Fara í efni

Eitthundrað nemendur brautskráðir í dag

Frá brautskráningu VMA í Hofi í dag.
Frá brautskráningu VMA í Hofi í dag.

Eitthundrað nemendur brautskráðust frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi í dag. Nemendur brautskráðust af sautján námsleiðum eða brautum. Síðastliðið vor brautskráðust 137 nemendur frá skólanum og því hefur VMA brautskráð samtals 237 nemendur á þessu ári. Samtals voru prófskírteininin 106 því nokkrir nemendur brautskráðust bæði úr sinni iðngrein og einnig með stúdentspróf. Meirihluti nemenda sem lauk námi með formlegum hætti frá VMA í dag brautskráðist samkvæmt eldri námsskrá. Frá og með næsta vori mun þeim nemendum fjölga verulega sem útskrifast samkvæmt nýrri námsskrá. Raunar brautskráðist fyrsti nemandinn í VMA í dag samkvæmt nýrri námsskrá. Náminu lauk hann á tveimur og hálfu ári.
Brautskráninguna önnuðust Ómar Kristinsson sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og sjúkraliðanáms og Baldvin Ringsted sviðsstjóri verk- og fjarnáms.

Eftirfarandi eru albúm með myndum sem Hilmar Friðjónsson kennari tók við brautskráninguna:

Albúm 1
Albúm 2
Albúm 3
Albúm 4
Albúm 5

Innleiðing á nýjum námsskrám

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari sagði í brautskráningarræðu sinni að skólastarfið hafi gengið vel núna á haustönn. Hún sagði að innleiðing á nýjum námsskrám væri nú á lokametrunum en sú vinna hófst fyrir tveimur árum.

„Með nýrri námsskrá er nám nemenda þéttara á hverri önn miðað við eldra kerfi en nokkur umræða hefur verið um mikið álag á framhaldsskólanemendur tengt þessum breytingum á námsskránni. Krafan á tíma nemenda er mikil og tengist ekki einungis námi þeirra heldur einnig vinnu með skóla, tónlistarnámi, íþróttaæfingum eða ýmsum félagsstörfum. Krafan um tíma nemenda er ekki bara frá skólunum en einhvern veginn telja allt of margir að eðlilegt sé að skólinn dragi úr kröfum sínum svo hægt sé að vinna með námi eða stunda íþróttir. Ég tel að bæði foreldrar og nemendur verði að hugsa vel um í hvað tíminn eigi að fara og hvenær álag sé orðið of mikið. Sé það raunin þarf einhvers staðar að gefa eftir og þess þurfti einnig í eldra kerfi. Við skulum ekki gleyma því að í fjögurra ára námi til stúdentsprófs var meðalnámstíminn rúmlega fimm ár en ekki fjögur. Það sama verður í nýju kerfi, meðalnámstíminn verður meira en þrjú ár. Þar koma áfangaskólar sterkir inn með sveigjanleika í náminu, þar sem nemendur geta ráðið námshraða sínum sjálfir. Ég er sannfærð um að breytingarnar með nýrri námskrá eru til góðs fyrir nemendur  og nýjar áherslur í námi muni efla nemendahópinn okkar með stúdentsprófi, sem er góður undirbúningur fyrir frekara nám á háskólastigi.“

Félagslífið 
Skólameistari sagði að félagslífið hafi verið hefðbundið en öflugt í vetur og sem fyrr væri skipulag þess mest í höndum stjórnar nemendafélagsins. Nefndi skólameistari sérstaklega leiksýningu vetrarins, Ávaxtakörfuna, sem verður frumsýnd í Hofi í febrúar nk. 

„Hér verður um stórvirki að ræða enda stórt verk sem krefst mikils af leikurum og öllum þeim sem koma að uppsetningunni. Margir koma að verki sem þessu hvort sem það er að leika og syngja, hanna og smíða sviðsmynd, stjórna hljóði og mynd, hanna og sauma búninga, búa til auglýsingar og markaðssetja verkið eða greiða hár og sminka.
Að hafa öflugt og fjölbreytt félagslíf er ekki sjálfgefið og æ erfiðara er að ná til nemenda þar sem samkeppnin um tíma þeirra er mikil eins ég nefndi. Það er hlutverk okkar sem vinnum með ungu fólki að efla það á allan hátt og bjóða upp á fjölbreyttar leiðir sem gefa nemendum tækifæri til að sýna sína styrkleika m.a. í gegnum nemendafélagið. Sem skólameistara finnst mér forréttindi að eiga góð samskipti og samvinnu við nemendafélagið því það er ekki sjálfgefið. Ég vil þakka formanni og stjórn Þórdunu fyrir vel unnin störf og hlakka til þeirra stóru viðburða sem eru á vorönn eins og árshátíðar, þemaviku og kosninga í nýja stjórn á vordögum.
Félagslífið er afar mikilvægur þáttur í skólastarfinu og hefur þátttaka í félagslífi gefið mörgum einstaklingum tækifæri til að efla og styrkja sig til framtíðar. En að starfa í nemendafélagi er ekki bara söngur, gleði og gaman, uppfærslur og árshátíðir. Annað mikilvægt hlutverk er að efla ábyrgð og samkennd nemenda með því að veita þeim ábyrgð og treysta þeim. Gefa þeim tækifæri til að vera þátttakendur í ákvarðanatökum og undirbúa þá fyrir líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi.“

