Fara í efni

Brautskráning VMA: Hátíðleg stund í Hofi

Útskriftarhópurinn að lokinni brautskráningu í dag
Útskriftarhópurinn að lokinni brautskráningu í dag
Í dag voru brautskráðir 118 nemendur frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Í brautskráningarræðu sinni sagði Hjalti Jón Sveinsson skólameistari m.a. að vegna þröngrar fjárhagsstöðu framhaldsskóla lægi skólastarf undir skemmdum. Hann sagðist þó vonast til þess að landið færi að rísa á nýjan leik.

Í dag voru brautskráðir 118 nemendur frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Í brautskráningarræðu sinni sagði Hjalti Jón Sveinsson skólameistari m.a. að vegna þröngrar fjárhagsstöðu framhaldsskóla lægi skólastarf undir skemmdum. Hann sagðist þó vonast til þess að landið færi að rísa á nýjan leik.

Í upphafi útskriftarræðu sinnar sagði Hjalti Jón Sveinsson að hann vænti þess að sá hluti útskriftarhópsins sem hafi aflað sér starfsréttinda stæði vel undir væntingum atvinnulífsins. Hann hvatti þá nemendur sem luku stúdentsprófi í dag eindregið til þess að halda áfram námi á háskólastigi.
„Reyndar er það svo að þeir sem brautskrást héðan í dag með starfsréttindi munu margir hverjir hefja störf á sínu sviði hið fyrsta – á meðan aðrir úr þeim hópi munu halda til frekara náms ýmist hér í skólanum eða á háskólastigi. Þá er ótalinn sá hópur sem lokið hefur stúdentsprófi að loknu starfsnámi.
Það er okkur sérstakt ánægjuefni að brautskrá í dag í fyrsta sinn sveina í rafeindavirkjun. En nú býður skólinn upp á það krefjandi tækninám samkvæmt nýrri námskrá og skipulagi. Einnig brautskráist hópur málmsuðumanna sem fá munu sveinsréttindi samkvæmt nýrri námskrá; en þess má geta að þeir luku námi hér í skólanum eftir að hafa farið í gegnum svonefnt raunfærnimat, sem er ný leið sem opnast hefur fyrir fólk sem hefur aflar sér mikillar starfsreynslu á ákveðnum verksviðum á vettvangi tæknigeina. Þetta er gott dæmi um samstarf og samvirkni Fræðslumiðstövar atvinnulífsins, Iðunnar fræðsluseturs iðnaðarins og Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.“

Misvísandi skilaboð stjórnvalda
Hjalti Jón ræddi um erfiða fjárhagsstöðu skólans og sagði að þrátt fyrir áralangan samdrátt í fjárframlögum til skólans og sparnaðaraðgerða af ýmsu tagi hafi tekist að halda úti óbreyttu námsframboði að langmestu leyti, en sl. haust hófu um 1200 nemendur nám í dagskóla og 500 í fjarnámi.
„Við höfum haft áhyggjur af því hin síðari ár hversu litlu fé við höfum getað verið til endurnýjunar á tækjum og búnaði. Samdráttur í rekstrarframlögum hefur komið hart niður á þeim þætti. Reyndar á þetta við hvort heldur sem er um almennan tölvubúnað eða sérhæfð tæki á tæknibrautum. Höfum við að undanförnu þurft að leita til hagsmunasamtaka og fyrirtækja í ýmsum greinum og óskað eftir liðsinni þeirra. Sem betur fer ríkir mikill skilningur á þörfum og mikilvægi skólans fyrir atvinnulífið hér á svæðinu og í gjörvöllu nærsamfélaginu.
Ég hef lýst eftir stefnu stjórnvalda um hvort bjóða eigi yfirleitt upp á verknám utan höfuðborgarsvæðisins en skilaboðin sem við höfum fengið hafa verið mjög misvísandi. Ýmist höfum við lesið eða hlustað á yfirlýsingar stjórnvalda um að efla beri verk- og tækninám eða verið hvött til að draga úr námsframboði og skera niður þær námsbrautir sem dýrastar eru í rekstri. Þannig standa málin í dag. Það er aftur á móti gleðiefni að ríkisstjórnin hafi nú ákveðið að verja auknu fé til tækjakaupa til Landspítalans og FSA.“

