Byrjunarreitur - frábært en ókeypis?
Í dag, þriðjudaginn 8. mars, kl. 17 heldur Klængur Gunnarsson myndlistarmaður fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Byrjunarreitur - frábært en ókeypis?
Í fyrirlestrinum fjallar Klængur út frá sinni eigin reynslu hvað bíður listnema eftir útskrift. Auk þess mun hann tala um listamannarekin rými, samstarf við gallerí og liststofnanir, stöðu og umhverfi styrkja og fleira.
Klængur Gunnarsson hefur unnið að ýmsum verkefnum eftir útskrift frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2011. Undanfarin tvö ár hefur hann verið virkur þátttakandi í listasamfélaginu á Norðurlandi og tekið þátt í sýningum t.d. á Listasafninu á Akureyri, í Verksmiðjunni á Hjalteyri og Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Klængur er formaður Myndlistarfélagsins á Akureyri.
Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í Ketilhúsinu á þriðjudögum í vetur sem hófst sl. haust og lýkur fyrir páska.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.
Aðgangur á fyrirlesturinn í dag er ókeypis og eru allir velkomnir.