„Metoo“ – umræðan
Hávær umræða hefur verið í samfélaginu að undanförnu um kynbundið ofbeldi. Sigríður Huld sagði að með umræðunni væri ofbeldið dregið fram í dagsljósið og sögur þeirra kvenna sem hafi stigið fram yrði að nýta til að breyta viðhorfum í samfélaginu og framkomu þannig að kynbundið ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðið. Liður í því sé að karlmenn og konur axli ábyrgð og taki á því meini sem kynbundið ofbeldi og áreitni sé.

„Umræðan er farin að hafa áhrif,“ sagði Sigríður Huld.  „Við erum að sjá breytingar úti í samfélaginu og hafa m.a. stéttarfélög, sveitarfélög, stjórnmálaflokkar og vinnustaðir sent frá sér yfirlýsingar þar sem harmað er að slíkt ofbeldi hafi fengið að viðgangast og margir hafa gripið til aðgerða. Það er nefnilega þannig að við eigum öll jafna möguleika á að njóta þess sem við eigum og höfum í eigin fari og við eigum að fá sömu tækifæri til þroska hæfileika okkar óháð kyni. Það gerist ekki nema kynbundið ofbeldi og áreitni verði upprætt.
Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að kvenkyns nemendur hafi ekki orðið fyrir kynbundnu ofbeldi eða áreitni innan veggja VMA frá samnemendum, kennurum eða stjórnendum. Því miður er það þannig. Kvenkyns nemendur í iðnnámi hafa því miður ekki verið margar og of margar af þessum örfáu hafa hætt námi í iðngreinum meðal annars vegna þeirra viðhorfa sem hafa mætt þeim bæði innan veggja skólans og á vinnustöðum þar sem karlamenning ríkir. Það er mikil áskorun fyrir þessar karllægu greinar að hreinsa sig af, stundum mítum en stundum viðvarandi fordómum út í konur í iðngreinum. 
Eitthvað í menningu okkar gerir það að verkum að konur fara síður í nám í iðngreinum. Ekkert, nákvæmlega ekkert kemur í veg fyrir að kona geti verið rafvirki, vélstjóri, múrari, bifvélavirki, rafeindavirki eða vélvirki - ástæða þess að það eru einungis karlmenn að útskrifast úr þessu greinum hér í dag - eru viðhorf samfélagsins. Ekki frekar en að við gætum verið að útskrifa fleiri karla úr sjúkraliðanámi eða sem matartækna - en í dag útskrifum við bara konur úr því námi. Sama sagan þar. Þarna erum við að glíma við viðhorf samfélagsins sem virðast vera ótrúlega rótgróin og væri verðugt verkefni fyrir framtíðarnemendur að breyta.
Á síðasta skólaári var ákveðið að taka þátt í verkefni í samstarfi við Jafnréttisstofu sem kallast “rjúfum hefðirnar - förum nýjar leiðir”. Markmið verkefnisins hafa aldeilis styrkst með #metoo byltingunni en markmiðið er að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla. 
Markmið okkar í VMA er að auka hlutfall karla í háriðn og sjúkraliðanámi og fjölga konum í iðn- og tækninámi. Verkefnið blasir við okkur hér á sviðinu - hérna vinstra megin við mig sitja fremst nemendur í sjúkraliðanámi - hér endurspeglast kynjahlutfallið í greininni mjög vel, enginn karlmaður. Þar fyrir aftan sitja nemendur í iðn- og tækninámi - flestir eru karlar. Hér hægra megin við mig eru síðan stúdentar en þar er kynjahlutfallið jafnara en 55% stúdenta eru konur.
Verkefnið heldur áfram á næsta ári og vonandi náum við að skilgreina og vinna með mögulegar aðgerðir til að hafa áhrif á kynbundið náms- og starfsval nemenda og hafa áhrif á kynskiptan vinnumarkað. Til að verkefnið gangi eftir þurfum við að byrja á því að horfa inn á við, skoða viðhorf okkar sjálfra og gera okkur grein fyrir því hvað það er í námsumhverfinu sem laðar kynin að þessum greinum og hvað það er sem hindrar stelpur og stráka í að velja og vinna í þessum greinum. 
Ég vil þakka þeim konum sem hafa komið fram með sögur sínar í gegnum #metoo byltinguna. Það gefur mér sjálfri kjark og þor til að taka á þessum málum innan veggja skólans og það gefur konum almennt kjark til að hafa hátt og segja að þessi framkoma er ekki í lagi. Ég vona líka að umræðan nái til karla, að þeir láti af kynbundinni áreitni og ofbeldi í orðum og gjörðum og við getum öll óháð kyni unnið saman að því að gera samfélagið okkar að stað þar sem ríkir jafnrétti og virðing og að allir fái að njóta þeirra hæfileika og styrkleika sem þeir hafa. 
Það er þess vegna sem er svo mikilvægt að fræðsla um jafnrétti, lýðræði, réttindi og skyldur sé hluti af skólastarfi - ekki bara í einhverjum ákveðnum áföngum sem heita kynjafræði eða mannréttindi og lýðræði - heldur sé hluti af allri kennslu og menningu innan skólasamfélagsins.“