Lengra verður ekki gengið
Skólameistari sagði að starfsfólk framhaldsskóla hafi þurft að sinna starfi sínu í skugga niðurskurðar á fjárheimildum til framhaldsskólanna síðan þremur árum fyrir Hrun en þá hafi verið um árlega svokallaða hagræðingarkröfu að ræða.
„Nú er svo komið að lengra verður ekki gengið. Reyndar sagði ég þetta líka úr þessum ræðustóli fyrir nákvæmlega tveimur árum. Með hliðsjón af meintri stöðu þjóðarbúsins þurfum við að glíma við erfiðan rekstur á næsta ári þó svo að í fjárlögum næsta árs sé ekki gert ráð fyrir frekari niðurskurði á rekstrarfé til framhaldsskóla. Við höfum kappkostað að þessar aðstæður komi sem minnst niður á gæðum kennslu og annarra þátta skólastarfsins.
Ég vil þakka bæði nemendum skólans og starfsfólki fyrir umburðarlyndi og seiglu. Ég sagði það fyrir ári síðan úr þessum ræðustóli að skólastarf lægi undir skemmdum. Sú skoðun mín hefur því miður ekki breyst. En vonandi fer landið að rísa og ég er þess fullviss að þeir nemendur okkar sem eru að braustkrást hér í dag munu eiga sinn þátt í þeirri uppbyggingu sem framundan er í íslensku þjóðfélagi.“

Athyglisverð þróunarverkefni
Þó svo að sorfið hafi að í rekstri skólans nefndi Hjalti Jón að VMA hafi haft tækifæri til þess að undanförnu að taka þátt í mörgum spennandi þróunarverkefnum í tengslum við nýjar námskrár og nýtt og spennandi námsframboð og þegið fjárstyrki í því skyni.
„Verkefnin hafa í öllum tilvikum verið unnin í samstarfi við aðra framhaldsskóla og ýmist hefur starfsfólk VMA stjórnað þeim eða þá að við höfum verið þátttakendur undir verkstjórn annarra. Má í þessu sambandi nefna verkefni á sviði vélstjórnar, matvælagreina, starfsbrautar fatlaðra, sjúkraliðanáms, hársnyrtiðnar, námsbraut fyrir nemendur í brotthvarfshættu, bifhjólavirkjunar, á sviði bæði myndlistar- og hönnunar og textílkjörsviðs listnámsbrautar og stálsmíði, svo nokkuð sé nefnt.
Þá hefur verið unnið með verkefni sem felst í tilraun með sameiningu námsáfanga eins og í efstu þrepum íslensku og þar hafa verið  reyndar meðal annars forvitnilegar nálganir í námsmati og efnistökum. Hannaðir hafa verið nýir áfangar fyrir tilstilli styrkja úr svonefndum Sprotasjóði framhaldsskóla eins og í kynjafræði. Þess má geta að  nemendur úr þeim hópi hafa tekið þátt í átaki gegn kynbundnu ofbeldi meðal annars með því að skrifa greinar sem birst hafa í fjölmiðlum og tekið þannig virkan þátt í opinberri umræðu. Þá hafa að undanförnu verið ræddar hugmyndir um þverfaglega samvinnu kennara við kennslu í ýmsum greinum í því skyni að gera námið skemmtilegra og árangursríkara.
Á liðinni haustönn hafa margir starfsmenn og nemendur skólans tekið þátt í verkefnum hvort heldur sem er innan Norðurlandanna eða í tengslum við hina svokölluð Leonardo-menntaáætlun Evrópusambandsins á grundvelli aðildar Íslands að EES-samningnum. Hópur nemenda, kennara og stjórnenda hefur því verið á faraldsfæti til þess að hitta samstarfsaðila sína og sinna verkefnum sínum. Þá höfum við líka tekið á móti fjölmörgum skólastjórnendum, kennurum og nemendum frá skólum víðs vegar um Evrópu og hefur vart liðið sú vika að ekki hafi verið hér erlendir gestir til skamms eða langs tíma. Verkefnin eru af fjölbreyttu tagi og má í því sambandi annars vegar nefna stórt og umfangsmikið viðfangsefni á grundvelli Evrópusamstarfs er lýtur að þróun kerfis til þess að mennta svokallaða starfsfóstra eða mentora í starfsnámi og hins vegar vesturnorrænt verkefni um undirbúning og þróun á námi fyrir  starfsmenn á meðal annars olíuborpöllum á Norðurslóðum.“

