Brautskráning níutíu nemenda í dag
Níutíu nemendur voru brautskráðir frá VMA í dag við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi. Að þessu sinni var útskrifaður 51 stúdent, þar af 11 með önnur skírteini, 12 sjúkraliðar voru brautskráðir, 12 í hársnyrtiiðn, 11 í matartækninámi, 4 iðnmeistarar, 8 rafvirkjar og 3 í vélvirkjun. Um brautskráningu nemenda sáu annars vegar Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og sjúkraliðanáms, og hins vegar Baldvin Ringsted, sviðsstjóri verk- og fjarnáms. Í það heila hafa 211 nemendur verið brautskráðir frá skólanum í ár.
Erfiður rekstur
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari, orðaði það svo í upphafi brautskráningarræðu sinnar í dag að árið 2016 hafi ekki verið alveg tíðindalaust á Eyrarlandsholtinu, nafni skólans hafi oft skotið upp í fréttum á árinu og stundum hafi það verið góðar fréttir sem beri góðu skólastarfi og metnaði starfsmanna og nemenda glöggt merki. Fréttir af rekstri skólans hafi hins vegar því miður ekki alltaf verið góðar og sjaldan eða aldrei hafi verið þrengt eins að skólastarfinu með rekstur og rekstrarfé. „Allt þetta ár höfum við troðið marvaðann og stundum náð alveg niður á botn en náð okkur á flot aftur. Það hefur mikið reynt á starfsmannahópinn og við gert okkar besta til að aðhald og sparnaður bitni sem minnst á nemendum og námi þeirra. Það hefur okkur tekist þótt vissulega væri hægt að bjóða nemendum upp á betri aðstæður en þær sem við höfum þurft að bjóða upp á á síðustu niðurskurðarárum. Staðan í VMA er hins vegar ekkert einsdæmi í íslenskum framhaldsskólum og allt of margir skólar sem glíma við mikinn rekstrarvanda í undirfjármögnuðu kerfi. Staða skólans hefur þó farið batnandi nú í lok árs og vonandi tekur við betra rekstrarár á árinu 2017.“
Unnið að námsskrárlýsingum í iðnnámi
Skólastarfið hefur gengið mjög vel í vetur, að sögn skólameistara, enda mikill metnaður og mannauður í starfsfólki og nemendum. „Skólinn er í breytingafasa - við erum nú hálfnuð með nám og kennslu á þriggja ára stúdentsprófsbrautum samkvæmt nýrri námsskrá. Ég er sannfærð um að breytingarnar eru til góðs fyrir nemendur - og nýjar nálganir í námi efli nemendahópinn okkar með stúdentsprófi sem er góður undirbúningur fyrir frekara nám á háskólastigi. Áfram er unnið að nýjum námsbrautarlýsingum í iðnnámi en þeirri vinnu ekki lokið enda flóknara ferli að fara í námsskrárbreytingar í iðnnámi en í námi til stúdentsprófs. Fleiri hagsmunaaðilar koma þar að og því miður hefur undirbúningur og markmið að breytingum í iðnnámi ekki verið eins skýr og þegar breytingar í námi til stúdentsprófs voru kynntar fyrir skólasamfélaginu. Engu að síður hefur skólinn innritað nemendur í iðnnámi samkvæmt nýjum áfangalýsingum en brautarlýsingum er ekki að fullu lokið. Menntamálaráðuneytið hefur gefið það út að skólar verði að hafa lokið brautarlýsingum og skilað þeim inn til samþykktar í mars á næsta ári. Að því erum við að vinna og hér í VMA getum við verið stolt af þeirri námsskrárvinnu sem hefur farið fram bæði í iðnnáminu og á stúdentsprófsbrautum, enda horft til okkar vinnu í öðrum skólum. Takmark okkar var alltaf að hafa áhrif í námsskrárvinnunni, ekki bíða bara eftir því hvað hinir gera heldur vera leiðandi og það hefur okkur tekist. Vil ég nota tækifærið og þakka kennurum og stjórnendum fyrir sitt framlag til að gera nám nemenda enn betra með nýjum áherslum og nálgunum.“
Öflugt félagslíf er mikilvægt
