Sendu forsetanum tölvupóst og viðruðu hugmynd um rafmagnslest
Fimmtudaginn 11. mars sl. áttu nemendurnir Hafþór Orri Finnsson og Steinar Bragi Laxdal Steinarsson samtal við Hilmar Friðjónsson, stærðfræðikennara, um mögulegar leiðir í því að minnka loftmengun á Íslandi. Í tali þeirra þriggja kom m.a. upp sú hugmynd, sem Hafþór Orri segist lengi hafa velt fyrir sér, hvort hægt væri að koma á lestarsamgöngum milli Akureyrar og Reykjavíkur.
Lestarhugmyndin lét Hafþór Orra og Steinar Braga ekki í friði og þeir ákváðu að reyna að ná tali af ráðamönnum til þess að ræða málið. Síðar þennan sama dag sendu þeir tölvupóst á Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og kynntu hugmyndir sínar. Þar nefna þeir mikilvægi þess að stytta ferðatímann milli Akureyrar og Reykjavíkur og jafnframt sé mikilvægt að ferðast á öruggari hátt á milli landshluta, ekki síst þegar haft sé í huga að skjótt skipist veður í lofti á Íslandi. Nefna þeir hugmynd sína um rafmagnslest milli höfuðborgarsvæðisins og Eyjafjarðar. Slíkur ferðamáti yrði án efa vinsæll af ferðamönnum, væri vistvænn og myndi stytta ferðatímann verulega. Margar flugur yrðu því slegnar í einu höggi. Í lokin á tölvupóstinum skrifa Hafþór Orri og Steinar Bragi: „Við hlökkum til þess að hitta þig og við verðum tilbúnir með fleiri hugmyndir varðandi þetta mál á fundinum.“
Ekki þarf að orðlengja það að Guðni forseti var fljótur til svars. Tölvupóstur barst Hafþóri fjórum dögum síðar, 15. mars, frá skrifstofu forseta Íslands, undirritað af Heiðrúnu Kristjánsdóttur:
---
Tilvísun í mál: EFI2021030036
Sælir verið þið, Hafþór Orri og Steinar Bragi.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhnnesson, bað mig að senda ykkur eftirfarandi:
Kæru Hafþór Orri og Steinar Bragi.
Ég þakka ykkur fyrir að hafa samband við mig. Hugmynd ykkur um lest sem gengi milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins er athyglisverð. Hún hefur áður vaknað og vissulega eru mörg álitamál sem vakna þegar hún er skoðuð nánar. En þau sjónarmið ykkar, að draga megi úr mengun og stytta tímann sem ferðin tekur, eru góðra gjalda verð. Þar fyrir utan fagna ég því að þið látið ykkur umhverfismál varða. Þau eru eitt brýnasta verkefni okkar daga og mikilvægt að rödd ungmenna heyrast því að ykkar er framtíðin, í góðri samvinnu við allar kynslóðir.
Ég hef ekki tök á að eiga með ykkur fund um lestarsamgöngur, enda er það mál ekki á mínu verksviði með beinum hætti. Ég ítreka hins vegar þakkir mínar til ykkar og óska ykkur alls velfarnaðar.
Guðni Th. Jóhannesson
Forseti Íslands | President of Iceland
----
Hafþór Orri segist hafa hugsað um þetta mál í þrjú ár. „Stundum fer hugmyndaflugið alveg á fullt,“ segir hann. Hann og Steinar Bragi segjast ekki hafa séð ástæðu til þess að fresta því að viðra hugmyndina við ráðamenn landsins og því sent forsetanum tölvupóst um málið. „Við áttum nú ekki von á því að fá svar svona fljótt frá forsetanum, þetta var mjög vel gert hjá honum,“ segja lestaráhugamennirnir Hafþór Orri og Steinar Bragi.