Kennsla í notkun handslökkvitækja

Í þessari viku heimsótti Jóhann Þór Jónsson, verkefnastjóri eldvarnaeftirlits hjá Slökkviliði Akureyrar, nemendur í grunndeild byggingargreina í VMA og ræddi við þá um mikilvægi eldvarna á byggingartíma mannvirkja og brýndi fyrir þeim mikilvægi áhættumats og réttra viðbragða komi til eldsvoða. Mikilvægur þáttur í því er að æfa rétt handtök í meðferð handslökkvitækja og fengu nemendur tækifæri til þess að æfa sig.
Jóhann Þorsteinsson kennari í byggingadeildinni segir að þessi heimsókn frá Slökkviliðinu sé árviss viðburður í áfanganum Framkvæmdir og vinnuvernd. Samstarfið við Slökkviliðið sé skólanum afar mikilvægt og ástæða sé til að þakka það alveg sérstaklega og aðrar heimsóknir fulltrúa fyrirtækja og stofnana utan skólans í því skyni að uppfræða nemendur um ýmislegt er nýtist þeim vel í náminu og á vinnumarkaði í framhaldinu.