Skólameistari gat þess að félagslífið hafi verið öflugt á haustönn og þar beri stjórn nemendafélagsins hitann og þungann. „Leikfélag nemenda setti upp söngleikinn Litlu hryllingsbúðina í Samkomuhúsinu hér á Akureyri nú í október og hlaut mikið lof fyrir. Hér var um stórvirki að ræða enda stórt verk sem krefst mikils af leikurum og uppsetningu á sviðsmynd. Margir komu að verkinu, hvort sem það var að leika og syngja, hanna og smíða sviðsmynd, velja og búa til búninga, stjórna hljóði og mynd, búa til auglýsingar og greiða hár og sminka. Við sem sáum þessa sýningu erum afar stolt af nemendum okkar og gaman að sjá hvernig nemendur vaxa og njóta sín með þátttöku sinni í uppfærslunni. Að hafa öflugt og fjölbreytt félagslíf er ekkert sjálfgefið og æ erfiðara að ná til nemenda þar sem samkeppnin um tíma þeirra er mikill. Það er hlutverk okkar sem vinna með ungu fólki að efla það á allan hátt og hafa fjölbreyttar leiðir til að gefa nemendum tækifæri til að sýna sína styrkleika, m.a. í gegnum nemendafélagið. Sem skólameistara finnst mér forréttindi að eiga góð samskipti og samvinnu við nemendafélagið því það er ekki sjálfgefið. Ég vil þakka viðburðastjóra skólans, Pétri Guðjónssyni, fyrir að halda utanum félagslífið. Pétri hefur tekist að vinna vel með nemendum og eflt virkni þeirra í félagslífinu. Ég vil jafnframt þakka stjórn Þórdunu fyrir vel unnin störf og hlakka til þeirra stóru viðburða sem verða á vorönn, s.s. söngkeppni sem haldin verður hér í Hofi, árshátíðar og kosningar í nýja stjórn á vordögum. Félagslífið er afar mikilvægur þáttur í skólastarfinu og hefur þátttaka í félagslífi gefið mörgum einstaklingum tækifæri til að efla og styrkja sig til framtíðar. En að starfa í nemendafélagi er ekki bara söngur, gleði og gaman, uppfærslur og árshátíðir. Annað mikilvægt hlutverk er að efla ábyrgð og samkennd nemenda með því að veita þeim ábyrgð og treysta þeim. Gefa þeim tækifæri til að vera þátttakendur í ákvarðanatökum og undirbúa þá fyrir líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi. Nú á haustönn voru gerðar ákveðnar breytingar í skólaráði VMA þar sem fulltrúar nemenda koma meira að ákvarðanatöku hvað varðar skólastarfið og aðbúnað nemenda.“
Skólameistari gat þess og í þessu sambandi að í aðdraganda alþingiskosninga í lok október hafi farið af stað verkefni á vegum Sambands íslenskra framhaldsskólanemenda og Landssambands æskulýðsfélaga þar sem blásið hafi verið til lýðræðsviku í framhaldsskólum landsins. „Kennarar voru hvattir til að leggja fyrir lýðræðistengd verkefni í tímum og stuðla að stjórnmálaumræðu. Í verkefninu var lögð mikil áhersla á þátttöku nemenda og þeir önnuðust sem mest af því sem gert var þessa viku. Það var því gaman að fylgjast með því hvernig pólitísk umræða fór stigvaxandi og náði flugi eftir að haldinn var framboðsfundur í Gryfjunni þar sem fulltrúum allra flokka var boðið að taka þátt í pallborðsumræðum. Nemendur fjölmenntu á fundinn og tóku virkan þátt í umræðum og fyrirspurnum. Lýðræðisvikunni lauk með skuggakosningum sem haldnar voru í skólanum og á landsvísu þar sem nemendur sáu um alla framkvæmd kosninganna ásamt kjörstjórn sem að sjálfsögðu var skipuð nemendum. Verkefni sem þetta er afar mikilvægt til að auka þátttöku ungs fólks í samfélagsumræðunni og að það setji sig inn í mál sem hafa áhrif á framtíð þess. Að ungt fólk læri að kosningaþátttaka er mikilvæg og að nemendur sjái að þeir geti haft áhrif. Enda gerist ósköp lítið í samfélaginu ef við tökum ekki