Lokaverkefni á síðustu önn í skólanum
Skólameistari sagði alltaf jafn ánægjulegt að skoða og fylgjast með lokaverkefnum nemenda í  hand- og hugverki í hinum ýmsu deildum skólans. Ævinlega komi honum jafn mikið á óvart hversu frábærum árangri nám nemenda og vinna kennara geti skilað.
„Má í því sambandi nefna lokaverkefni nemenda í rafvirkjun og vélstjórn, hársnyrtideild, listnámsbraut,  og í almennum greinum á borð við náttúrufræði og íslensku svo að fátt eitt sé talið. Námsmat hefur verið að breytast og þróast á undanförnum misserum. Staðreyndin er sú að kröfur til nemenda okkar bæði í atvinnulífinu og á háskólastiginu hafa verið að breytast. Þess vegna  er okkur nauðsynlegt að fylgjast með og taka þátt í þróuninni svo að við getum búið nemendur okkar sem best undir þann vettvang sem við tekur að brautskráningu lokinni héðan.
Innan fárra ára sé ég fyrir mér að allir nemendur sem komnir eru upp á svokallað þriðja hæfniþrep hvort sem er í verknámi eða bóknámi vinni að lokaverkefni á síðustu önn sinni í skólanum. Til greina kæmi að nemendur af mismunandi sviðum ynnu saman; en í því sambandi má til dæmis nefna hóp sem skipaður væri nemanda úr rafvirkjun, öðrum úr vélstjórn, þeim þriðja af náttúrfræðibraut og hinum fjórða af viðskipta- og hagfræðibraut.
Áður en skóla lýkur í vor munum við efna til kynningar fyrir almenning á þeim fjölbreyttu verkefnum sem nemendur okkar hafa verið að fást við og um leið á hinu fjölbreytta námi sem boðið er upp á í skólanum. Eins og á kynningardeginum fyrir grunnskólanemendur nú í haust munum við fá til samstarfs við okkur fyrirtæki og stofnanir úr atvinnulífinu á svæðinu, ekki síst til þess að varpa ljósi á hin margvíslegu störf og námsleiðir sem nemendum okkar getur staðið til boða að lokinni veru sinni í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Á hinum breiða vettvangi tækninnar eru að opnast æ fleiri spennandi leiðir fyrir ungt fólk með góða menntun, en á því byggist velmegun og atvinnulíf hér á svæðinu. Þessa mun gæta í skólastarfinu í náinni framtíð því að skólinn mun taka þátt hinni spennandi þróun tækni- og atvinnulífs.

