Brautskráning VMA í dag - 140 nemendur brautskráðir
„Á tímamótum sem þessum sem allt þetta unga fólk hér á sviðinu stendur frammi fyrir, eru örugglega einhverjir sem velta fyrir sér; hvað svo? Sumir hafa skýr markmið um framhaldið en aðrir ekki hugmynd. Einhverjir spyrja e.t.v. líka; til hvers?
Við þekkjum máltækið „Hver er sinnar gæfusmiður“ og einhver hefur sagt að við eigum að láta drauma okkar rætast og að okkur séu allir vegir færir bara ef við ákveðum það. Alls konar frasa sem þessa höfum við heyrt. Kannski finnst okkur stundum þetta óraunhæft eða innihaldslaust blaður en ég held að þetta sé sagt af góðum hug til að hjálpa fólki til að eflast til framtíðar. Við þurfum líka að geta sagt þetta við okkur sjálf.
Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og sá vegur sem við fetum á hverjum tíma getur verið alls konar. Stundum eru miklar holur í veginum, jafnvel skörð í honum sem erfitt er að komast yfir en það mæta okkur líka breiðir og beinir vegir, jafnvel stórar brýr með sterkum undirstöðum sem flytja okkur yfir stór árgil eða þvera firði. Við sjálf hönnum sumt á lífsins vegi en stundum þurfum við aðstoð til að byggja upp þá leið sem við þurfum eða viljum fara. Stundum erum við ein á ferðinni á þessum vegi en oftar en ekki erum við samferða öðrum.
Flestir vilja fara bestu leiðina, auðveldustu og þá sem reynir minnst á okkur – en það eru leiðirnar sem eru mest krefjandi, sem þroska okkur og við lærum oft og tíðum mest af og hjálpa okkur að takast á við næstu ófærð.
Þessar myndlíkingar eru settar hér fram til að fá ykkur til að hugsa aðeins og staldra við og spyrja á hvaða vegferð er ég. Í hraða nútímans gefum við okkur allt of lítinn tíma til að staldra við og hugsa einmitt um það hvert er ég að stefna og stundum eru það einmitt tímamót eins og við útskrift sem við hugsum meira um það hvert við stefnum.
Ég man eftir því að þegar ég útskrifaðist sjálf sem hjúkrunarfræðingur – sem var á síðustu öld – kom svona andartak hjá mér við útskriftarathöfnina, hvað svo. Þá hafði ég ekki hugmynd um hvert námið mitt myndi leiða mig, hvaða tækifæri ég myndi fá seinna og hvaða veg ég myndi feta. En trúið mér, lífið er eintómar áskoranir og það er okkur öllum hollt að staldra stundum við og hugsa hvað svo. Það þarf ekki alltaf að þýða einhverja miklar breytingar því oft er niðurstaðan sú að vegurinn sem ég geng núna er beinn og breiður og mig langar ekkert að taka næstu gatnamót til hægri eða vinstri, heldur bara halda áfram sátt í minni vegferð. En ef stemningin er sú að prófa næstu gatnamót þá hikið ekki, jafnvel takið U-beygju.
Hvert sem framtíðin leiðir ykkur látið hjartað ráða för, verið óhrædd við áskoranir og finnið ykkar leið – og oft er besta leiðin með leiðsögn og stuðningi annarra.
Vinátta er okkur öllum afar mikilvæg og hún er svo margt í okkar daglega lífi. Samskipti við annað fólk nærir okkur en getur líka étið okkur upp ef við eigum í erfiðum samskiptum. Lífið er og verður alltaf þannig við munum eiga góða daga og erfiða daga. Það hvernig við byggjum upp samskipti og vináttu við annað fólk verður ekki kennt í skólastofu eingöngu. Við lærum mannleg samskipti með því að umgangast annað fólk og þannig verður vinátta til.
Vinátta getur breytt lífi okkar og það oftast til góðs. Að eiga góða vini sem taka vinum sínum eins og þeir eru getur verið huggun þegar eitthvað bjátar á hjá okkur. Við lærum svo margt í mannlegri hegðun í gegnum vini okkar. Samkennd, hjálpsemi, að finna að það sé einhver sem þarf á manni að halda en líka hvernig við getum tekist á við mótlæti því það reynir alltaf á sanna vináttu einhvern tímann. Það koma upp árekstrar og mótlæti og þá þurfum við að kunna að takast á við það. Við þurfum að læra að taka öðru fólki – líka vinum okkar – eins og það er.“
Þetta sagði Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari í upphafi yfirlitsræðu sinnar við brautskráningu Verkmenntaskólans á Akureyri í dag. Brautskráðir voru 140 nemendur af ólíkum námsbrautum og voru brautskráningarskírteinin samtals 162 því 22 nemendur brautskráðust með tvö skírteini.
Skólameistari sagði að á undanförnum árum hafi framhaldsskólar breyst mikið, námsframboð væri fjölbreyttara og fleiri skólar byðu upp á námstækifæri fyrir ólíka nemendahópa út frá getu og hæfni þeirra. Kennsluaðferðir hafi breyst og kennaranámið sömuleiðis, sjálfstæði nemenda væri meira í náminu og því einfaldara að finna þann farveg í námi sem henti nemendum á hverjum tíma. Með innleiðingu laga um farsæld barna sagði skólameistari að aukin áhersla væri lögð á stoðþjónustu, t.d. hvað varði náms- og starfsráðgjöf og velferð nemenda.
Sjálfstæði íslenskra framhaldsskóla
„Sjálfstæði íslenskra framhaldsskóla er mikið og vekur það alltaf athygli í samtölum við skólafólk erlendis hve mikið við ráðum skólastarfinu og hvernig við setjum upp námsbrautir. Sumir myndu nú segja að námsbrautir sem kenndar eru á Íslandi séu of margar, við eigum nokkra tugi mismunandi brautalýsinga fyrir stúdentsbrautir og námsbrautir í húsasmíði eru jafn margar og skólarnir sem kenna húsasmíði. En sjálfstæði skólanna er dýrmætt. Með því getum við betur aðlagað hvern skóla að sínu nærsamfélagi. Auðvitað er til aðalnámskrá og ráðuneytið fylgist með skólastarfi, setur ákveðna gæðastaðla ásamt lögum og reglugerðum um ýmislegt í skólastarfinu. En engu að síður er það staðreynd að næstum 22% íslenskra karla á aldrinum 18-24 ára hættu í námi eða starfsþjálfun á síðasta ári. Þetta er alls ekki góð þróun. Ástæðurnar fyrir auknu brottfalli eru margar og engin ein töfralausn til. Umgjörð náms og þess námsumhverfis sem er í íslenskum framhaldsskólum er ekki alltaf að höfða til nemenda og sérstaklega ekki ungra karlmanna. Áhugaleysi á námi almennt hjá nemendum er jafnframt að aukast um allan heim. Það þarf að rýna getur í gögn og finna leiðir til að auka áhuga ungs fólks á námi. Skólaumhverfið og kerfið sem er utan um það er ekki undanskilið, það þarf að vera opið fyrir breytingum og ganga í takt við samfélagsbreytingar, þarfir og væntingar ungs fólks. Ungu strákarnir eru ekki vandamálið, heldur kerfið sagði ráðherra háskólamála í fréttum í gær en ekkert í fréttinni sagði hvernig sami ráðherra vildi finna leiðir til að efla áhuga og skuldbindingu nemenda. Ráðherrann hefur kannski rætt það við fréttamanninn en þá ekki sagt frá því. Ég held að það sé fólk þarna úti sem vill ræða lausnirnar, skólafólk, áhrifafólk í stjórnmálum, nemendur og foreldrar.
Í þeirri umræðu sem fór fram síðasta haust þegar ráðherra boðaði sameiningar framhaldsskóla saknaði ég mjög umræðu um það hvert við viljum stefna með íslenska framhaldsskóla. Sú umræða var ekki tekin og því miður hefur hún ekki enn verið tekin af því plani sem umræðan fór á. Ég upplifði það að fólk vissi ósköp lítið um nám á framhaldsskólastigi á Íslandi og þær breytingar sem hafa orðið á síðustu árum. Umræðan einkennist af umræðum um skóla en ekki nám og um fortíðina en ekki framtíðina. Ég kalla eftir frekari umræðu á faglegum nótum og það sé greint betur hvers konar nám þarf inn í framtíðina, hvernig við í framhaldsskólunum þurfum að þróast en fyrst og fremst þarf að finna út hvernig hægt er að auka áhuga ungs fólks á námi og að ljúka námi hvort sem það er til að undirbúa nemendur fyrir háskólanám eða atvinnulíf,“ sagði Sigríður Huld skólameistari.
