Eftirréttakeppni Arctic Challenge í VMA
Magnús Steinar Magnússon er eftirréttameistari Arctic Challenge 2022. Hann kom, sá og sigraði í eftirréttakeppni Arctic Challenge sem fram fór í húsnæði matvælabrautar í VMA sl. laugardag. Það fór vel á því að halda keppnina í VMA því nokkrir af þátttakendum hafa verið í námi í VMA og skólinn hefur lengi starfað náið með veitingageiranum á Norðurlandi.
Þetta er í fyrsta skipti sem Arctic Challenge efna til slíkrar eftirréttakeppni á Akureyri en eins og segir á heimasíðu samtakanna „vilja þau efla hugvit og ástríðu veitingamanna á Norðurlandi. Tilgangurinn er að búa til grundvöll fyrir samkeppni sem sameinar ástríðu og fagmennsku allra veitingastaða Akureyrar og einnig til að þétta veitingageirann á Akureyri saman.“
Sjö tóku þátt í eftirréttakeppninni sl. laugardag: Davíð Þór Þorsteinsson, nemi á Aurora (Icelandair Hotels) á Akureyri, Magnús Steinar Magnússon, bakari í Almar bakaríi í Hveragerði, Jón Arnar Ómarsson, nemi á Strikinu á Akureyri, Kristinn Hugi Arnarsson, nemi á Strikinu Akureyri, Karolína Helenudóttir, Sykurverk Café á Akureyri, Hafþór Freyr Sveinsson, matreiðslumaður í Slippnum Akureyri, og Mikael Páll Davíðsson, nemi á Rub 23 á Akureyri.
Eftirréttina útfærðu þátttakendur frá grunni en skilyrði var að þrír hlutir væru í þeim; súkkulaði frá súkkulaðiframleiðandanum Valrhona, sem Ekran, aðalstyrktaraðili keppninnar selur, lakkrís að eigin vali og ber af ýmsum toga.
Þátttakendur gátu undirbúið sig vel fyrir keppnina. Auk þess að búa eftirréttinn til þurfti vitaskuld að koma honum fallega fyrir á diskinum með tilheyrandi skreytingu og einnig þurfti að fylgja í rituðu máli lýsing á réttinum með tilheyrandi uppskriftum.
Dómnefndarfólkinu var vandi á höndum að komast að niðurstöðu. Það vandasama hlutskipti var í höndum Kolbrúnar Hólm Þorleifsdóttur, yfirmatreiðslumeistara á Gistihúsinu á Egilsstöðum, og Alfreðs Péturs Sigurðssonar, matreiðslumeistara á Ghost Kitchen á Akureyri.
En niðurstaðan var þessi:
- sæti Magnús Steinar Magnússon
- sæti Davíð Þór Þorsteinsson
- sæti Hafþór Freyr Sveinsson
Glæsileg verðlaun voru fyrir þrjú efstu sætin frá styrktaraðilum keppninnar: Ekran, Garri, Globus, Jarðböðin í Mývatnssveit, Kjarnafæði-Norðlenska og Glerártorg.
Eftirréttameistarinn Magnús Steinar er heldur betur vel að sér í eftiréttum. Meðal annars starfaði hann um tíma í London, fyrst og fremst í því að matreiða eftirrétti. Sem sagt sérhæfður eftirréttameistari! Sem fyrr segir starfar Magnús Steinar núna í Almar bakaríi í Hveragerði.