PISA-könnunin
Skólameistari ræddi nýlegar niðurstöður svokallaðrar PISA-könnunar um alþjóðlegan samanburð á námsgetu grunnskólabarna.
„Niðurstöðurnar leiða í ljós að Ísland, ásamt Svíþjóð, skilar lökustu frammistöðu allra Norðurlanda. Sérstakt áhyggjuefni er hversu hratt drengir dragast aftur úr í stærðfræði og lesskilningi. 30 prósent drengja eru á neðstu þrepum lesskilnings og um 20 prósent á neðstu þrepum stærðfræðilæsis. Mikill munur er á frammistöðu kynjanna þar sem stúlkur standa mun framar og meiri afturför hefur orðið í námsárangri á landsbyggðinni. ,,Niðurstöður Pisa eru verulegt áfall fyrir okkur öll,”sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Hann tekur jafnvel svo djúpt í árinni í viðtali þann 5. desember sl. að segja að allt skólakerfið þurfi endurskoðunar við. „Niðurstöðurnar sýna að ekki er hægt að krefjast sífellt meiri sparnaðar og aðhalds án þess að það komi niður á skólakerfinu,“segir í fréttatilkynningu frá Kennarasambandi Íslands. Vissulega er niðurskurðurinn orðinn mikill og er nú víða farinn að koma niður á skólastarfinu. Sjálfur hallast ég að því að ekki sé einungis við skólana að sakast um lakan lesskiling. Ég tel það alveg ljóst að börn eru látin lesa jafnmikið í skólanum og árið 2009.  Aftur á móti óttast ég að börn og unglingar séu í stórum stíl hætt að lesa nokkuð eftir að skóla lýkur. Æ færri börn lesa sér til ánægju heima fyrir – að minnsta kosti af bókum. Það er verulegt áhyggjuefni vegna þess að góður lesskilningur er ein af grundvallarforsendum þess að nám fari fram. Við höfum vissulega orðið vör við þessa þróun hér í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Jafnframt hefur það gerst á síðustu árum að margir unglingar virðast eiga í erfiðleikum með að tileinka sér námið; ekki vegna þess að þeir hafa ekki hæfleika til þess; heldur af þeim sökum að þeir leggja ekki nægilega mikið á sig; þeir vilja öðlast þekkinguna án fyrirhafnar. Kennarar standa frammi fyrir þessum vanda - en við getum ekki leyst hann nema með dyggri aðstoð heimilanna. Lakleg frammistaða íslenskra barna og unglinga í stærðfræði er ekki síður áhyggjuefni og þar tel ég að skólakerfið þurfi að spýta í lófana. Lakleg frammistaða í stærðfræði er að mínum dómi  því um að kenna hvernig við kennum börnum og unglingum stærðfæði og hvaða stærðfræði við teljum að nemendur á 21. öldinni þurfi að læra í grunnskóla og fyrstu árin í framhaldsskóla. Þar á ég meðal annars við námskrár, túlkun á þeim og efnistök í byrjunaráföngum. Það er mikið og óviðunandi brotthvarf og fall á prófum í byrjunaráföngum í stærðfræði í íslenskum framhaldsskólum. Unglingarnir koma margir hverjir illa undirbúnir úr grunnskólanum og eru búnir að gefast upp þegar þeir koma til okkar. Okkur hefur því miður ekki tekist að glæða áhuga þeirra sem játa sig sigraða í stærðfræði, gera viðfangsefnið aðlaðandi og fá nemendur til að takast á við það.Úr þessu þurfum við að bæta en það verður ekki gert nema að grunnskólastigið og framhaldsskólastigið taki höndum saman. Ég tel að áhrif foreldra sé stórlega vametinn þáttur í námi framhaldsskólanema. Mikilvæg forsenda þess að börn og unglingar stundi námið vel er að foreldrar hvetji þá og  jafnvel knýi þá áfram. Í framhaldsskóla er mikilvægi hvatningar frá foreldrum ekki minna en á meðan þau eru í grunnskóla. Bæði innlendar og erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að stuðningur og hvatning foreldra unglinga í framhaldsskóla geta ráðið úrslitum um það hvort þeir halda áfram í skólanum og ljúki námi.”