þátt. Framhaldsskólar hafa skyldu gagnvart því að þjálfa nemendur í lýðræðislegum vinnubrögðum og að kenna þeim umburðarlyndi gagnvart skoðunum annarra. Eins að þeir þekki réttindi sín en ekki síður skyldur til samfélagsins. Hluti af samfélagslegri umræðu er að geta sett sig í spor annarra og kunna að ræða og virða mismunandi skoðanir. Það er jafnframt mikilvægt að kenna ungu fólki að standa með sjálfu sér og þora að hafa og tjá skoðanir sínar. Fjölbreytileikinn er mikilvægur og við verðum að undirbúa ungt fólk undir að heimurinn er ekki bara annað hvort svartur eða hvítur - eða að allir þurfi að fylgja sama straumnum.“
Mannvonska heimsins
Sigríður Huld gat þess í ræðu sinni að enn og aftur væri heimsbyggðin minnt á grimmd mannskepnunnar. „Þegar ég var að skrifa þessa ræðu hafði ég tekið til umfjöllunar að hluta til allt annað en ég hef fjallað um hér að framan. Ég var uppi í skóla sl. mánudagskvöld og hafði verið að hlusta á jólalög með ræðuskrifunum. Þegar ég kom heim voru 10-fréttir í RÚV að byrja og þar birtist enn ein fréttin á skjánum af mannvonsku og illsku - nú í Berlín og í kjölfarið hryllilegar fréttir frá Sýrlandi þar sem börn og fólk á öllum aldri upplifir hörmungar, hræðslu, hungur, ofbeldi, missi og líf sem er farið að skorta alla mennsku. Líf sem skortir umburðarlyndi og samúð. Ég veit að hér erum við langt frá þessum átakasvæðum - eða er það svo? Átökin og hörmungarnar eru m.a. afleiðing þess sem skortur á lýðræði og umburðarlyndi getur leitt af sér. Yfirgangur og græðgi er hluti af þessu líka, jafnrétti og mannréttindi ekki virt og margir sem rýna í samfélög og atburði líðandi stundar sjá merki þess að ákveðin öfl sem vilja fara sömu leiðir í lýðræðisþjóðfélögum eru að vaxa. Uppgangur öfgahópa, t.d. í Evrópu, er áhyggjuefni, ákveðnir aðilar ala á hræðslu, m.a. gagnvart útlendingum, og einstaklingar sem hafa verið uppvísir að kvenfyrirlitningu og kynþáttahatri eru kosnir til æðstu embætta. Ég trúi því ekki að þetta sé leiðin sem við viljum fara hvar sem við búum í heiminum. Því er það svo mikilvægt að fræðsla um lýðræði, réttindi og skyldur sé hluti af skólastarfi - ekki bara í einhverjum ákveðnum áföngum sem heita kynjafræði eða mannréttindi - og lýðræði - heldur sé hluti af allri kennslu og menningu innan skólasamfélagsins. Það er ábyrgð okkar sem vinnum með ungu fólki og foreldra að undirbúa ungt fólk undir það að heimurinn er margbreytilegur, það er ekkert hættulegt við það þótt við séum ekki öll eins eða með sömu skoðanir eða trú.“
Lögð áhersla á fjölbreytileika
Fjölbreytileikinn er aðalsmerki VMA, sagði Sigríður Huld. „Við höfum alltaf sagt að VMA sé góður skóli fyrir alla nemendur og við það viljum við standa. Við ætlumst að sjálfsögðu til þess að nemendur leggi sig fram en við horfum ekki á einkunnir, stétt eða stöðu þegar við tökum nemendur inn í skólann – við viljum geta boðið nemendum okkar upp á fjölbreytileika því það er það sem bíður nemenda okkar í framtíðinni.Fjölbreytileikinn er einmitt það sem margir okkar nemenda nefna sem einn af helstu kostum skólans. Sú hæfni sem nemendur okkar fá við að takast á við breytingar og kynnast ólíku fólki sem stefnir í fjölbreyttar áttir er veganesti sem styrkir þá til framtíðar. Ögrunin er hjá þeim skólum sem taka við öllum nemendum óháð námsgetu og það er jafn mikilvægt að koma þeim áfram í framhaldsskólanum sem þurfa lengri tíma til að ná sínum námsmarkmiðum eins og þeim sem gengur alltaf vel að ná þeim.
