Fara í efni

Fékk styrk úr Hvatningarsjóði Kviku

Emilía Björt Hörpudóttir.
Emilía Björt Hörpudóttir.

Seyðfirðingurinn Emilía Björt Hörpudóttir, sem stundar nám í húsasmíði við VMA, var ein af níu nemendum sem fengu styrk úr Hvatningarsjóði Kviku banka fyrir árið 2025. Styrkirnar voru afhentir við formlega athöfn í síðustu viku.

Emilía segir að hún hafi fengið ábendingu um að senda styrkumsókn til Hvatningarsjóðs Kviku og það hafi síðan komið henni þægilega á óvart þegar hún fékk að vita að hún væri í hópi styrkþega. Styrkupphæðin er 500 þúsund krónur og segir Emilía að peningarnir komi að góðum notum við fjármögnun námsins í VMA.

Hún segist ekki hafa getað hugsað sér að vera í eintómu bóknámi í þrjú ár í framhaldsskóla og því hafi hún ákveðið að sækja um verknám og varð húsasmíði í VMA fyrir valinu. Hún er nú á öðru ári í náminu og er í hópi þeirra nemenda í húsasmíði sem smíða frístundahúsið við norðurhlið skólahúsa VMA. Emilía tekur einnig áfanga til stúdentsprófs sem hún hyggst ljúka til hliðar við húsasmíðina.

Síðastliðið sumar starfaði Emilía Björt við smíðar hjá Trésmiðjunni Eini á Egilsstöðum. Hún segir það hafa í senn verið krefjandi og lærdómsríkt, á hverjum degi hafi hún tekist á við eitthvað nýtt og það hafi verið dýrmætt í reynslubankann. 

Þegar Emilía hóf nám í fyrrahaust í VMA hefði hún getað farið í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað og lært smíðarnar þar. En hún ákvað að koma frekar norður, henni fannst vera meiri áskorun fyrir sig að fara lengra að heiman og standa á eigin fótum. Í bæði fyrravetur og í vetur býr hún á Heimavist VMA og MA og kann því vel. Emilía segir það hafa verið rétta ákvörðun að skella sér norður, hún hafi þroskast mjög á því að standa á eigin fótum og hún lætur vel af náminu í VMA, á hverjum degi læri hún eitthvað nýtt.

En hvað ber framtíðin í skauti sér hjá Emilíu? Um það þorir hún ekki að segja á þessu stigi málsins. En verkefnið sé að ljúka náminu í húsasmíði og svo taki eitthvað nýtt við. Meðal annars komi sterklega til greina að fara í arkitektúr eða verkfræði. Hún segist lengi hafa velt mikið fyrir sér hönnun og útliti húsa, bæði úti og inni, og það heilli töluvert að læra eitthvað á því sviði. Húsasmíðin sé góður grunnur í það.

Hvatningarsjóður iðnnema var stofnaður árið 2018 í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Hvatningarsjóður kennaranema var stofnaður árið 2019 í samstarfi við Mennta- og barnamálaráðuneytið. Upphaflega átti hvor sjóður að starfa í þrjú ár en eftir þriðju úthlutun úr Hvatningarsjóði iðnnema var ákveðið að halda áfram að styðja við verkgreinar og voru sjóðirnir tveir þá sameinaðir í einn sjóð, Hvatningarsjóð Kviku.

Hvatningarsjóður Kviku hefur haft það hlutverk að hvetja og styrkja ungt fólk til iðn- og kennaranáms og er markmið sjóðsins að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og kennaranáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf. Frá stofnun sjóðsins hefur Kvika úthlutað styrkjum að upphæð samtals 56 milljónir króna til 86 kennara- og iðnnema. Við úthlutun úr sjóðnum að þessu sinni kom fram að frá því að byrjað var að úthluta styrkjum hafi umsóknum í iðn- og kennaranám fjölgað umtalsvert og í ljósi þess hafi verið ákveðið að leggja sjóðinn niður og þetta var því í síðasta skipti sem úthlutað er styrkjum úr honum.

Við afhendingu styrkjanna í síðustu viku sagði Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka:

Það hefur verið okkur mikil ánægja að fylgjast með hvernig aðsókn í bæði iðnnám og kennaranám hefur aukist verulega frá stofnun sjóðsins. Samstillt átak samstarfsaðila okkar, Samtaka iðnaðarins og Mennta- og barnamálaráðuneytisins, hefur án efa haft mikið um það að segja og erum við einstaklega stolt og þakklát fyrir samstarfið. En nú þegar 5 ára átaksverkefni stjórnvalda til að efla menntun í landinu, sem hófst haustið 2019, er að ljúka og staða iðnnáms hefur sjaldan verið betri, þá teljum við að nú sé rétti tíminn til að hætta með Hvatningarsjóðinn. Þetta hefur verið einstaklega skemmtilegt og gefandi verkefni og vil ég enn og aftur nota tækifærið og þakka samstarfsaðilum okkar fyrir einstaklega ot tog árangursríkt samstarf.

Við þetta tækifæri sagði Jónína Guðmundsdóttir, varaformaður Samtaka iðnaðarins:

Samtök iðnaðarins hafa allt frá stofnun lagt ríka áherslu á menntamál með það fyrir augum að auka veg iðn- og tæknináms. Aðsókn í slíkt nám hefur aldrei verið meira og munu samtökin halda ótrauð áfram að styðja við byggingu nýs Tækniskóla sem á að rísa í Hafnarfirði og verða tilbúinn haustið 2029. Iðnaður er orðinn stærsta útflutningsgrein landsins og hefur alla burði til þess að vaxa og dafna enn frekar með auknum stuðningi við sérhæfða menntun ungs fólks. Ég óska öllum styrkþegum innilega til hamingju og óska þeim velfarnaðar í sínum framtíðarverkefnum.

Hinir átta styrkþegarnir eru Askur Egilsson, nemi í húsasmíði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, Bathasar Alexandersson Eck, nemi í rafvirkjun við Tækniskólann, Guðmundur Andri Björnsson, nemi í rafvirkjun við Fjölbrautaskólann á Akranesi, Guðríður Ósk Þórisdóttir, nemi í grunnskólakennslu með áherslu á stærðfræði við Háskóla Íslands, Hjalti Snær Helgason, nemi í rafiðnfræði við Háskólann í Reykjavík, Ísar Freyr Jónasson, nemi í pípulagningum við Tækniskólann, Oddur Helgi Ólafsson, nemi í grunnskólakennslu með áherslu á upplýsingatækni, miðlun og nýsköpun við Háskóla Íslands, og Þorgerður Una Ólafsdóttir, nemi í leikskólakennarafræðum við Háskóla Íslands.