Dr. Thomas Brewer með þriðjudagsfyrirlestur
Dr. Thomas Brewer, myndlistarmaður og prófessor í listum, heldur þriðjudagsfyrirlestur í dag, 4. október, kl. 17 í Ketilhúsinu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestursins, sem fer fram á ensku, er The Significance of Art in Our Education. Í fyrirlestrinum verður m.a. fjallað um hvernig list og menntun geta haft áhrif á lífið. Brewer mun rekja persónulega sögu sína, ásamt listrænni og faglegri þróun sem hefur leitt hann til Akureyrar í fimmta sinn. Aðgangur er ókeypis.
Dr. Thomas Brewer er með B.A. gráðu í listum og keramík frá Southern Illinois University Carbondale (1973), M.A. gráðu í listum frá University of Illinois Urbana-Champaign (1985) og Ph.D. gráðu í listum frá Florida State University (1989). Hann hefur kennt listir og listnám á háskólastigi undanfarin 34 ár.
Brewer opnaði sýninguna "Adjust <X> Seek (Con’t)" í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri sl. laugardag og hefur dvalið í gestavinnustofu Gilfélagsins síðan í byrjun september. Þetta er hans fyrsta sýning á Íslandi. Í mörgum verka hans er leikur að orðum og aðstæðum í lífinu, með keim af kímni og kaldhæðni.
Fyrirlesturinn er annar í röð fyrirlestra á þriðjudögum í vetur. Sem fyrr eru fyrirlestrarnir samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, VMA, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri.