Breyting á upphafi haustannar 2020
ATH - breyttar dagsetningar, sjá frétt 14. ágúst 2020.
Það er ljóst að upphaf skólastarfs verður í skugga veirufaraldursins og að á næstunni munum við þurfa að lifa með mismiklum takmörkunum vegna Covid-19. Hér í VMA er unnið að því að skipuleggja skólastarf miðað við þá staðreynd að sóttvarnareglur munu hafa mikil áhrif á nám og kennslu í allan vetur. Það er mikilvægt að við öll undirbúum okkur undir það að breytingar geta orðið með reglulegu millibili í vetur.
Til að undirbúa okkur sem best þarf tíma og því hefur skólabyrjun verið frestað. Kennarar og stjórnendur eru að undirbúa skipulag kennslunnar sem getur verið með ýmsum hætti og í takti við þær sóttvarnareglur sem munu gilda á hverjum tíma. Kennsla í áföngum getur verið með mismunandi hætti. Það þarf að huga að fjöldatakmörkunum í rýmum og sumir áfangar verða einhver blanda af fjarnámi og staðarnámi meðan aðrir geta verið nær eingöngu staðarnám eða fjarnám. Allt eftir eðli áfanga og fjöldatakmörkunum hverju sinni. Nemendur fá nánari upplýsingar varðandi fyrirkomulag kennslu þegar nær dregur skólabyrjun.
Við höfum það að markmiði að nýta þær heimildir sem sóttvarnareglur gefa á hverjum tíma til að hafa nemendur í húsi eins og kostur er.
Skólabyrjun hefur verið breytt með eftirfarandi hætti:
Nýnemar (fæddir 2004 eða 2005) og eldri nemendur (fæddir 2003 eða fyrr) sem hafa ekki áður verið í VMA verða boðaðir í skólann í litlum hópum miðvikudaginn 19. ágúst. Nánari upplýsingar um skipulag dagsins verður tilkynnt síðar.
Nemendur sem búa á heimavist er bent á upplýsingar á heimasíðu heimavistar varðandi móttöku nemenda þar.
Fimmtudaginn 20. ágúst hefst kennsla samkvæmt stundatöflu og því skipulagi sem sett verður upp. Nemendur fá nánari upplýsingar síðar.
Foreldrafundur sem vera átti þann 17. ágúst fellur niður en ég mun boða foreldrafund þegar aðstæður leyfa. Við munum koma upplýsingum til foreldra áður en skólastarf hefst, með tölvupósti eða með annarri hjálp tækninnar.
Þetta ástand mun reyna á okkur öll og við þurfum að lifa með veirunni og þeim tilmælum og fyrirmælum sem koma frá sóttvarnaryfirvöldum á hverjum tíma. Við þurfum að vera tilbúin að breyta um takt ef reglurnar breytast en að leiðarljósi höfum við velferð og menntun nemenda eins og ávallt. Í stefnu skólans kemur fram að nemendur séu hornsteinn skólans. Það að þeir þroskist, öðlist sjálfstraust, líði vel, tilheyri hópnum og tileinki sér ákveðna leikni, þekkingu og hæfni skiptir mestu máli. Þessum gildum munum við sem fyrr halda á lofti ásamt því að bjóða upp á öruggt náms- og starfsumhverfi.
Við verðum að sýna samstöðu, þolinmæði og seiglu til að takast á við breytt skólastarf. Við getum þetta saman og munum að við erum öll almannavarnir.
Velkomin í VMA á nýju skólaári og gangi okkur vel í vetur.
Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA