Dimmision í dag
Á þessum síðasta vetrardegi verður skólahald í VMA eilítið öðruvísi en venjulega, enda er dimmision í dag, sem þýðir að nemendur sem ljúka námi frá skólanum í vor og um næstu jól bregða á leik, í það heila eru þeir einhvers staðar á milli 150 og 200. Nemendur voru mættir við VMA um fimmleytið í morgun til þess að undirbúa sig fyrir átök dagsins.
Eins og venja er til fara nemendur um allan bæ í dag á vögnum í skrautlegum búningum. Ferð þeirra er heitið til kennara sinna núna í morgunsárið til þess að kveðja þá með formlegum hætti. Sumir kennarar fá marga hópa í heimsókn, því vissulega hafa þeir kennt nemendum úr fleiri en einni deild.
Að loknum heimsóknum til kennara út um allan bæ koma nemendur aftur í skólann og láta þar til sín taka. Fara um skólann með ærslum og gera kennurunum sínum í gegnum tíðina væntanlega eilitla skráveifu. Leikurinn berst síðan í Gryfjuna í löngufrímínútum – kl. 09.40 – og þar skora nemendur á kennara í ýmsar óhefðbundnar þrautir. Hinni formlegu dimmision-dagskrá í skólanum lýkur síðan með kaffisamsæti í M-salnum þar sem nemendur bjóða kennurum og starfsfólki skólans upp á góðgjörðir.