Brynja Rán tekur þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna 1. apríl
Brynja Rán Eiðsdóttir verður fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna sem fer fram í Hinu húsinu að Rafstöðvarvegi 9 í Reykjavík nk. laugardagskvöld, 1. apríl, kl. 19:00. Brynja Rán sigraði Sturtuhausinn – söngkeppni VMA í Gryfjunni 10. nóvember 2022 og tryggði sér þar með farseðilinn í Söngkeppni framhaldsskólanna. Hún mun flytja vinningslagið sitt úr Sturtuhausnum, Amy Winehouse lagið, Back to Black.
Samband íslenskra framhaldsskólanema heldur keppnina. Til stóð að hún yrði í Kaplakrika í Hafnarfirði en af því verður ekki en þess í stað verður keppnin, sem fyrr segir, haldin í Hinu húsinu í Reykjavík. Þar sem það rúmar einungis um hundrað manns og nú þegar er uppselt er ætlunin að senda keppnina út í beinu streymi.
Stuðlabandið sér um undirspilið í þeim lögum flytjenda sem ekki ekki styðjast við undirspil af bandi.
Gert er ráð fyrir að flytjendur komi frá tuttugu og sex framhaldsskólum.
Dómarar kvöldsins verða Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Júlí Heiðar Halldórsson tónlistarmaður, Saga Matthildur sigurvegari Idol 2023 og Hildur Kristín Stefánsdóttir framleiðandi og tónlistarkona.