Safna fjármunum fyrir Einstök börn í stað lokaverkefnis
Nemendur í áfanganum Félagsfræði þróunarlanda, sem Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir kennir, greiddu um það atkvæði hvort þeir ynnu hefðbundið lokaverkefni núna í lok annarinnar eða réðust í það verkefni í sameiningu að safna fjármunum í þágu góðs málefnis. Yfirgnæfandi meirihluti nemenda vildi frekar ráðast í fjársöfnun til að stykja gott málefni og niðurstaðan var sú að söfnunarféð muni renna til Einstakra barna - stuðningsfélags barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni.
Þegar litið var inn í kennslustund hjá Hrafnhildi í gær var hugarflugstími, þar sem nemendur vörpuðu fram hinum ýmsu hugmyndum um leiðir til þess að safna fjármunum til þess að styðja við Einstök börn. Ætlunin er að söfnunin hefjist með formlegum hætti nk. fimmtudag og ætla má að ýmsar uppákomur henni tengdar fari ekki fram hjá nokkrum manni. Fylgist einfaldlega með, takið þátt í verkefninu og styðjið góðan málstað nemenda í Félagsfræði þróunarlanda!
Reikningsnúmer fyrir söfnunina er:
0370-26-024781
050502-2870
(Reikningsnr. og kennit. Jóhönnu Maj Júlíusdóttur Lundberg - sem er í nemendahópnum)
Í lokin – fyrir hvað stendur áfanginn Félagsfræði þróunarlanda? Hann er valáfangi í félagsfræði á félags- og hugvísindabraut. Í lýsingu á áfanganum segir: „Í áfanganum er fjallað um mismunandi hugmyndir um skiptingu heimsins í þróuð lönd og vanþróuð. Farið er í mismunandi hugmyndir sem búa að baki hugtökum yfir þróunarlönd, t.d. þriðji heimurinn og suðrið. Sérstök umfjöllun er um efnahagsleg, stjórnmálaleg og menningarleg einkenni þróunarlanda og orsakir og afleiðingar misskiptingar auðs. Einnig er fjallað um stríðsástand og stöðu flóttamanna. Kenningar um orsakir vanþróunar og hugmyndafræði sem þær byggja á eru skoðaðar. Fjallað er um þróunarsamvinnu, sérstaklega verkefni þar sem íslenskar stofnanir hafa komið við sögu. Áhersla á margbreytileika þróunarlanda.“