Býður nemendum upp á námskeið í hugrænni atferlismeðferð
Hjalti Jónsson sálfræðingur í VMA býður þeim nemendum í skólanum sem eru/hafa verið þunglyndir eða kvíðnir eða fundið til depurðar að sitja námskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM). Námskeiðið hefst fimmtudaginn 22. janúar nk. og mun það standa yfir í sex vikur. Þeir sem hafa áhuga að sækja námskeiðið eru beðnir að senda Hjalta tölvupóst eigi síðar en nk. fimmtudag, 15. janúar, á netfangið hjonsson@vma.is. Fyllsta trúnaðar verður gætt. Námskeiðið verður einu sinni í viku, klukkustund í senn.
Hjalti tekur fram að námskeiðið sé án endurgjalds og muni það fara fram á skólatíma. „Ég verð að hámarki með 12 til 15 manns í hóp og ég stefni að því að vera með í það minnsta tvö slík námskeið núna á vorönninni,“ segir Hjalti.
Hugræn atferlismeðferð (HAM) er algengasta meðferðarform við þunglyndi og kvíða í Íslandi og mælir landlæknisembættið
með HAM. Hjalti segir að námskeiðið hjálpi einnig þeim sem eru með lítið sjálfstraust/takmarkaða trú á eigin
getu.