Gagngerar endurbætur á Gryfjunni næsta sumar
Hjalti Jón orðaði það svo að í Verkmenntaskólanum á Akureyri iðaði ótrúlega skemmtilegt og skapandi samfélag 1200 nemenda og 150 starfsmanna. Hið sama væri hægt að að segja um íbúa hinnar sameiginlegu heimavistar MA og VMA þar sem komi saman um 330 unglingar af öllum landshornum og búi í sátt og samlyndi.
„Sé unnt að tala um menningu; þá er þetta gott dæmi, sem önnur ungmenni, hvar í  heimi sem er, gætu tekið sér til fyrirmyndar. Það er trú mín að þeir nemendur sem eru að kveðja okkur hér í dag beri þessa fagurt vitni. Þess vegna segi ég óhikað að nemendur okkar séu til fyrirmyndar og er alltaf jafn stoltur af þeim. Það getum við öll verið.
Félagslíf í framhaldsskóla er mikilvægur þáttur í þroska ungmenna. Því er mikilvægt að skólayfirvöld hlúi vel að því eftir því sem kostur er. Í þeim efnum mættum við gera betur en segja má að við reynum engu að síður að koma til móts við nemendur þegar þeir sýna frumkvæði. En frumkvæði er aftur á móti eiginleiki sem ekki er öllum gefinn og í svo fjölmennu skólasamfélagi sem í VMA leynist víða hæfileikafólk sem ekki vill trana sér fram. Við þurfum að búa svo um hnútana að þátttaka í félagslífinu verði eftirsóknarverð bæði fyrir þetta hæfileikafólk og alla hina, sem ætlað er að njóta þess.
Því er það  mikið gleðiefni að næsta sumar verður samverustaður nemenda í skólanum, Gryfjan, tekin algjörlega í gegn og mun ganga í endurnýjun lífdaga. Þetta verður framlag Fasteigna ríkissjóðs og Mennta- og menningarmálaráðuneytisins til skólans í tilefni af 30 ára afmæli hans á næsta ári. Áhersla okkar er að hlúa betur að nemendum ekki síður utan kennslustunda; skólinn er þeirra annað heimili og þar þarf þeim að líða vel. Ég er sannfærður um að þessi breyting á Gryfjunni muni bæta skólabrag og styrkja félagslíf  og samveru nemenda til muna. Gryfjan hefur meðal annars verið vettvangur tónlistarlífs í skólanum sem hefur verið fjörugt í þetta árið eins og svo oft áður.“

UNG SKÁLD AK 2013
Nýverið voru kynntar niðurstöður úr ritlistarsamkeppninni UNG SKÁLD AK 2013 en tilgangur með henni var að hvetja ungt fólk til skrifta og skapa ungskáldum á aldrinum 16-25 ára vettvang fyrir verk sín.
Agnes Ársælsdóttir, nemandi á myndlistarkjörsviði listnámsbrautar, bar sigur úr býtum. Í öðru sæti var Kristófer Páll Viðarsson, sem einnig er á listnámsbraut, og Embla Orradóttir, nemandi á félagsfræðibraut, hafnaði í því þriðja.
„Benedikt Bragason, íslenskukennari við VMA, var einn af þeim sem ýtti þessari samkeppni úr vör. Hann kvaðst aðspurður á fréttavef skólans vera mjög ánægður með góða þátttöku, hún hafi verið meiri en hann hafi fyrirfram átt von á og margt af því sem þátttakendur hafi sent í keppnina hafi verið mjög vel gert. Sannarlega beri að fagna því hversu mikil gróska sé í skapandi skrifum hjá ungu fólki, eins og þessi þátttaka beri með sér. Undir þessi orð tek ég heilshugar. UNG SKÁLD AK 2013 er samvinnuverkefni Akureyrarstofu, Amtsbókasafnsins, Hússins - upplýsinga- og menningarmiðstöðvar, Verkmenntaskólans á Akureyri og Menntaskólans á Akureyri og var styrkt af Menningarráði Eyþings. Þetta er gott framtak sem eykur metnað á meðal unga fólksins og lífgar upp á menningarlífið. “