Fjölbreyttar námsleiðir í VMA
Skólameistari sagði að VMA vildi standa undir því að skólinn væri góður fyrir alla nemendur. Að sjálfsögðu sé ætlast til að nemendur leggi sig fram en ekki sé horft til einkunna, stéttar eða stöðu þegar nemendur séu teknir inn í skólann. „Við viljum geta boðið nemendum okkar upp á fjölbreytileika því það er það sem bíður þeirra í framtíðinni. Fjölbreytileikinn er einmitt það sem margir okkar nemenda nefna sem einn af helstu kostum skólans. Sú hæfni sem nemendur okkar fá til að takast á við breytingar og kynnast ólíku fólki sem stefnir í fjölbreyttar áttir er veganesti sem styrkir þá til framtíðar. Ögrunin er hjá þeim skólum sem taka við öllum nemendum óháð námsgetu og það er jafn mikilvægt að koma þeim áfram í framhaldsskólanum sem þurfa lengri tíma til að ná sínum námsmarkmiðum eins og þeim sem gengur alltaf vel að ná þeim.“

Farsælt samstarf við atvinnulífið
Sigríður Huld sagði fulla ástæðu til að nefna að samstarf skólans við atvinnulífið væri sem fyrr afar gott og fyrir það vildi hún sérstaklega þakka. „Þótt það sé ekki annað en að þakka fyrir þann mikla hlýhug sem skólinn hefur hjá fyrirtækjum og samstarfsaðilum hér í nærsamfélaginu. Við búum við það að aðsókn í skólann er mjög góð og ánægjulegt að hafa náð þeim áfanga að bjóða aftur upp á fullnaðarnám í matreiðslu eftir áramót. Á vorönn bjóðum við einnig upp á nám í pípulögnum sem hefur ekki verið í boði um nokkurt skeið. Þessar svokölluðu fámennu - en afar mikilvægu - iðngreinar væru ekki í boði ef ekki kæmi til samstarf við atvinnulífið og iðnmeistara á svæðinu. Eitt er víst að þeirra nemenda sem útskrifast úr iðnnámi bíða atvinnutækifærin að námi loknu. Skortur á fagmenntuðum iðnaðarmönnum - og konum - er viðvarandi og því er lag að þið sem eigið börn, barnabörn, bræður eða systur sem eru að ákveða hvað þau ætla að gera að loknum grunnskóla, að horfa til iðnnámsins með þeim. Tækifærin eru mörg og iðnnám er langt því frá sú blindgata sem sumir halda. Grunnurinn er góður til frekara náms og starfsréttindin eru dýrmæt. Nám stendur alltaf með manni - sama hvert það leiðir mann í framtíðinni.“

Viðurkenningar 
Sigþór Gunnar Jónsson nýstúdent - verðlaun fyrir bestan árangur í samfélagsgreinum, veitt úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar. Jafnframt hlaut Sigþór verðlaun fyrir bestan námsárangur í íslensku. Penninn Eymundsson gaf verðlaunin.

Lísa María Ragnarsdóttir sjúkraliði – verðlaun fyrir bestan árangur á sjúkraliðabraut, gefin af Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Áslaug Sólveig Guðmundsdóttir matartæknir – verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum matartækna, gefin af Matsmiðjunni.

Yrja Mai Hoang, nýstúdent af náttúrfræðibraut – verðlaun fyrir bestan árangur í ensku, gefin af SBA-Norðurleið.

Axel Frans Gústafsson, nýstúdent af listnámsbraut – verðlaun fyrir bestan árangur af myndlistargreinum listnámsbrautar, gefin af Slippfélaginu.

