
Hvað skyldu bækurnar vera margar? Bókasafnsstöllurnar hafa ekki svar við því. Það verður þá bara að vera skemmtileg jólagáta!