Eitt og annað í erlendum samskiptum
Eins og oft hefur komið fram hér á heimasíðunni tekur VMA virkan þátt í hverskonar Evrópusamstarfi. Nemendur og kennarar taka á móti gestum erlendis frá og vinna með þeim að fjölbreyttum verkefnum og sömuleiðis fara bæði kennarar og nemendur út fyrir landsteinana til þess að taka þátt í samstarfsverkefnum og/eða kynna sé skólastarf í öðrum löndum sem nýtist þeim síðan vel í sínu daglega starfi í VMA.
Að undanförnu hefur verið í mörg horn að líta í þessum efnum.
Nefna má að dagana 3.-7. október fóru tveir kennarar í rafdeild VMA, Ari Baldursson og Björn Hreinsson, og fjórir nemendur í deildinni, Stormur Karlsson, Ársæll Mar Sigurþórsson, Jónas Þórir Þrastarson og Magnús Árni Jóhannesson, til Gran Canaria á Kanaríeyjum og tóku þar þátt í samstarfsverkefninu ELECO TEAM með fulltrúum samstarfsskóla á Kanaríeyjum (Spáni), í Hollandi, Ungverjalandi, Tyrklandi og Slóveníu. Þetta Erasmus+ verkefni hófst fyrr á þessu ári þegar fulltrúar skólanna hittust í fyrsta skipti í Tyrklandi, næst hittust nemendur og kennarar hér í VMA í maí sl. og nú var komin röðin að Kanaríeyjum. Næst liggur leiðin til Ungverjalands í mars á næsta ári og síðar verður haldið til Hollands og Slóveníu. Meginstefið í ELECO TEAM er tæknilausnir þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. Horft er til framleiðslu og endurnýtingar grænnar orku. Ari Baldursson segir að verkefnið á Kanaríeyjum hafi gengið mjög vel og verið lærdómsríkt fyrir bæði nemendur og kennara.
Fyrr í þessum mánuði voru námsráðgjafar skólans, Svava Hrönn Magnúsdóttir og Helga Júlíusdóttir og Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og fjarnáms, í Finnlandi og heimsóttu þar tvo skóla, annars vegar Salpaus skólann í Lahti og hins vegar Axxell skólann í Karis, sem er bær fyrir vestan höfuðborgina Helsinki.
Þá voru fimm kennarar á starfs- og sérnámsbraut VMA, Hafdís Björg Bjarnadóttir, Margrét Bergmann Tómasdóttir, Inga Dís Árnadóttir, Dagbjört Lauritz Agnarsdóttir og Urður María Sigurðardóttir, í skólaheimsóknum í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Skólarnir sem voru heimsóttir eru Unges uddannelsesenter, Hans Knudsen Instituttet og Behandlingsskolen.