Viktoría Zamora, nýstúdent af listnámsbraut – verðlaun fyrir bestan árangur í hönnunar- og textílgreinum, gefin af Kvennasambandi Eyjafjarðar.

Sara Rós Guðmundsdóttir, nýstúdent af náttúrufræðibraut – verðlaun fyrir bestan árangur í efnafræði, gefin af Efnafræðifélagi Íslands

Björn Vilhelm Ólafsson, nýstúdent af náttúrufræðibraut – bókarverðlaun fyrir bestan árangur í raungreinum og stærðfræði, gefin af Háskólanum í Reykjavík. Jafnframt veitir HR verðlaunahafanum nýnemastyrk og niðurfellingu á skólagjöldum á fyrstu önn kjósi hann að hefja nám við HR.
Björn Vilhelm fékk jafnframt blómvönd frá skólanum í tilefni þess að vera fyrsti stúdentinn sem útskrifaðist samkvæmt nýrri námsskrá við skólann.

Sunneva Halldórsdóttir, nýstúdent af náttúrufræðibraut – hvatningarverðlaun VMA, veitt nemanda sem hefur verið fyrirmynd í námi, sýnt miklar framfarir í námi, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt. 
Sunneva hefur verið fyrirmynd annarra í námi og sýnt mikinn dugnað og elju til að ná markmiðum sínum. Með góðu skipulagi frá því í grunnskóla hefur hún stefnt að því að ljúka stúdentsprófi á skemmri tíma en fjörum árum. Sunneva lauk stúdentsprófinu á fimm önnum í stað átta, með því að nýta sér fjarnám og sveigjanleikann í VMA.

Andri Björn Sveinsson – verðlaun fyrir bestan árangur í rafvirkjun, gefin af Rönning.

Jóhannes Sefánsson – verðlaun úr Árnasjóði fyrir bestan árangur á sveinsprófi í rafeindavirkjun. Jafnframt fékk Jóhannes verðlaun frá Ískraft fyrir bestan árangur í faggreinum í rafeindavirkjun og verðlaun frá A4 fyrir að vera dúx skólans.
Árnasjóður er minningarsjóður stofnaður af starfsmönnum VMA til minninar um Árna Jóhannsson kennara við VMA sem lést langt um aldur fram í lok árs 2014. Hann var rafeindavirki og kennslugreinar hans voru rafiðngreinar og stærðfræði. Samkennarar Árna ákváðu að sjóðurinn myndi veita verðlaun til nemanda sem næði bestum námsárangri á sveinsprófi í rafeindavirkjun.
Úr Árnasjóði var í fyrsta skipti úthlutað í dag. Systkini Árna færðu skólanum á árinu minningargjöf sem nýtt var til tækjakaupa í rafiðn. VMA færir fjölskyldu Árna þakkir fyrir hlýhug til skólans.

Alexander Freyr Simm, Andrea Ósk Margrétardóttir, Einar Örn Gíslason, Sara Rós Guðmundsdóttir  og Victoría Rachel Zamora – blómvendir frá VMA fyrir drjúgan hlut þeirra að félagslífi í skólanum

Jóhannes Stefánsson og Bjarki Guðjónsson, Íslandsmeistarar í rafeindavirkjun -  blómvendir frá VMA fyrir Íslandsmeistaratitilinn

Horfið björtum augum til framtíðarinnar!
Í lok ræðu sinnar beindi skólameistari orðum sínum að útskriftarnemum og bað þá að horfa björtum augum til framtíðarinnar. „Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum – og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. Fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Á þessum svokölluðum framhaldsskólaárum kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Viðhaldið vináttunni til hvors annars. Takk fyrir að velja VMA sem ykkar skóla, verið stolt og til hamingju.“

Ávarp fulltrúa brautskráningarnema og tónlistaratriði
Sigþór Gunnar Jónsson nýstúdent af íþróttabraut flutti kveðju brautskráningarnema.

Eins og áður er getið verður Ávaxtakarfan í uppsetningu Leikfélags VMA sýnd í Hofi í febrúar nk. Við brautskráninguna í dag voru flutt tvö atriði úr verkinu og er ekki annað hægt að segja en að þau hafi gefið góð fyrirheit um það sem koma skal. Miðasala á Ávaxtakörfuna er þegar hafin á mak.is

Elísa Ýrr Erlendsdóttir, nýstúdent af listnámsbraut söng við brautskráninguna lagið “Lítill drengur” eftir Magnús Kjartansson og  Villhjálm Vilhjálmsson.  Alexander Smári spilaði undir á píanó. Elísa Ýrr hefur látið að sér kveða í söngnum á undanförnum árum. Hún sigraði Sturtuhausinn – Söngkeppni VMA á vorönn 2016.