Brugðist við kröfu Slökkviliðs Akureyrar
Í síðustu viku skoðaði Slökkvilið Akureyrar eldvarnir í VMA að beiðni skólans og í komu í ljós nokkrir annmarkar sem unnið er að því að færa til betri vegar og skal úrbótum lokið um miðja þessa viku samkvæmt kröfum Slökkviliðsins.
Liður í úrbótunum var að hreinsa út úr kjallara skólans ýmiskonar rusl sem þar hefur safnast upp undanfarin tíu ár, en þá var síðast farið í tiltekt í kjallaranum. Strax eftir úttekt Slökkviliðs Akureyrar var gengið í að fjarlægja úr kjallaranum allt milli himins og jarðar, m.a. fór Leikfélag VMA með fullt af búningum og ýmsum öðrum hlutum sem félagið hefur ekki lengur not fyrir í Hjálpræðisherinn og síðan gekk vaskur hópur starfsmanna og nemenda í það sl. föstudag að fjarlægja ógrynni af dóti út úr kjallaranum. Gámaþjónustan tók að sér að flytja dótið í burtu og flokka það, eins og vera ber.
Benedikt Barðason skólameistari segir að í vetur sé lögð rík áhersla á öryggismál í skólanum og sem liður í því hafi verið leitað eftir úttekt Slökkviliðs Akureyrar á eldvörnum en fyrr á árinu gerðu Heilbrigðiseftirlitið og Vinnueftirlitið úttektir. Í úttekt Slökkviliðsins hafi komið í ljós annmarkar sem nú þegar hafi verið brugðist við að hluta og áfram verði unnið að því að færa hluti til betri vegar, þannig að uppfyllta megi lög og reglugerðir um bruna- og eldvarnir.
Benedikt segir að starfsfólk og nemendur eigi skilið mikið hrós fyrir hversu vel var brugðist við ákalli um úrbætur. Allir hafi lagst á eitt um að hreinsa gríðarlegt magn af rusli út úr kjallara hússins. Grettistaki hafi verið lyft og fyrir það beri að þakka alveg sérstaklega.
Benedikt nefnir að María Markúsdóttir hafi verið ráðin í tímabundið starf til að vinna með stjórnendum skólans að ýmsum hlutum er lúta að öryggismálum. Í þessu sambandi má nefna að í undirbúningi er víðtæk brunaæfing sem stefnt er að því að halda síðar í þessum mánuði.