Það sem við gerum í VMA til að efla víðsýni nemenda er m.a. að vera virk í erlendu samstarfi. Á síðustu árum hefur það verið með miklum blóma og er orðið fastur liður í skólastarfinu. Nemendur njóta góðs af þessum verkefnum, t.d. eru þrír sjúkraliðanemendur að fara til Danmerkur í janúar nk. til að taka hluta af starfsþjálfun sinni þar. Þessi tækifæri fyrir nemendur eru dýrmæt og efla sjálfstæði og víðsýni þeirra. Erlent samstarf gefur jafnframt kennurum og stjórnendum tækifæri til starfsþróunar ásamt því að kynnast skólastarfi í öðrum löndum. Í heimsóknum okkar í framhaldsskóla erlendis fáum við nýjar hugmyndir, getum borið saman hugmyndir okkar við aðra og lært nýja hluti. Þau samstarfsverkefni sem skólinn tekur þátt í eru fjármögnuð með styrkjum, annað hvort Nord-Plus styrkjum eða Evrópusambandsstyrkjum. Án þessara styrkja gætum við ekki gefið nemendum og kennurum tækifæri til að kynnast námi og störfum í öðrum löndum. En við erum ekki bara á faraldsfæti, við fáum erlenda gesti til okkar á hverri önn, bæði nemendur sem koma hingað til Akureyrar í starfsþjálfun og samstarfsfólk úr verkefnum sem skólinn tekur þátt í.“
Þátttaka í jafnréttisverkefni
VMA hefur ákveðið að taka þátt í verkefni í samstarfi við Jafnréttisstofu sem kallast “rjúfum hefðirnar - förum nýjar leiðir”. Markmið verkefnisins er að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla. „Markmið okkar í VMA er að auka hlutfall karla í háriðn og sjúkraliðanámi og fjölga konum í iðn- og tækninámi. Verkefnið blasir við okkur hér á sviðinu - hérna vinstra megin við mig sitja fremst nemendur í háriðn - hér endurspeglast kynjahlutfallið í greininni mjög vel, einn karlmaður. Hins vegar hér hægra megin við mig sitja sjúkraliðanemar, þar sem situr einn karlmaður. Hér vinstra megin við mig sitja líka nemendur í iðn- og tækninámi - flestir eru karlar.
Verkefnið mun taka tvö ár og vonandi náum við að skilgreina og vinna með mögulegar aðgerðir til að hafa áhrif á kynbundið náms- og starfsval nemenda og hafa áhrif á kynskiptan vinnumarkað. Til að verkefnið gangi eftir, þurfum við fyrst að horfa inn á við, skoða viðhorf okkar sjálfra og gera okkur grein fyrir því hvað það er í námsumhverfinu sem laðar kynin að þessum greinum og hvað það er sem hindrar stelpur og stráka til að velja og vinna í þessum greinum.“
Mikilvægur stuðningur og hlýhugur atvinnulífsins
Sigríður Huld gat um gott samstarf skólans við fyrirtæki og samstarfsaðila á Akureyri og nágrenni. „Við búum við það að aðsókn í skólann er mjög góð og ánægjulegt að hafa náð þeim áfanga að bjóða upp á nám í matreiðslu nú á haustönn, hér er nemendahópur í múriðn í samstarfi við meistara í bænum en það nám hefur ekki verið í boði í meira en áratug og á vorönn verður boðið upp á nám í pípulögnum. Þessar svokölluðu fámennu - en afar mikilvægu - iðngreinar væru ekki í boði ef ekki kæmi til samstarf við atvinnulífið og iðnmeistara á svæðinu. Með bættum hag í þjóðfélaginu hefur byggingaiðnaðurinn tekið við sér og aðsókn í byggingagreinar að ná fyrra horfi og stefnt er að því að stofna fagráð í byggingagreinum eftir áramót.“
Verið stolt af árangri ykkar!
