Eitt og annað um Eyrarlands-Þór
Í tengslum við vorbrautskráningu nemenda VMA í Gryfjunni laugardaginn 22. maí 2004 var afhjúpað með formlegum hætti Þórslíkneskið við austurinngang Verkmenntaskólans. Það fór vel á því enda fagnaði skólinn þá tuttugu ára afmæli sínu. Verkið er stækkuð og nákvæm eftirlíking af Eyrarlands-Þór, sem er einn af merkum dýrgripum í varðveislu Þjóðminjasafnsins og gefur að líta í grunnsýningu safnsins.
Verkmenntaskólinn stendur á Eyrarlandsholti en bærinn Stóra-Eyrarland, sem holtið er kennt við, stóð beint norður af Sjúkrahúsinu á Akureyri, á milli þess og Lystigarðsins. Talið er að þessi bær hafi staðið á svipuðum stað allt frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar og þar er einnig sögð hafa verið svokölluð hálfkirkja. Bæjarhúsin á Stóra-Eyrarlandi, sem var gríðarlega landmikil jörð sunnan Glerár, voru rifin árið 1949 og tóftirnar jafnaðar við jörðu.
Hið upprunalega Þórslíkneski, sem kennt er við Eyrarland og nú varðveitt á Þjóðminjasafninu, er talið hafa fundist annað hvort 1815 eða 1816 á bænum Eyrarlandi nálægt Akureyri. En þá vandast málið því bæði var Eyrarland í Öngulsstaðahreppi, austan Eyjafjarðarár, og Stóra-Eyrarland, vestan Eyjafjarðarár. Það er sem sagt og hefur aldrei verið vissa fyrir því hvar nákvæmlega þetta merka líkneski fannst en þó má leiða líkur að því að það hafi fundist í landi Stóra-Eyrarlands því vitað er að Jóhann Gudmann, kaupmaður á Akureyri, komst yfir þennan merka grip og áttaði sig á varðveislugildi hans.
Jóhann Gottlieb Guðmundsson Gudmann (1785-1859) hóf verslun á Akureyri árið 1813. Hann átti verslanir víðar en á Akureyri en höfuðstöðvar verslunar hans voru í Danmörku. Föðurætt Jóhanns var íslensk en móðurættin rússnesk. Faðir hans hét Guðmundur Magnússon og þaðan er skýringin komin á Gudmannsnafninu. Jóhann Gudmann bjó mestan hluta ævi sinnar í Kaupmannahöfn.
Jóhann áttaði sig á því að Þórslíkneskið hefði mikið varðveislugildi. Á þessum tíma var ekkert safn hér á landi en Forngripasafnið var hins vegar í Kaupmannahöfn og þangað kom Jóhann líkneskinu til varðveislu í nóvember 1817.
Í grein sem dr. Kristján Eldjárn, fornleifafræðingur, þjóðminjavörður og forseti Íslands, ritaði í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1982 gefur hann greinargóða lýsingu á Þórslíkneskinu á Þjóðminjasafninu:
Líkanið er steypt úr bronsi, 6,7 cm hátt, og sýnir kringmótaða mynd af manni sem situr uppréttur á stól með fjórum fótum og þremur toppum upp úr bakinu. Engir armar eru á stólnum. Maðurinn er með toppmyndaða húfu eða hatt á höfðinu, en að öðru leyti er hann nakinn að sjá, því að til dæmis sjást tær hans og ekki er unnt að greina nein merki klæðnaðar. Hann er með mikla kampa sem leggjast eins og lauf upp á báða vanga - eða eitthvað sem minnir á lauf. Á hvorum vanga um sig er eins og þetta lauf skiptist í tvennt, og sveigist efri parturinn upp eftir kinninni, yfir kinnbeinið, nær hér um bil upp að auga og endar þar í uppundningi. Neðri parturinn er hinsvegar nokkru breiðari og sveigist lítið eitt niður á við til beggja hliða. Einnig sýnist maðurinn vera með gróskumikið hökuskegg, og svo er að sjá sem hann kljúfi það í tvennt með krepptum fingrum sínum. Mætti nú búast við að skeggið héldi áfram fyrir neðan hendurnar, en það gerir það ekki, heldur er þar orðið að eins konar krossi með þremur álmum, sem allar enda í kringlum, og gengur ein niður á milli hnjánna, en hinar hvíla hvor á sínu hné. Myndin er mjög haganlega gerð og ber vott um mikla kunnáttu í málmsteypingu. Þótt smá sé, aðeins fáeinir sentimetrar, er myndin á sinn hátt stór í sniðum og mundi þola að vera stækkuð mikið án þess að verða ankannaleg.
