Leiklist í þriðjudagsfyrirlestri
Í dag, þriðjudaginn 15. mars kl. 17-17.40, heldur Vala Fannell leikstjóri þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni Leiklistarkennsla í grunnskólum: Samfélagslegt vægi og gildi.
Árið 2013 varð leiklistarkennsla hluti af aðalnámskrá grunnskóla. Hvers vegna er leiklistarkennsla mikilvæg í því samhengi? Hverju bætir hún við nám í grunnskóla og hvers vegna ætti hún að vera jafn mikilvæg og t.d. stærðfræði eða saga? Í fyrirlestrinum fjallar Vala um þessar spurningar.
Vala Fannell lærði leiklist og leikstjórn í The Kogan Academy of Dramatic Arts í London frá árunum 2009-2014. Eftir útskrift lék hún í ýmsum uppfærslum í London, þar á meðal Hello from Bertha eftir Tennessee Williams, Þrjár systur eftir Chekhov og Moments eftir Starra Hauksson, ásamt talsetningum, leikstjórn og eigin framleiðslu. Hún tók einnig að sér kennslu hjá KADA þar sem hún kenndi bæði leiklist og leikstjórn til BA gráðu í fjögur ár.
Árið 2018 flutti Vala aftur til Íslands og tók við kennslustöðu við Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar. Skömmu síðar hóf hún störf hjá Menntaskólanum á Akureyri sem verkefnastjóri sviðslistabrautar þar sem hún sá um uppbyggingu nýrrar kjörsviðsbrautar og hóf þar kennslu 2020. Haustið 2020 hóf hún meistaranám í listkennslufræðum við LHÍ og leikstýrði á því starfsári fjölskyldursöngleiknum Benedikt búálfi hjá LA sem var frumsýndur í byrjun mars 2021. Á þessu leikári fer hún með hlutverk Gvends í Skugga-Sveini, sem nú er á fjölum Samkomuhússins á Akureyri.
Að þriðjudagsfyrirlestrunum í vetur standa Listasafnið á Akureyri, Gilfélagið, VMA og MA. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.