Efni sem á erindi við alla
Nemendur Valgerðar Daggar Jónsdóttur í tveimur uppeldisfræðiáföngum hafa að undanförnu unnið að verkefnum sem tengjast átaki Stígamóta, Sjúkást, og hafa veggspjöld tengd verkefninu verið áberandi á göngum skólans. Fyrr á þessari önn var fjallað hér á heimasíðunni um sambærileg verkefni sem fyrsta árs nemendur unnu í lífsleikni.
Á heimasíðu Stígamóta segir um Sjúkást: „Sjúkást er fræðslu- og forvarnaverkefni fyrir ungt fólk um kynbundið ofbeldi og áreitni. Markmiðið er að fræða ungmenni um mörk og samþykki með það að leiðarljósi að útrýma kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi. Áhersla er lögð á að hjálpa ungmennum að þekkja muninn á heilbrigðum, óheilbrigðum og ofbeldisfullum samböndum. Jafnframt að fjalla um muninn á kynlífi og kynferðisofbeldi og hvernig klám getur ruglað í mörkunum þar á milli.“
Hekla Sólbjörg Gunnarsdóttir er ein þeirra nemenda sem vann verkefni um Sjúkást í uppeldisfræði á þriðja þrepi. „Þetta átak Stígamóta gengur út á að fræða ungt fólk um sambönd, samtöl, kynlíf o.fl. Í verkefninu okkar í uppeldisfræði unnum við fullt af veggspjöldum, myndböndum o.fl. í því skyni að breiða út boðskapinn. Til þess að undirbúa okkur fyrir verkefnavinnuna horfðum við á þau myndbönd sem Stígamót hafa gert um þetta og þau opnuðu augu mín fyrir því að ungt fólk hér á landi fær allt of litla kynfræðslu í skólakerfinu. Auðvitað er þetta eitthvað mismunandi eftir skólum og ég t.d. tel mig hafa verið heppna að hafa kennara sem ræddi þessi mál opinskátt. En þegar ég heyri í krökkum á mínum aldri kemur í ljós að ótrúlega margir hafa enga kynfræðslu fengið á sinni skólagöngu. Mér finnst mjög mikilvægt að allir fari í gegnum þetta námsefni því af því getur hver og einn lært svo mikið um eigin mörk, tilfinningar sem koma í kjölfar þess að vera kynvera o.s.frv. Í verkefnavinnunni vorum við í sambandi við Stígamót og fengum hjá þeim veggspjöld og annað upplýsingaefni. Einnig unnum við, hvert og eitt, eitthvað annað sem tengdist þessu viðfangsefni. Til dæmis vann ég með vinkonum mínum Wikipedia síðu um kynlífsleikföng sem við sáum að vantaði. Þetta efni er ekki enn orðið opinbert en ég er að vinna að því að fá þetta birt,“ segir Hekla Sólbjörg.
Í uppeldisfræðiáfanganum á öðru þrepi bjuggu nemendur til spurningakeppni á Quizizz, sem er öllum opin til síðasta kennsludags, 12. maí nk. Verðlaun eru í boði fyrir sigurvegarann.
Hlekkur á keppnina er: joinmyquiz.com – kóði 45171146.
Sveinn Brimar Jónsson var einn nemendanna í þessum áfanga. Hann segir afar mikilvægt að fjalla um þetta málefni og myndböndin á heimasíðu Stígamóta séu í senn alvarleg og fyndin og séu til þess fallin að vekja til umhugsunar. „Það er bara mjög mikilvægt að þetta efni sé aðgengilegt því það á erindi við alla, óháð aldri,“ segir Sveinn Brimar.