Hlustið á sjónarmið annarra!
Í lok ræðu sinnar ávarpaði Hjalti Jón Sveinsson brautskráningarnema með þessum orðum:
“Á stund sem þessari langar mig að brýna fyrir ykkur nokkur mikilvæg gildi – eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við. Hlustið á sjónarmið annarra. Umgangist alla þá er á vegi ykkar verða af sömu alúð – háa sem lága.
Hafið hugfast að ekkert það starf sem ykkur verður falið er svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið að vera leyst af hendi af fyllstu alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir – í stóru sem smáu.
Berið virðingu fyrir og verið trú uppruna ykkar og heimabyggð – leggið alúð við móðurmálið og hæfileikana sem ykkur eru í blóð bornir.
Ég vil enda þessi orð mín með ljóðinu Aðventu eftir Hákon Aðalsteinsson. Það á ekki síður við í dag en þegar það birtist fyrst í ljóðabókinni Bjallkollu sem út kom árið 1992.

Aðventa

Brátt nálgast sú helgasta hátíð í bæ
með heilögu ljósunum björtum
andi guðs leggst yfir lönd, yfir sæ
og leitar að friði í hjörtum.

En nú virðist fegurðin flúin á braut,
friðurinn spennu er hlaðinn.
Lífsgæðakapphlaup og kauphallarskraut
er komið til okkar í staðinn.

Þá vill hann oft gleymast sem farveg oss fann
fæddur á jötunnar beði,
við týndum úr hjartanu trúnni á hann
og tilefni jólanna gleði.

Vökvaðu kærleikans viðkvæmu rós
þá veitist þér andlegur styrkur,
kveiktu svo örlítið aðventuljós
þá eyðist þitt skammdegismyrkur.

Það ljós hefur tindrað aldir og ár,
yljað um dali og voga,
þó kertið sé lítið og kveikurinn smár
mun kærleikur fylgja þeim loga.

Láttu svo kertið þitt lýsa um geim
loga í sérhverjum glugga,
þá getur þú búið til bjartari heim
og bægt frá þér vonleysisskugga.

Ágæta samkoma!

Ég þakka samstarfsfólki mínu fyrir vel unnin störf á önninni og undirbúning og framkvæmd þessarar hátíðar okkar í dag.
Brautskráningarnemum og aðstandendum þeirra, starfsfólki, skólanefnd og öðrum gestum óska ég gleðilegra jóla og þakka fyrir þessa góðu stund hér í Hofi.“

Brautskráning og viðurkenningar
Að þessu sinni voru 118 nemendur brautskráðir frá skólanum af hinum ýmsu námssviðum og brautum og 133 skírteini afhent.

Útskriftarnemarnir 118 skiptust þannig á námsbrautir:

Stúdentar af náttúrufræðibraut - 9          
Stúdentar að lokinni íþróttabraut eða sjúkraliðanámi - 11
Sjúkraliðar - 4
Stúdentar af félagsfræðabraut - 14 
Stúdentar af viðskipta- og hagfræðibraut - 3
Stúdentar af listnámsbraut - 18
Stúdentar í fjarnámi - 6
Meistaranám - 7
Háriðn - 10
Bifvélavirkjun - 1
Stálsmíði - 1
Vélstjórn - 3
Húsasmíði - 1
Málmsuðubraut - 10
Rafeindavirkjar - 8
Rafvirkjar -10
Stúdentar að loknu iðnnámi - 2 

Eftirtaldir kennslustjórar afhentu brautskráningarskírteini: Jónas Jónsson  kennslustjóri samfélagsfræðasviðs, Borghildur Blöndal kennslustjóri raungreinasviðs, Ragnheiður Þórsdóttir kennslustjóri listnámsbrautar, Baldvin Ringsted  kennslustjóri tæknisviðs og Ingimar Árnason kennslustjóri fjarnáms.