Fjölbreytt skólastarf að venju
Skólameistari fór því næst yfir skólastarfið og félagslífið þar með talið í vetur og nefndi í því sambandi nýnemahátíð, nýnemaball, Halloween-draugahús, fleiri böll, árshátíð, jólapeysudag, söngkeppni, dimisjón, gleðidaga á vegum nemendafélagsins Þórdunu, sem felst jafnan í einhverju matarkyns, t.d. heitu kakó á aðventunni mandarínum í desember, bollum á bolludaginn og kleinuhringir og skúffukaka fylgdu hækkandi sól. Leikfélag VMA setti upp Dýrin í Hálsaskógi í byrjun mars við góðar undirtektir og var uppselt á allar sýningar í Gryfjunni. Þá fór lið frá VMA og tók þátt í fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla sem fram fór í Smáralind nú í vor. Lið nemenda á viðskipta- og hagfræðibraut VMA keppti fyrst við 130 fyrirtæki úr flestum framhaldsskólum á Íslandi og komst í lokakeppnina þar sem 30 lið kepptu. Liðið stóð sig frábærlega og náði öðru sæti sem er besti árangur VMA í langan tíma en VMA hefur tekið þátt í þessari frumkvöðlakeppni frá upphafi. Nemendur á listnámsbraut sýna lokaverkefni sín í Listasafninu á Akureyri og nemendur í VMA hafa náð mjög góðum árangri í stærðfæðikeppni framhaldsskólanna á þessu skólaári. VMA-hlaupið var haldið nú í apríl um leið og vel heppnað opið hús skólans og þá eru nokkrir nemendur VMA í ýmsum landsliðum í íþróttum þar sem þeir hafa staðið sig mjög vel. Þá var Haukur Eiríksson brautarstjóri og kennari á rafdeild VMA tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna síðasta haust fyrir framúrskarandi framlag til iðn- og verkmenntunar.
Erlent samstarf hefur verið með miklum blóma i vetur. Nemendur og starfsfólk tekið á móti gestum og tekið þátt í ferðum og verkefnum erlendis sem aldrei fyrr. Nemendur og starfsfólk VMA fá dýrmæt tækifæri í gegnum erlent samstarf og er reynsla sem þau búa að alla ævi.
Til Akureyrar hafa komið á annað hundrað manns í gegnum hin ýmsu verkefni sem VMA tekur þátt í og hátt í 100 nemendur og starfsfólk skólans sem hafa farið erlendis. Við fengum viðurkenningar fyrir fyrirmyndarverkefni og getum stolt sagt að VMA sé í fararbroddi hvað varðar erlend samstarfsverkefni á Íslandi.
„Svo á VMA 40 ára afmæli á þessu ári og verður haldið upp á tímamótin í lok ágúst. Skólaárinu lauk svo með afar ánægjulegum viðburði þegar skrifað var undir samning um stækkun skólans. Öll sveitarfélögin við Eyjafjörð eiga aðild að þessum samningi við skólann og ráðuneytið. Nú er hönnunarvinnan að fara af stað og vonandi sjáum framkvæmdir hefjast fljótlega á nýju ári. Það er því sannarlega af nógu af taka í VMA og þetta er alls ekki tæmandi listi yfir það fjölbreytta og frábæra starf sem starfsfólk og nemendur vinna að á hverri önn,“ sagði Sigríður Huld.
Brautskráningar
Sem fyrr segir brautskráðust að þessu sinni 140 nemendur með 162 skírteini þar sem 22 nemendur útskrifuðust með tvö skírteini. Á þessu skólaári hafa því samtals útskrifast 228 nemendur því 88 nemendur voru útskrifaðir í desember sl.
Þó svo að bróðurpartur nemenda VMA komi sem fyrr frá Akureyri og úr nágrannabyggðarlögum er það svo að skólinn brautskráir á ári hverju nemendur alls staðar af landinu.
Skipting brautskráningarnema á námsbrautir er sem hér segir:
Félags- og hugvísindabraut 11
Fjölgreinabraut 15
Íþrótta- og lýðheilsubraut 2
Listnáms- og hönnunarbraut / fata- og textíllína 1
Listnáms- og hönnunarbraut /myndlistarlína 6
Náttúruvísindabraut 4
Viðskipta- og hagfræðibraut 5
Sjúkraliðabraut 4
Iðnmeistarar 17
Blikksmíði 1
Húsasmíði 14
Rafvirkjun 18
Vélstjórn 16
Vélvirkjun 2
Viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu starfsnámi 10
Sérnámsbraut 8
Starfsbraut 6
Harpa Jörundardóttir, sviðsstjóri brautabrúar og starfsbrautar, brautskráði 14 nemendur, þar af 8 á sérnámsbraut og 6 á starfsbraut. Nemendur á starfs- og sérnámsbraut eru í einstaklingsmiðuðu námi og fá fjölbreytt tækifæri í námi sínu við skólann.
Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta, sjúkraliða og fjarnáms brautskráði 65 nemendur, þar af 44 nemendur af stúdentsprófsbrautum skólans, 4 sjúkraliða (þar af 1 með stúdentspróf) og 17 iðnmeistara í ýmsum fögum, en þeir hafa allir stundað nám sitt í fjarnámi.
Unnur Ása Atladóttir, sviðsstjóra starfsnáms, brautskráði 51 nemanda úr iðn- og starfsnámi með 71 skírteini því 20 nemendur útskrifuðust með tvö skírteini. Þá útskrifuðust 10 með stúdentspróf að loknu starfsnámi.
Við brautskráninguna í dag tók Anna Kristín Auðbjörnsdóttir við skírteini sínu en hún var að útskrifast af hestabraut Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki en jafnframt tók hún hluta af námi sínu við VMA. Systir Önnu brautskráðist einnig frá VMA í dag.
Félagslíf, ávarp og tónlistaratriði
Að venju þakkaði skólinn nemendum sem hafa lagt ríka hönd á plóg í félagslífinu í skólanum fyrir þeirra miklu vinnu með því að afhenda þeim blómvendi.
Nemendurnir eru:
Franz Halldór Eydal
Hemmi Ósk Baldursbur
Viktor Helgi Gunnarsson
Sveinn Sigurbjarnarson
Óskar Óðinn Sigtryggsson
Andrea Margrét Þorvaldsdóttir, sem brautskráðist í dag sem rafvirki, hélt ávarp brautskráninganemanda. Ávarpið birtist í annarri frétt hér á heimasíðunni.
Tónlistarmaðurinn Anton Líni, sem er fyrrverandi nemandi í VMA, hefur verið að hasla sér völl á tónlistarbrautinni á undanförnum árum og misserum. Hann flutti tvö af lögum sínum við brautskráninguna í dag.
Horfið björtum augum til framtíðar!
Sigríður Huld skólameistrari beindi orðum sínum að brautskráningarnemum og sagði:
„Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með móðurmálið ykkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum og öllu því fólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. En fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Það er sagt um þessi svokölluðu framhaldsskólaár að þá kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt. Ég veit að það eru vinahópar í þessum útskriftarhópi og kannski fylgjast einhver ykkar áfram að í námi eða störfum í framtíðinni – en hjá öðrum skilja leiðir á vissan hátt nú við brautskráningu. Vináttan verður áfram til staðar. Viðhaldið vináttunni hvert til annars. Takk fyrir að velja VMA sem ykkar skóla, verið stolt og til hamingju.“
Margvíslegar áskoranir
Í lok brautskráningarræðu sinnar beindi Sigríður Huld orðum sínum til starfsmanna VMA. Hún sagði skólaárið hafa haft sínar áskoranir og sumar tekið meira á en aðrar.
„Það reyndi sannarlega á okkur öll í haust þegar boðaðar sameiningar framhaldskóla voru kynntar, bág fjárhagsleg staða skólans hefur áhrif á skólastarfið og það hefur mætt mikið á ykkur í kennara- og starfsmannahópnum við að ná markmiðum okkar með nemendum.
Framundan eru breytingar sem tengjast námi og kennslu. Við í VMA eigum að hafa okkar áhrif þar, við þurfum að efla nám og námstækifæri í okkar nærsamfélagi og ekki síður hlúa að okkur sjálfum, eflast í starfsþróun og taka nýjum áskorunum og tækifærum fagnandi.
Það verður alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu framtíðarsamfélagi. Í heimi sem er sífellt að breytast og margvísleg áreiti er hlutverk kennara afar mikilvægt. Kennarastarfið mun seint hverfa algjörlega inn í heim sjálfvirkni og snjallvæðingu þótt tæknin sé sannarlega að breyta kennsluháttum og skólastarfi. Áhersla í skólastarfi verður að vera í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, kenna meira um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi og efla jafnrétti í víðum skilningi.
Það er þakkavert að vinna með starfsmannahópnum í VMA. Ég er afar stolt af samstarfsfólki mínu, fyrir fagmennsku þeirra og umhyggju fyrir nemendum og þeim gildum sem skólinn stendur fyrir. Kærar þakkir öll fyrir samstarfið á skólaárinu.“
Hér eru fleiri myndir sem Hilmar Friðjónsson tók við brautskráninguna í dag: