Enskukennarinn með silfur í Reykjavíkurmaraþoni
Önnu Berglindi Pálmadóttur, kennara við VMA, er fleira til lista lagt en að kenna ensku. Hún er þrautseigur langhlaupari og sannaði það eftirminnilega í Reykjavíkurmaraþoninu um liðna helgi, þar sem hún gerði sér lítið fyrir og varð næstfljótust kvenna í hálfmaraþoni.
Helen Ólafsdóttir sigraði í hálfmaraþoni kvenna á 1:23:33 en Anna Berglind varð önnur á tímanum 1:29:19 og þriðja varð Amanda Robotti frá Bandaríkjunum á 1:29:28.
„Ég hef lengi hlaupið mér til ánægju en fyrst og fremst yfir sumarið. Í mörg ár kenndi ég þolfimi í
Vaxtarræktinni hér á Akureyri og síðustu árin hef ég verið í Crossfit og hlaupið eitthvað aðeins með. En sl. vor
ákvað ég að gamni mínu að fara í 1. maí hlaupið, aðallega til þess að draga son minn með mér og í framhaldi af
því kom Þorbergur Ingi Jónsson, sem hefur verið að þjálfa skokkhópinn Eyrarskokk, til mín og spurði mig hvort ég vildi ekki
koma á æfingar í Eyrarskokki. Ég hafði velt því fyrir mér í nokkur ár en ekki látið verða af því fyrr en
í framhaldi af þessu samtali við Þorberg Inga. Þegar ég fór að æfa reglulega komst ég að því hvað ég
raunverulega gæti. Ég hljóp hálfmaraþon sumarið 2012, svona rétt til þess að geta sagt að ég hafi einu sinni hlaupið
hálfmaraþon. Ég endurtók leikinn í sumar og lenti þá öðru sæti í kvennaflokki á eftir Rannveigu Oddsdóttur.
Ég tók síðan þátt í 10 kílómetra hlaupi á Selfossi í sumar og lenti þar einnig í öðru sæti
á eftir Arndísi Ýrr Hafþórsdóttur, sem einnig sigraði í kvennaflokki í 10 kílómetrunum í
Reykjavíkurmaraþoninu.
Ég setti mér það takmark í Reykjavíkurmaraþoninu að vera undir einum og hálfum tíma og mér tókst það og er
mjög ánægð með að hafa náð því. Ég einbleindi ekki á verðlaunasæti en hafði það fyrst og fremst í
huga í hlaupinu að fara ekki of hratt af stað. Á því klikkaði ég í 10 kílómetra hlaupinu á Selfossi og ég var
ákveðin í því að falla ekki í þá gryfju aftur. Fyrst og fremst var þetta virkilega skemmtileg upplifin og hlaupið var mjög
skemmtilegt í alla staði. Fullt af fólki að hvetja mann alla leiðina og hljómsveitir að spila út um allan bæ. Þetta var svakalega
gaman.“
Anna Berglind viðurkennir að þessi árangur sé sér mikil hvatning og það kitli óneitanlega að æfa hlaup af meiri alvöru en áður og e.t.v. verði maraþon næsta stóra áskorunin.