Brautskráningarnemar í hársnyrtiiðn aftur í skólann
Það var sannarlega ánægjulegt að sjá verknámsnema mæta aftur í húsakynni VMA í dag og halda áfram námi sínu þar sem frá var horfið þegar samkomubannið hófst 16. mars sl. Eins og fram hefur komið er tveggja metra reglan enn í gildi og svo verður áfram og einnig er áfram passað mjög upp á smitvarnirnar, sprittbrúsarnir eru á sínum stað og nauðsynlegrar aðgæslu gætt.
Útskriftarnemendur í hársnyrtiiðn voru í hópi þeirra nemenda sem mættu í skólann í dag. Kennarar þeirra, Hildur Salína Ævarsdóttir og Harpa Birgisdóttir, hafa lagt línur um hvernig kennslu nemendanna verður háttað næstu daga. Í vor útskrifast tíu nemendur og til þess að halda tveggja metra reglunni var hópnum skipt upp í tvo fimm nemenda hópa. Annar hópurinn mætti klukkan 08.15 í morgun og seinni hópurinn í hádeginu. Verkefni dagsins var permanent og á morgun verður herraklipping þema dagsins og svo koll af kolli. Allt miðast þessi síðasti verklegi hluti við að nemendur hafi farið sem nákvæmast og best í þá verklegu kennslu sem námskráin kveður á um.
Tveir hópar hafa verið í hársnyrtiiðn í vetur, annars vegar nemendur sem eru að útskrifast frá VMA núna í maí og hins vegar nemendur á annarri önn, sem hófu nám sl. haust. Ekki er unnt að taka fyrsta árs nemana aftur inn í verklega kennslu núna í maí. Þeir tóku með sér heim ýmsa hluti til verklegra æfinga og hafa verið í sambandi við kennara sína í samkomubanninu.
Auk verklegrar kennslu í þessum mánuði verða útskriftarnemarnir einnig í vinnustaðanámi, sem er hluti af náminu. Þessi útskriftarhópur er sá fyrsti sem lýkur námi í hársnyrtiiðn frá VMA samkvæmt nýju kerfi – þar sem vinnustaðanámið (20 vikur á skólatíma) er hluti námsins og styttir leið nemenda að sveinsprófi. Einn brautskráningarnema hefur þegar lokið sveinsprófi, eins og greint hefur verið frá hér á heimasíðunni. Nokkrir aðrir nemendur eru komnir vel áleiðis með sína námssamninga, sem skal lokið fyrir sveinspróf.