Endurnýting í sköpun skúlptúra
Í einum af myndlistaráföngum annars árs á myndlistarlínu listnáms- og hönnunarbrautar er sjónum beint að skúlptúrum og þrívíðum myndverkum. Að vinna tvívíðar skissur áfram í þrívítt form. Í þessari sköpun er mikilvægt að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og vinna hugmyndirnar út frá innsæi og tilfinningum. Þá er nokkuð öruggt að útkoman verður skemmtileg og fjölbreytt.
Allt í kringum okkur eru hlutir sem má nýta til myndsköpunar. Hlutir sem hafa lokið hlutverki sínu og öðlast framhaldslíf með endursköpun eða -nýtingu. Þessir hlutir geta veitt innblástur til þess að búa eitthvað nýtt til, að ganga í endurnýjun lífdaga á allt annan hátt.
Þetta má hafa í huga þegar skoðuð eru skúlptúrverk nemenda á listnáms- og hönnunarbraut sem nú eru til sýnis á aðalgangi skólans. Að baki hverju verki býr ákveðin hugsun eða tilfinning listamannsins en síðan er það áhorfandans að meta eða upplifa það á sinn hátt. Það er það sem gerir listina svo áhugaverða og skemmtilega.