Mentor/vinátta - samstarfsverkefni VMA og Rauða krossins
VMA og Rauði krossinn á Akureyri hafa tekið höndum saman um verkefni sem hefur að leiðarljósi að aðstoða nemendur af erlendum uppruna sem stunda nám við VMA. Þetta samstarf byggir á þeirri hugmyndafræði sem Rauði krossinn hefur lengi unnið með og kallast Leiðsöguvinir. Í því verkefni er þó fyrst og fremst horft til flóttafólks en í þessu verkefni í VMA er ætlunin að sjálfboðaliðar úr hópi nemenda skólans verði eins konar mentorar fyrir erlenda nemendur sem hófu nám við skólann núna á haustdögum. Í nýju landi þar sem er talað framandi tungumál, þar sem menningin er framandi o.fl. eru margir þröskuldar sem þessir nemendur þurfa að fara yfir og í sumum tilfellum er hætta á félagslegri einangrun. Þessu verkefni er m.a. ætlað að fyrirbyggja slíkt.
Þetta er annað skólaárið sem Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir starfar sem verkefnastjóri erlendra nema við VMA. Hún safnaði ýmsu í reynslupokann á síðasta skólaári, m.a. að mikil þörf væri fyrir stuðning af þessum toga við nemendur. Hún segist lengi hafa velt fyrir sér hvaða leið væri best til þess að ráða bót á því. Í ljósi þess að hún hafi sjálf verið rauðakrossvinur hafi hún rætt þetta við Rauða krossinn á Akureyri og nú sé þetta samstarfsverkefni VMA og Rauða krossins að komast á koppinn.
Í síðustu viku var haldinn kynningarfundur í VMA um verkefnið og hann var ágætlega sóttur af bæði nemendum og starfsmönnum. Nú þegar hafa átta nemendur skráð sig sem mentora til þess að taka þátt í verkefninu en það er hugsað í allan vetur, bæði á haust- og vorönn, og veitir þátttaka í því viðkomandi nemendum þrjár einingar í námi sínu. Jóhanna væntir þess að með frekari kynningu á verkefninu sláist fleiri í hópinn.
Það sem gerist næst í verkefninu er að Róbert Theodórsson, verkefnastjóri flóttafólks hjá Rauða krossinum á Akureyri, verður síðar í þessari viku með námskeið í VMA um Leiðsöguvini og fyrir hvað það verkefni hjá Rauða krossinum stendur. Í kjölfarið á námskeiðinu er síðan ætlunin að ýta verkefninu úr vör.