Endalaus innblástur í þriðjudagsfyrirlestri
Myndlistarmaðurinn Margeir Dire heldur fyrirlestur í dag, þriðjudaginn 17. febrúar, kl. 17 í Ketilhúsinu sem hann nefnir Endalaus innblástur.
Í fyrirlestrinum veltir Margeir fyrir sér þeirri áráttu sinni að búa eitthvað til úr öllu því sem hann hefur upplifað. Í kjölfarið fer hann yfir sköpun sína í gegnum tíðina og ástæður hennar.
Margeir Dire lærði myndlist í Myndlistaskólanum á Akureyri, Lahti Institude of Fine Arts í Finnlandi og Instituto Europeo di Design í Barcelona. Hann er þekktur fyrir myndsköpun í mismunandi miðla svo sem vegglistaverk, strigamálverk, teikningar, video, tónlist, hönnun og listræna stjórnun. Margeir hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í allskyns samsýningum og samstarfsverkefnum.
Fyrirlesturinn er í röð svokallaðra þriðjudagsfyrirlestra sem efnt er til á þriðjudagseftirmiðdögum í Ketilhúsinu á vegum listnámsbrautar VMA, Listasafnsins á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.
Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn og eru allir velkomnir.