Dimission í dag
Dagurinn var tekinn snemma í VMA í dag enda dimission - þar sem útskriftarnemar klæða sig upp í hina ýmsu furðubúninga, keyra um bæinn í morgunsárið, heilsa upp á kennarana sína og skemmta sér. Það er heldur betur veðrið til útiveru í dag, logn og bærilega hlýtt. Gerist ekki betra!
Útskriftarnemar, bæði þeir sem útskrifast núna í maí og einnig þeir sem ljúka námi sínu í desember, mættu fyrir allar aldir í VMA, eins og venja er, þess albúnir að taka einn góðan rúnt í bænum. Nemendur fóru vel nestaðir í bæjarrúntinn á opnum vögnum því þeim var boðið upp á kakó og kleinur áður en lagt var af stað.
Hilmar Friðjónsson var með myndavélina á lofti við VMA og tók þessar myndir.
Hér eru líka myndir sem Árni Már Árnason tók af útskritarnemum í morgunsárið.
Eins og vera ber á dimission hefur verið þéttskipuð dagskrá í dag. Á tíunda tímanum hittust brautskráningarnemar, aðrir nemendur skólans og starfsmenn í Gryfjunni og fóru þar í nokkra leiki. Að því loknu lá leið brautskráningarnema, eins og venja er til, inn á kennarastofu þar sem þeir áttu góða stund með starfsmönnum og gerðu glæstum veitingum skil. Hér eru myndir sem voru teknar í Gryfjunni og á kennarastofunni í dag.