Býr á Akureyri og leggur línur um ljósleiðaravæðingu Google í Evrópu
Það er till marks um hversu lítill heimurinn er orðinn með stafrænu byltingunni að í litlu herbergi á neðri hæð húss á Akureyri, með útsýni austur í Vaðlaheiði, situr Theodór Kr. Gunnarsson, starfsmaður stórfyrirtækisins Google, og vinnur dags daglega að hönnun á ýmsum þáttum er lúta að ljósleiðaravæðingu og uppbyggingu gagnavera Google í Evrópu. Theodór er uppalinn á Akureyri og var á sínum tíma nemandi á tölvubraut í VMA.
Grunnþekkingin úr VMA nýtist vel
„Ég flutti tíu ára gamall til Akureyrar úr Kópavogi. Fór hér í Lundarskóla og síðan lá leiðin í Gaggann. Þaðan fór ég í Menntaskólann en ákvað þegar ég frétti af stofnun tölvubrautar í VMA að skella mér þangað. Það var á vorönn árið 2000. Á þessum tíma hafði ég mikinn áhuga á tölvum og var löngum stundum í tölvuleikjum. Þannig kviknaði tölvuáhuginn. Tölvubrautin í VMA hentaði mér vel og þar lærði ég fjölmargt sem enn þann dag í dag nýtist mér mjög vel. Ég nefni til dæmis að mörg grunnatriði sem ég lærði hjá Ævari Ragnarssyni, Gunnari Möller og Adam Óskarssyni, sem var kerfisstjóri VMA á þessum tíma, hafa nýst mér afar vel. Raunar fékk Adam mig í vinnu með sér. Það kom þannig til að ég fór til Adams og spurði hvort hann gæti útvegað mér einhverja gamla tölvu sem hægt væri að nota fyrir nemendafélagið Þórdunu, ég var þá að vinna í því að setja upp heimasíðu fyrir Þórdunu. Úr varð að Adam bauð mér vinnu, sem ég fékk borgað fyrir, sem fólst í því að uppfæra og gera við tölvubúnað skólans. Að þessu var ég að vinna eftir að kennslu lauk á daginn. Ég lauk tölvubrautinni árið 2002 og lét þar við sitja. Stundum hef ég hugsað um að kannski hefði ég átt að klára stúdentinn en satt að segja hefur það aldrei komið mér í koll,” rifjar Theodór upp.
Fljótlega eftir að hafa lokið tölvubrautinni árið 2002 fór Theodór að starfa hjá fyrirtækinu Skrín þar sem hann var í ýmsum þjónustustörfum, m.a. við að setja upp ADSL-tengingar á sveitabýlum – sem áður höfðu búið við upphringisamband. Síðar tók hann þátt í að stofna fyrirtækið Stefnu með Birgi Haraldssyni, Matthíasi Rögnvaldssyni og Róberti Frey Jónssyni. Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað og Matthías, Birgir og Róbert Freyr starfa þar enn. Í upphafi var Stefna fyrst og fremst tölvuþjónustufyrirtæki en færði sig síðar í auknum mæli í heimasíðugerð
Til starfa hjá Google í Þýskalandi
„Eftir að hafa starfað hjá Stefnu um hríð fór ég árið 2005 til Sviss og gerðist þar um tíma sjálfboðaliði á vegum skátanna en ég hafði lengi starfað í skátunum hér heima. Þar úti kynntist ég konunni minni, sem einnig er skáti, en hún er þýsk og heitir Julia. Í framhaldinu fórum við í eins árs heimsreisu árið 2006 til Asíu, Nýja-Sjálands, Suður-Ameríku, Galapakos eyja og Mið-Ameríku. Ég kom síðan heim til Íslands og fékk vinnu hjá Skýrr en Julia fór til Heidelberg í Þýskalandi að læra lyfjafræði. Á því ári sem ég vann í ýmsum tölvumálum hjá Skýrr skoðaði ég möguleikana á því að finna enskumælandi vinnu í Þýskalandi. Ég hafði spurnir af áhugaverðri vinnu hjá Google og sótti um. Ég fór í fjögur símaviðtöl og að þeim loknum buðu þeir mér að koma út til þess að fara í frekari starfsmannaviðtöl þar. Ég ákvað að bóka bara flugmiðann út og það reyndist vera rétt ákvörðun því viku eftir síðara starfsmannaviðtalið úti var ég byrjaður að vinna í gagnaverum Google í Frankfurt og þar starfaði ég í þrjú ár. Þetta var nýtt fyrir mér að því leyti að þetta var allt miklu stærra í sniðum en ég var vanur frá Íslandi.
