Ekki slegið slöku við í félagslífinu á vorönn
Með nýrri önn taka við ný verkefni í félagslífinu í VMA, sem að sjálfsögðu er sem fyrr mikilvægur hlekkur í góðu skólastarfi. Óhætt er að segja að margt áhugavert sé framundan, t.d. söngkeppni, uppistandskvöld og að sjálfsögðu árshátíðin.
Kristján Blær Sigurðsson, formaður Þórdunu – skólafélags VMA, segist vera þeirrar skoðunar að vel hafi tekist til í félagslífinu á haustönn, þó auðvitað sé það alltaf svo að unnt sé að gera betur. Nýnemahátíðin og nýnemaballið hafi gengið glimrandi vel, sömuleiðis uppistandskvöldið, að ógleymdri uppfærslu Leikfélags VMA á Litlu hryllingsbúðinni. Kristján Blær segir þá sýningu hafa staðist allar væntingar og ríflega það. Stór, öflugur og samhentur hópur hafi þar unnið frábært starf sem skilað hafi stórgóðri sýningu. Það segi sína sögu að því sem næst fullt hafi verið á allar sjö sýningarnar á verkinu í Samkomuhúsinu. Kristján Blær segist þess fullviss að sá kraftur sem einkenndi félagsstarfið á haustönn muni halda áfram núna á vorönninni. Engin ástæða sé til þess að ætla annað.
Fyrsti stóri viðburður vorannar í félagslífinu er hin árlega Söngkeppni VMA – Sturtuhausinn, sem fer fram í Hofi fimmtudagskvöldið 26. janúar. Kristján Blær segir að um verði að ræða risaviðburð, sem meira verði lagt í en nokkru sinni fyrr. Til marks um það verði boðið upp á tvö æfingarennslu á öllum lögunum í keppninni í aðdraganda hennar og mikið verði lagt í myndatökur og myndbönd til kynningar á þátttakendum. Fljótlega verður kynnt hverjir verða kynnar á Sturtuhausnum og sömuleiðis hverjir verða í dómnefnd keppninnar.
Þann 7. febrúar verður annar stór viðburður í Gryfjunni í VMA þegar efnt verður til svokallaðs Metakvölds Þórdunu og Hugins – skólafélags MA – þar sem nemendur skólanna keppa í óvenjulegum íþróttagreinum. Slík keppni fór fram í Kvosinni í MA í fyrra og var mjög vel heppnaður viðburður. Skólarnir skiptast á að halda Metakvöldið og nú kemur framkvæmdin í hlut Þórdunu.
Þann 24. febrúar verður síðan flautað til árshátíðar VMA. Í mörg undanfarin ár hefur árshátíðin verið haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri en af ýmsum ástæðum verður nú sú breyting að hún verður haldin í íþróttahúsi Síðuskóla. Samkomur af sömu stærðargráðu hafa verið haldnar í umræddum sal í Síðuskóla og hefur reynslan af samkomuhaldi þar verið afar góð. Allar frekari upplýsingar um árshátíðina verða birtar síðar, m.a. hvaða skemmtikraftar koma þar fram, en óhætt er að fullyrða að þar eru stór nöfn á ferðinni og því full ástæða fyrir alla sem vettlingi geta valdið að taka umrætt kvöld, 24. febrúar, frá sem fyrst.
Uppistandskvöld verður haldið um miðjan mars. Uppistandskvöldið á síðasta ári tókst frábærlega og mættu á fimmta hundrað gestir og mynduðu eftirminnilega stemningu.
Kristján Blær bindur vonir við að unnt verði að halda a.m.k. eina kvöldvöku á önninni, en það kemur allt í ljós síðar. Og eins og venja er til ganga nemendur að kjörborðinu þegar líða tekur að vori, nánar tiltekið 5. apríl, í síðustu kennsluvikunni fyrir páskaleyfi, og kjósa sér nýja stjórn Þórdunu fyrir næsta skólaár.