Byggja sumarbústað
Eitt af föstum verkefnum annars árs nema í byggingadeild er að smíða sumarbústað og nú þegar er það verkefnið komið í fullan gang. Áætlað er að sumarbústaðurinn verði fullbyggður áður en skólaárinu lýkur.
Nú þegar hafa nemendur smíðað undirstöður bústaðarins – sjálfa gólfgrindina – og nú vinna þeir að því að smíða veggi bústaðarins. Til að byrja með fer smíðin fram inni en þegar lokið verður við veggina einingarnar verða þær færðar undir beran himinn og settar saman.
Bústaðurinn sem nemendurnir glíma nú við að smíða er 36 fermetrar að grunnfleti – svefnherbergi, baðherbergi og stofa með eldhúskróki – bústaður af minni gerðinni en af teikningu má ráða að útlit hans verður sérlega fallegt.
Kristján Davíðsson, kennari annars árs nemanna við smíði sumarbústaðarins, segir mikils virði fyrir nemendur að glíma við slíkt verkefni, hér séu þeir að takast á við raunverulega smíði sem veiti þeim innsýn í ýmsa hluti við byggingu húsa. Einnig sé mikilvægt að jafnhliða smíðinni tölvuteikni þeir húsið og fái þannig góða sýn á verkið frá öðru sjónarhorni. Og undir þetta tóku nemendur sem greinilega voru áhugasamir um smíði bústaðarins.
Greinilega er hér vandað mjög til verka og ljóst að sá sem kemur til með að eignast húsið þegar þar að kemur verður ekki svikinn af smíðinni.
Hér eru nokkrar myndir af nemendum og kennara þeirra, Kristjáni Davíðssyni, við smíði sumarbústaðarins.