Í lok brautskráningarræðunnar í dag beindi skólameistari orðum sínum til útskriftarnema: „Þið hafið náð takmarki ykkar. Sum ykkar hafið þurft að leggja á ykkur mikla vinnu, blóð, svita og tár til að ná þessum áfanga en það dugði til, því hér standið þið nú. Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum – og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. Fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Á þessum svokölluðu framhaldsskólaárum kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu.“
Viðurkenningar
Að venju voru veittar viðurkenningar við brautskráninguna í dag:
Besti árangur í rafiðngreinum - Skúli Skúlason, Árni Hreiðar Kristinsson og Tryggvi Snær Hlinason. Ískraft, Rönning og Reykjafell gáfu verðlaunin.
Framúrskarandi árangur í faggreinum sjúkraliða – Guðmunda Laufey Hansen. Sjúkrahúsið á Akureyri gaf verðlaunin.
Framúrskarandi árangur í faggreinum í háriðn – Halldóra Gunnlaugsdóttir. Reykjavík Wearhouse gaf verðlaunin.
Besti árangur í faggreinum matartækna – Hafdís Vilhjálmsdóttir. Lostæti gaf verðlaunin.
Framúrskarandi árangur í samfélagsgreinum – verðlaun úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar - Margrét Benediktsdóttir nýstúdent af félagsfræðabraut. Einnig hlaut Margrét verðlaun fyrir námsárangur í ensku. Verðlaunin gaf SBA- Norðurleið.
Besti árangur í raungreinum – Arnbjörg Hlín Áskelsdóttir, nýstúdent af náttúrfræðibraut. Verðlaunin gaf Gámaþjónustan.
Framúrskarandi árangur í dönsku – Inga Líf Ingimarsdóttir. Verðlaunin gaf danska sendiráðið. Inga Líf hlaut jafnframt jafnframt verðlaun fyrir íslensku sem Eymundsson gaf, sömuleiðis verðlaun fyrir bestan árangur í hönnunar- og textílgreinum, verðlaunin gaf Kvennfélagasamband Eyjafjarðar, og loks fékk Inga Líf verðlaun frá A4 fyrir bestan árangur á stúdentsprófi.
Hvatningarverðlaun Hollvinasamtaka VMA - voru veitt í fyrsta skipti síðastliðið vor. Þessi verðlaun eru veitt nemanda sem hefur sýnt miklar framfarir í námi á námstímanum, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt.
Verðlaunin hlaut Alfreð Jónsson, nýstúdent af náttúrufræðibraut, en hann hefur á námstíma sínum í skólanum sýnt mikinn dugnað og elju til að ná markmiðum sínum. Hann hefur ætíð verið hjálpsamur, jákvæður og síbrosandi í nemendahópnum. Þá hefur hann mætt 100% allar sínar annir í skólanum og hefur námsárangur hans ekki bara verið stigvaxandi heldur stundum eins og um stangarstökk hafi verið að ræða. Alfreð hlaut einnig verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur í efnafræði. Efnafræðiðfélag Íslands gaf verðlaunin.
Viðurkenning fyrir öfluga þátttöku í félagslífi skólans - Fanney Lind Pétursdóttir, Ingiríður Halldórsdóttir, Jón Gunnar Halldórsson og Margrét S. Benediktsdóttir.
Við brautskráninguna í dag flutti Fanney Lind Pétursdóttur, nýstúdent af náttúrufræðibraut, kveðju brautskráningarnema, nemendur úr Leikfélagi VMA fluttu söngatriði úr Litlu hryllingsbúðinni og Valdís Jósefsdóttir, sem útskrifaðist í dag úr hársnyrtiiðn, söng lag Bjartmars Guðlaugssonar, Þannig týnist tíminn, við undirleik Péturs Guðjónssonar.