Spilar fótbolta í Glasgow og er fjarnemi í VMA
María Catharína Ólafsdóttir Gros hefur atvinnu af því að spila fótbolta í Glasgow í Skotlandi og stundar jafnframt nám við VMA – í fjarnámi. Með þessu móti púslar hún saman draumum sínum, annars vegar að vera atvinnufótboltakona og hins vegar að stunda nám til stúdentsprófs til þess að komast inn í nám í arktektúr.
María Catharína er átján ára gömul. Hún spilaði upp yngri flokkana í Þór í knattspyrnu og síðan lá leiðin í Þór/KA. Hún segist alltaf hafa átt sér þann draum að fara í atvinnumennsku. Árið 2020 fékk hún sér umboðsmann og á síðasta ári varð draumurinn að veruleika þegar hún gerði tveggja ára samning við Celtic í Glasgow í Skotlandi. Hún fór út í júlí á síðasta ári og tímabilið í Skotlandi hófst síðan af fullum krafti í september og stendur fram í maí.
María var í tvo vetur í dagskóla í VMA og vildi gjarnan halda áfram námi sínu þegar fyrir lá að hún væri á leið í atvinnumennskuna, því stefnan hefur verið og er klár; að læra arktektúr í Svíþjóð. Með góðum ráðlegginum námsráðgjafa VMA var niðurstaðan sú að halda áfram í skólanum í fjarnámi og tók María þrjá áfanga á haustönn og er í tveimur áföngum núna á vorönn – lokaáfanga í sænsku og stærðfræði á þriðja þrepi.
„Ég byrjaði að spila fótbolta sjö ára gömul og ég held að ég hafi strax átta ára gömul sagt mömmu að ég vildi verða atvinnukona í fóbolta. Mig langaði til þess að fara fyrr en síðar í atvinnumennsku og mér fannst gott fyrir mig á þessum tímapunkti að takast á við nýjar áskoranir. Eftir að ég fékk umboðsmann í maí 2020 skoðaði ég nokkra möguleika og mér leist best á að fara hingað til Glasgow og spila með Celtic. Til þessa hefur þetta bara gengið ágætlega. Auðvitað voru töluverð viðbrigði að flytja út og búa ein en ég er bara ánægð. Þetta er í stórum dráttum eins og ég bjóst við,“ segir María.
Celtic er eitt þriggja stórvelda í skoskri knattspyrnu – hin eru bæði í Glasgow; Rangers og Glasgow City.
María segir það vissulega töluverða áskorun að stunda nám jafnframt því að æfa og spila fótbolta því fyrirmæli þjálfarans séu þau að hvíla vel á milli æfinga. Þann tíma þurfi hún hins vegar að nýta vel til þess að stunda námið í VMA. „Ég bý með sex öðrum stelpum í liðinu á háskólagörðum og á sama tíma og þær hvíla sig sit ég og læri. Það getur verið töluvert krefjandi, sérstaklega þegar maður kemur þreyttur af æfingu.“
Morgunmatur og hádegismatur er snæddur á vellinum – Celtic Park. Eftir morgunmat er farið á tveggja tíma æfingu og að henni lokinni er hádegismatur. Tvisvar í viku er önnur æfing eftir hádegið. Alltaf eru leikir á sunnudögum og stundum einnig á miðvikudögum. Spiluð er þreföld umferð. Vitaskuld er bæði spilað heima og á útivöllum en María segir að ferðalögin séu ekki löng, það lengsta sé um tveggja tíma akstur.
María segir að liðinu hafi gengið bærilega vel, það sé sem stendur í þriðja sæti í deildinni á eftir nágrönnum sínum í Rangers og Glasgow City. En liðið gerði sér lítið fyrir og varð bikarmeistari þann 5. desember, sem María segir að hafi verið mikil og skemmtileg upplifun. „Við unnum Rangers í undanúrslitum og síðan unnum við Glasgow City, sem hefur verið besta liðið hérna undanfarin ár, í úrslitum.“
María leynir því ekki að hún þurfi að vera mjög skipulögð til þess að hlutirnir gangi vel upp – að spila fótbolta og stunda fjarnám við VMA. „Ég þarf að hafa mikinn sjálfsaga því það er vissulega mjög freistandi að leggja sig upp í rúm eftir æfingar og hvíla sig. En þetta hefur gengið ágætlega með góðu skipulagi. Desember var erfiður, ég neita því ekki, því það var mikið að gera í boltanum og ég þurfti að læra mikið fyrir prófin. En það kemur ekkert annað til greina en að láta þetta ganga upp því ég vil halda áfram námi og taka stúdentspróf. Ég hef það sem reglu að setja upp vikuplan og vinn síðan út frá því. Ég vil fá góðar einkunnir og til þess þarf ég að læra. Í mínu vikuplani miða ég við að eiga tíma í vikulokin til þess að hvíla mig fyrir sunnudagsleikina. Ég stefni að því að verða arkitekt og því er ekkert annað í boði en að halda ótrauð áfram,“ segir María en hún stundar nám á fjölgreinabraut. Sú námsbraut henti sér mjög vel því hún gefi möguleika á því að velja áfanga fyrir arkitektúrinn – t.d. hafi hún t.d. tekið aukaáfanga í stærðfræði og eðlisfræði og einnig hafi hún verið í listnámsáföngum í dagskóla, áður en hún fór út.
María segist horfa til Svíþjóðar með nám í arkitektúr, móðir hennar sé sænsk og því sé hún altalandi á sænsku. Þess má geta að bróðir Maríu, Ólafur Göran Ólafsson Gros, sem var formaður Þórdunu á sínum tíma í VMA, er á öðru ári í kvikmyndaskóla í Stokkhólmi í Svíþjóð. „Mig langar til þess að spila fótbolta í Svíþjóð jafnframt því að stunda þar nám. Ég veit ekki alveg hvenær mér tekst að ljúka við stúdentsprófið en vonandi verð ég nálægt því að klára námið um það leyti sem samningi mínum hér lýkur, eftir hálft annað ár.“
Kórónuveiran gerir Skotum lífið leitt, rétt eins og hér á landi. Ekki síst fara þeir varlega eftir að ómíkron afbrigðið tók að herja á heimsbyggðina. María segir að veiran hafi stungið sér niður í leikmannahópnum en sjálf hafi hún sem betur fer sloppið til þessa. Daglega, áður en leikmenn hittast við morgunverðarborðið, eru tekin heimapróf. Allt er því gert til þess að fyrirbyggja smit.
María segir að leikmenn Celtic komi víða að; Skotlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Kína, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Íslandi. Henni er ekki kunnugt um fleiri íslenskar stelpur í skoska fótboltanum.
Auk þess að spila með Celtic er María að spila með U-19 landsliði Íslands og fer hún til Spánar í næsta mánuði til þess að spila með liðinu á La Manga mótinu. María segist auðvitað stefna að því að vera áfram í landsliðinu, hennar metnaður standi til þess.
„Mér finnst að ég hafi bætt mig mikið eftir að ég kom hingað út, enda æfi ég töluvert meira en heima. Í Þór/KA var ég kantmaður en hér er ég aftar á vellinum og er, má segja, blanda af bakverði og kantmanni. Þjálfarinn „róterar“ mikið í liðinu og því á engin okkar fast byrjunarliðssæti. Við þurfum að vinna vel fyrir því að vera í byrjunarliðinu og það heldur okkur öllum vel á tánum,“ segir María Catharína Ólafsdóttir Gros, atvinnufótboltakona í Celtic í Glasgow í Skotlandi og fjarnemi í VMA.