Byggingadeild VMA fær gjöf frá Ferro Zink
Á dögunum færði fyrirtækið Ferro Zink á Akureyri byggingadeild Verkmenntaskólans á Akureyri að gjöf annars vegar úttekt hjá fyrirtækinu og hins vegar stuttermaboli fyrir nemendur og starfsmenn deildarinnar. Reynir Eiríksson framkvæmdastjóri Ferro Zink segir fyrirtækið vilja með þessu undirstrika mikilvægi góðs samstarfs þess og skólans.
Reynir segir að Ferro Zink hafi lengi lagt mikla áherslu á að eiga náið samstarf við iðnaðarmenn á svæðinu og ekki síður að treysta samskipti við Verkmenntaskólann á Akureyri. „Við höfum lengi stutt við starfsemi VMA og okkur er það mikil ánægja að gera það áfram. Að þessu sinni felst stuðningur okkar í að láta byggingadeild skólans í té úttekt hjá okkur að upphæð 100 þúsund krónur sem nýtist deildinni í úttekt á m.a. festingavörum frá okkur við byggingu nýs sumarbústaðar í vetur,“ segir Reynir og bætir við að fyrirtækið gefi einnig nemendum deildarinnar stuttermaboli.
Þrír kennarar byggingadeildar, Þorleifur Jóhannsson, Bragi S. Óskarsson og Ketill Sigurðarson, sóttu Ferro Zink heim að þessu tilefni og veitti Þorleifur gjöfinni viðtöku fyrir hönd deildarinnar. Við þetta tækifæri tók Skapti Hallgrímsson myndirnar sem hér birtast.
Þorleifur Jóhannsson segir ánægjulegt þegar fyrirtæki sýni byggingadeildinni og skólanum stuðning og velvild eins og þessi gjöf Ferro Zink á Akureyri beri vitni um. Ástæða sé til þess að þakka fyrir hana af heilum hug, gjöfin undirstriki gott og farsælt samstarf skólans og Ferro Zink.