Ekill ehf. veitir starfsbraut VMA endurgjaldslausan aðgang að námsefni Netökuskóla Ekils
Ekill ehf. ökuskóli á Akureyri hefur ákveðið að leggja starfsbraut VMA lið með því að veita skólanum endurgjaldslausan aðgang að umfangsmiklum gagnabanka sem byggður hefur verið upp fyrir rafrænan ökuskóla fyrirtækisins.
Einn af áföngum sem nemendum á starfsbraut VMA stendur til boða er undirbúningur fyrir bílpróf. Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir kennir áfangann og segir reynsluna af honum vera góða, mikilvægt sé að veita þeim nemendum sem það vilja aðstoð og búa þá undir formlegt ökunám. Ragnheiður segir að sjálft ökunámið sé að sjálfsögðu í höndum ökukennara en áfanginn sé fyrst og fremst til þess ætlaður að veita nemendum sýn á ökunámið og búa þá undir það. Á þessari önn eru sjö nemendur í áfanganum en opið er fyrir nemendur að sitja hann oftar en einu sinni, kjósi þeir það.
Jónas Helgason, ökukennari og fyrrverandi menntaskólakennari, hefur unnið allt það mikla námsefni sem er í rafrænum ökuskóla Ekils, sem er sá fyrsti hérlendis sem var opnaður á netinu fyrir þrettán árum. Jónas hefur reglulega uppfært námsefnið, sem er þegar á heildina er litið afar umfangsmikið. Hluti námsefnis í þessum rafræna ökuskóla Ekils er nýleg kennslubók sem bæði er hægt að lesa og hlusta á hljóðskrár. Auk texta og myndefnis af ýmsum toga er mikið af gagnvirkum æfingum fyrir nemendur.
Námsefnið í Netökuskóla Ekils, sem er vistað á heimasíðu Ekils, er á íslensku en áður en langt um líður verður það einnig aðgengilegt þar á ensku.
Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir segist fagna því mjög að fá aðgang að þessum stóra gagnabanka frá Ekli og vill hún koma á framfæri kærum þökkum til bæði Ekils sem rekur ökuskólann og Jónasar Helgasonar höfund námsefnisins fyrir að veita Verkmenntaskólanum þennan aðgang. Aðgangur að námsefninu auðveldi sér kennsluna og geri hana á allan hátt meira lifandi og ýti undir áhuga nemenda á ökunáminu.
Jónas Helgason, ökukennari og höfundur námsefnisins í Netökuskóla Ekils, og Grétar Viðarsson, eigandi Ekils ehf., sóttu VMA heim í gær og römmuðu formlega inn þennan stuðning Ekils við VMA. Þeir fóru í kennslustund þar sem Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir var að kenna nemendum sínum undirbúning bílprófs. Þessi mynd var tekin við það tækifæri.