Eftirtaldir nemendur hlutu sérstakar viðurkenningar að þessu sinni fyrir góðan námsárangur og dugnað í félagslífi skólans:

Sólrún Eva Árnadóttir: Viðurkenning fyrir  góðan árangur í samfélagsgreinum. Eru veðlaunin veitt úr minningarsjóði Alberts Sölva heitins, sem var kennari við VMA.
Jóhann Freyr Óðinsson: Verðlaun fyrir góðan árangur í þýsku.
Dagný Halla Björnsdóttir: Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur í spænsku.
Hrafnhildur Fönn Ingjaldsdóttir: Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ensku. Gefandi er SBA-Norðurleið.
Sesselja Fanneyjardóttir: Viðurkenning  fyrir framúrskarandi árangur í textílgreinum á listnámsbraut. Gefandi er Kvennasamband Eyjafjarðar.
Dagbjört Héðinsdóttir: Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur í myndlistargreinum.  Gefandi er Litaland.
Ellen Guðmundsdóttir: Viðurkenning fyrir frábæran árangur í fagbóklegum greinum listnámsbrautar. Gefandi er Litaland.
Arnkell Jónsson: Viðurkenning fyrir bestan árangur rafeindavirkja. Gefandi er Ískraft ehf. á Akureyri.
Guðmundur Björnsson: Viðurkenning fyrir bestan árangur rafvirkja. Gefandi er Rönning ehf. á Akureyri.
Arnór Eiðsson: Viðurkenning fyrir næstbesta árangur í rafvirkjun. Gefandi er Reykjafell ehf.
Valborg Henrysdóttir: Verðlaun fyrir bestan árangur í hjúkrunargreinum á sjúkraliðabraut. Gefandi er Sjúkrahúsið á Akureyri.
Hrafnhildur Rut Hauksdóttir: Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku. Gefandi er Eymundsson á Akureyri. Þá fékk Hrafnhildur viðurkenningu fyrir góðan árangur í efnafræði. Gefandi er Efnafræðifélag Íslands. Hrafnhildur hlaut jafnframt verðlaun fyrir bestan árangur í raungreinum. Gefandi er Gámaþjónusta Norðurlands. Loks fékk Hrafnhildur viðurkenningu fyrir bestan árangur á stúdentsprófi. Gefandi er Íslandsbanki.
Erla Hleiður Tryggvadóttir: Viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur á hársnytibraut. Gefandi er Proact.
Svanborg Anna Jóhannsdóttir: Viðurkenningu fyrir hæstu einkunn í permanenti. Gefandi er Halldór Jónsson heildverslun
Arney Ágústsdóttir: Viðurkenning fyrir hæstu einkunn í dömuklippingu og háralitun. Gefandi er Ison heildverslun.
Tinna Sigurgeirsdóttir: Viðurkenning fyrir hæstu einkunn í dömublæstri. Gefandi er Proact.

Þá voru eftirfarandi nemendum afhentir blómvendir fyrir að hafa starfað dyggilega að félagslífi í skólanum og fyrir dugnað og ósérhlífni í þágu félaga sinna: Margrét Árnadóttir, Zak Valur Sigurbjörnsson, Jóhann Freyr Óðinsson, Heiðdís Austfjörð og Ársæll Axelsson.

Ávarp, tónlist, myndband og ljóðalestur
Auk ræðu skólameistara og brautskráningar flutti Ársæll Axelsson nýstúdent ávarp fyrir hönd  brautskráningarnema, Jóhann Freyr Óðinsson nýstúdent söng eitt lag og Embla Orradóttir, sem hlaut þriðju verðlaun í UNG SKÁLD AK 2013, las upp verðlaunaljóðið sitt Dyr. Einnig var sýnt bráðskemmtilegt myndband sem Hilmar Friðjónsson kennari gerði. Myndbandið, sem hér sést, sýnir samfélag 1200 nemenda og 150 starfsmanna skólans frá ýmsum hliðum. 

Hér má sjá myndir sem voru teknar á brautskráningunni í Hofi í dag. 

Hilmar Friðjónsson var einnig með myndavélina á lofti. Hér eru myndir frá honum. Og hér er annað myndaalbúm af brautskráningunni frá Hilmari.