Í aðfangaskrá Forngripasafnsins í Kaupmannahöfn fyrir árin 1816 til 1820 er líkneski frá Íslandi lýst á þennan hátt:
Fra Köbmand J. Gudmand indsendt i Nov. 1817 og foræret: En liden Idol af Metal, funden 1817 i Jorden paa Island, 2,5 Tom. hoj, siddende paa en Stol med en Hue paa Hovedet, med Knebelsbarter, holdende med begge Hænderne et korsformet Instrument, maaske Thors Hammer.
Og í Collegial-Tidende, No. 7 og 8, 10. febrúar 1821, segir:
Aar 1817 skjænkede Kjobmand Gudmand fra Island igjennem Professor Magnussen et paa denne Öe fundet lidet Metal-Idol, som engang har været forgyldt. Det har en Slags Hammer i Haanden, en Pileus paa Hovedet, og er maaske Guden Thor.
Hér var sem sagt strax sett fram tilgáta um að líkneskið væri þrumuguðinn Þór með hamarinn Mjölni í höndum.
Þórslíkneskið var í Forngripasafninu í Kaupmannahöfn í meira en eina öld en dönsk stjórnvöld ákváðu að gefa Íslendingum það ásamt mörgum öðrum dýrgripum úr sögu Íslands árið 1930, í tengslum við Alþingishátíðina á Þingvöllum þegar þúsund ár voru liðin frá að Alþingi var þar sett á stofn.
Fræðimenn hafa í gegnum tíðina velt mikið vöngum yfir hvort umrætt líkneski sé Þór með hamarinn Mjölni eða eitthvað allt annað – ef til vill sé hinn meinti hamar hinn kristni kross. En vandamálið er að ekki er nákvæmlega vitað hvenær umræddur dýrgripur var búinn til og hvar – var hann gerður fyrir kristnitöku á Íslandi árið 1000 eða eftir kristnitöku?
Ein af tilgátunum sem dr. Kristján Eldjárn varpaði fram í framangreindri grein í Árbók Hins íslenzka fornleifafélagsins er að Eyrarlandsstyttan hafi mögulega verið svokallaður hnefi eða einhvers konar fyrirliði eða kóngur í hneftafli, sem var borðspil sem spilað var á söguöld. Hneftafl var um margt líkt skák og var herkænskuleikur þar sem kóngurinn í taflinu var árásarmarkið.
En hvað sem öllum bollaleggingum um uppruna og aldur Eyrarlandsstyttunnar líður höfðu Bernharð Haraldsson fyrrv. skólameistari VMA og Þröstur Ásmundsson, sem lengi var kennari við skólann, forgöngu um að þessi merki gripur í íslenskri og ekki síst eyfirskri sögu yrði hafinn upp til þeirrar vegsemdar og virðingar sem honum bæri. Það skyldi gert með því að stækka hann og steypa í brons. Þröstur leitaði til Kristins E. Hrafnssonar myndlistarmanns og fékk hann til þess að mæla upp líkneskið á Þjóðminjasafninu og teikna það nákvæmlega fyrir fyrirtæki í Englandi þar sem styttan var steypt í brons. Þröstur leitaði einnig til Geirharðs Þorsteinssonar arkitekts VMA og sonar hans Þorsteins Geirharðssonar, sem þá hafði tekið við af föður sínum sem arkitekt skólans, með þá hugmynd að setja upp styttuna af Þórslíkneskinu við skólann. Þröstur segir að henni hafi strax verið tekið fagnandi og úr hefði orðið að styttunni var fundinn staður við austurinngang skólans. Þar með var austurinngangurinnn endanlega rammaður inn sem aðalinngangur Verkmenntaskólans.
Akureyrarbær (menningarmálanefnd) studdi vel við þessa framkvæmd alla enda var litið svo á að hér væru tvær flugur slegnar í einu höggi, annars vegar að minnast þess að þessi merki gripur hafi fundist hér á svæðinu á sínum tíma og hins vegar að setja upp afar veglegt og glæsilegt útilistaverk á Akureyri. Fasteignir ríkisins lögðu sitt af mörkum við umgjörð verksins.
Sem fyrr segir var Eyrarlandsstyttan, sem er 1,6 metra há, afhjúpuð í tengslum við brautskráningu í VMA (Gryfjunni) fyrir rúmum tuttugu árum – á 20 ára afmæli skólans. Við það tækifæri flutti Þröstur Ásmundsson nokkur orð þar sem hann fór yfir sögu málsins og eitt og annað um Eyrarlands-Þór. Hér er frásögn í Morgunblaðinu 25. maí 2004 af brautskráningunni og afhjúpun Eyrarlands-styttunnar.
Á plötu við styttuna eru þessar upplýsingar:
Eyrarlands-Þór - Eftirmynd af líkneski sem fannst á þessum slóðum um 1815. Sett upp í tilefni af 20 ára afmæli VMA í maí árið 2004.