Spenntur að takast á við þetta
Töluverðar breytingar hafa orðið á skipan stjórnar Þórdunu – nemendafélags VMA frá nemendaráðskosningunum sl. vor. Anna Kristjana Helgadóttir og Tumi Snær Sigurðsson létu af störfum formanns og varaformanns Þórdunu í sumar og í þeirra stað hefur Halldór Birgir Eydal tekið við sem formaður Þórdunu og Anna Birta Þórðardóttir er nýr varaformaður. Fljótlega verður auglýst eftir fólki til þess að gegna störfum kynningarstjóra, ritara og nýnemafulltrúa Þórdunu.
Halldór Birgir Eydal segir það hafa borið brátt að hann tók við formennskunni í Þórdunu og hann hafi því ekki haft langan tíma til þess að setja sig inn í málin. „Vissulega ríkir töluverð óvissa í samfélaginu vegna Covid-faraldursins en við verðum að fylgjast vel með þeim breytingum sem verða og vinna út frá stöðunni á hverjum tíma. En við munum gera okkar besta til þess að vinna sem best úr stöðunni og við höfum rætt það, ef samkomutakmarkanir yrðu hertar, að streyma í góðum gæðum frá viðburðum.
Við horfum til þess að Söngkeppni VMA verði núna á haustönn, líklega í nóvember, og einnig höfum við rætt að hafa mánaðarlega gleðidaga þar sem eitt og annað verði gert til þess að gleðja nemendur. Það kemur í ljós hvað það verður,“ segir Halldór Birgir og bætir við að Lísa í Undralandi verði frumsýnd í Gryfjunni í febrúar, eins og greint var frá hér á heimasíðunni sl. föstudag. Hann nefnir einnig möguleika á því að Stuttmyndafélagið Æsir vinni að stóru og áhugaverðu verkefni. Því sé nú þegar eitt og annað í pípunum.
„Auðvitað eru þetta dálítið skrítnar kringumstæður en ég get sagt að ég er spenntur að takast á við þetta verkefni. Þetta kom óvænt upp í hendurnar á mér en með mér í stjórninni er öflugt fólk sem ég hlakka til að vinna með í þágu nemenda skólans í vetur,“ segir Halldór Birgir.