Dýrmæt og skemmtileg reynsla
„Þegar ég kom í VMA á sínum tíma lofaði ég sjálfum mér því að taka þátt í leikuppfærslu hér. Þegar ég síðan sá auglýstar prufur fyrir Grís ákvað ég að slá til. Ég sé ekki eftir því,“ segir Jóhann Gylfi Jóhannsson, sem fer með hlutverk Danny Zuko í sýningu Leikfélags VMA á Grís. Síðustu sýningar eru auglýstar um helgina.
Jóhann Gylfi lærir húsasmíði í VMA. Fyrsta árið, 2017-2018, var hann raunar í grunndeild málmgreina en ákvað að því loknu að breyta til. Skólaárið 2018-2019 var hann í ýmsum bóklegum greinum en innritaðist haustið 2019 í grunndeild byggingagreina. Síðastliðið haust hóf hann síðan faglegt nám í húsasmíði og segist finna sig vel í henni. Covid setti vissulega strik í reikninginn á vorönn 2020 og síðan aftur á haustönn en núna á vorönn hefur kennslan verið með nokkuð eðlilegum hætti. Fastur liður í húsasmíðanáminu á öðru ári er að byggja hús frá grunni. Í vetur hafa nemendur byggt tvö smáhýsi og þar að auki vinna þeir að frágangi sumarhúss sem ekki tókst að ljúka áður en Covid skall á fyrir ári síðan. Jóhann Gylfi segir það vera afar lærdómsríkt og gott verkefni að byggja hús frá grunni. „Þrátt fyrir að Covid hafi gert okkur erfitt fyrir á haustönninni er ég þó vongóður um að okkur takist að ljúka þessum húsum áður en önninni lýkur í vor,“ segir Jóhann Gylfi.
Að lokinni þessari vorönn heldur Jóhann Gylfi áfram að vinna hjá byggingarfyrirtækinu Tréverki á Dalvík, en þar er hann á námssamningi. „Ég hef lokið tólf vikum af fimmtíu og tveimur á námssamningnum hjá Tréverki og mun halda áfram að vinna hjá fyrirtækinu næsta sumar og áfram. Ég þarf að hafa lokið tilskildum starfstíma áður en ég get farið á fimmtu og síðustu námsönnina í byggingadeildinni. Að námi loknu get ég farið í sveinspróf í húsasmíði og þangað stefni ég,“ segir Jóhann Gylfi.
Sjö sýningar á Grís eru að baki og um helgina eru auglýstar tvær síðustu sýningarnar. Jóhann Gylfi er ánægður með viðtökurnar og segir að þátttaka í þessari uppfærslu hafi verið afar skemmtileg og gefið sér mikið. „Í byrjun fannst mér ég vera að fara dálítið mikið út fyrir þægindarammann en það breyttist fljótt og ég hef virkilega notið þess að taka þátt í þessu. Ég hef aldrei áður tekið þátt í svona stórri uppfærslu en hafði áður leikið svolítið á árshátíðum í Hrafnagilsskóla. En ég hef ekki áður sungið opinberlega og ég kom sjálfum mér á óvart að geta það. Ég hef lengi haft gaman að tónlist en mest sungið í sturtunni. Ég hafði aldrei áður sungið í röddum og því var þetta ný reynsla fyrir mig. Ég hef lært alveg ótrúlega mikið á þessu, bæði Pétur leikstjóri og Jokka aðstoðarleikstjóri og aðrir sem hafa stýrt uppfærslunni hafa kennt mér óendanlega mikið og ég á þeim öllum mikið að þakka. Einnig hafa reynsluboltarnir í hópnum, til dæmis Freysteinn og Örn Smári, stutt mig vel og gefið góð ráð. Æfingaferlið tók auðvitað á og síðustu dagana fyrir frumsýningu sagði þreytan til sín. En á frumsýningunni sjálfri fengum við öll einhverja aukaorku og hún gekk því mjög vel. Og almennt hafa sýningarnar gengið vel. Leikhópurinn hefur verið eins og stór, samheldin fjölskylda og það hefur gefið mér mikið að vera hluti af henni. Það verður skrítið þegar þetta verður búið, það verður erfitt að hittast ekki aftur og sýna," segir Jóhann Gylfi og svarar því játandi að þátttakan í Grís hafi kveikt í sér að taka frekari þátt í leiklistarstarfi.