Ég færði mig síðan yfir í netdeildina hjá Google, var mest í Frankfurt en einnig í Amsterdam, París og London, við m.a. að setja upp routera – netbeina og tengja inn stærri símafyrirtæki. Á þessum tíma var ég aðeins farinn að vinna að ljósleiðaramálum og svo fór að tveimur árum liðnum að mér bauðst að færa mig alfarið yfir í ljósleiðaradeildina sem vinnur að uppsetningu og hefur umsjón með ljósleiðarakerfum Google í Evrópu. Árið 2015 var ég ráðinn í nýja stöðu sem felst í því að hanna og plana ljósleiðarakerfi í Evrópu. Einn maður vinnur sambærilega vinnu fyrir Google með aðsetur í Japan og tveir eru staðsettir í Bandaríkjunum. Ég vinn náið að þessum málum með um fimmtán manna teymi í Dublin á Írlandi. Það má í stórum dráttum segja að um helmingur af mínu starfi sé hönnun og að gera framtíðaráætlanir um uppbyggingu ljósleiðarakerfa og um helmingur forritunarvinna til þess að halda utan um allar þessar upplýsingar. Það þarf stöðugt að uppfæra áætlanir um nauðsynlega bandbreidd og gera áætlanir um endurbætur og frekari uppbyggingu kerfisins. Það má í stórum dráttum segja að við þurfum alltaf að vinna eftir fimm ára plani. Í þessum efnum er öll Evrópa undir og að mörgu þarf að hyggja, eins og t.d. aðgengi að rafmagni og kælingu fyrir gagnaverin. Við þurfum stöðugt að velta því fyrir okkur hverskonar kerfi henta best og hvaða endabúnað er best að nota. Þetta er hluti af því sem ég er að fást við dags daglega,” segir Theodór.
Til Akureyrar í september sl.
Theodór kveðst hafa búið í litlu og kyrrlátu 120 manna samfélagi í Þýskalandi með Juliu konu sinni, en bæði eru þau 35 ára gömul, og Emil Tuma, tveggja og hálfs árs syni þeirra. Eftir að hafa starfað í öll þessi ár fyrir Google á meginlandi Evrópu segir Theodór að hugurinn hafi farið að leita heim til Íslands. Hann fór á fund yfirmanna sinna og þeir gáfu grænt ljós á, í sex mánuði til að byrja með, að fjölskyldan myndi flytja til Akureyrar og Theodór héldi áfram að vinna sitt starf þaðan. Fjölskyldan flutti til Akureyrar í september sl. og tók einbýlishús á leigu af fólki sem verður tímabundið við nám í Danmörku. „Við tókum húsið á leigu með öllu. Við komum bara með fötin okkar og helstu nauðsynjar. Búslóðin er enn í gámi út í Þýskalandi. Við vildum ekki strax taka skrefið til fulls, við vildum láta á það reyna hvernig okkur líkaði að búa hér og einnig miðuðum við í upphafi við sex mánuði. En það er ekkert launungarmál að ég hefði áhuga á að vera hér áfram, enda eru mínar rætur hér. Mamma býr hér á Akureyri en pabbi í Keflavík. Við viljum láta á það reyna hvernig konunni minni líkar að búa hér. Hún er með doktorspróf í lyfjafræði og gæti eflaust fengið vinnu við hæfi hér á Íslandi. Hún var að ljúka fyrsta íslenskunámskeiðinu hjá SÍMEY. Það kemur sér ágætlega að við erum bæði hér heima því strákurinn okkar hefur ekki enn sem komið er fengið pláss á leikskóla," segir Theodór.
Theodór er ekki eini íslenski starfsmaður Google á Íslandi. Þrír aðrir eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og vinna í öðrum deildum Google. Fleiri Íslendingar starfa hjá fyrirtækinu en búa í útlöndum. Í það heila telur Theodór að á bilinu 80 til 100 þúsund manns starfi hjá Google – auk gríðarlegs fjölda verktaka sem vinna að ákveðnum verkefnum fyrir fyrirtækið en eru ekki í föstu starfi. Hér má sjá yfirlitsmynd af netkerfi Google í öllum heiminum og hér er mynd af neðansjávarljósleiðarakerfi heimsins.
Tíðir fjarfundir
„Þetta er fjölbreytt starf og ég kynnist mörgu. Áður ferðaðist ég mikið vegna starfa minna en úr því hefur dregið. Ég var þó nýverið í Dublin og fer aftur þangað 10. desember í stutta heimsókn. Ég vinn náið með ljósleiðarateymi Google þar og þarf því að hitta það reglulega. En fjarfundir eru tíðir og ég hugsa að samtals sé ég á slíkum fundum í allt að 8-10 klukkustundir í hverri viku, um 20% af vinnutímanum. Það krefst vissulega töluverðs sjálfsaga að vinna bróðurpart vinnunnar við tölvu hér heima en því er ég vanur frá því við bjuggum í Þýskalandi. Þar vann ég löngum stundum á tölvu út í sveit í litlu samfélagi. Þetta venst mjög vel og er eins og hver önnur vinna, það skiptir ekki máli hvort ég er á stórum vinnustað með fjölda fólks sem situr við tölvur eða er einn hér á Akureyri og sit við tölvuna, bróðurpartur daglegra samskipta er í gegnum tölvuna,” segir Theodór en þessa dagana er hluti af starfi hans að leggja línur um uppbyggingu á nýju gagnaveri Google í Danmörku.