Þrír áratugir liðnir frá upphafi fjarnáms við VMA
Í fjörutíu ára sögu skólans er auðvitað margs að minnast. Einn af þáttum í skólastarfinu sem sannarlega var byltingarkenndur á þeim tíma var fjarnámið. Þrír ártugir eru nú liðnir frá því að fjarkennsla hófst í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Haukur Ágústsson ýtti henni úr vör árið 1994 með því að kenna ensku í gegnum tölvupóst.
Bernharð Haraldsson fyrsti skólameistari VMA sagði í viðtali hér á heimasíðunni fyrir rúmum fjórum árum að fjarnámið hafi verið eitt af því sem hann var hvað stoltastur af að taka þátt í að koma á fót. Hugmyndin að fjarkennslunni hafi komið frá Adam Óskarssyni og Hauki Ágústssyni og hann hafi ekki haft hugmynd um hvað þeir voru að tala um þegar þeir komu á hans fund með þessa hugmynd. „Ég sagði við þá: „Ég hef ekki hugmynd um hvað þið eruð að tala en ég skal styðja ykkur.“ Og þar með fór fjarkennslan af stað og við byrjuðum með fjórtán nemendur, en nokkrum árum seinna náðu þeir rúmlega sjö hundruðum! Eftir að við hófum fjarkennsluna var ég ítrekað skammaður í menntamálaráðuneytinu fyrir þessa fráleitu vitleysu. En málið var bara að það var enginn viðbótarkostnaður, nemendur borguðu námskostnaðinn, tölvurnar áttum við og húsnæðið sömuleiðis. Ráðuneytismennirnir höfðu því fátt við að styðjast þegar þeir skömmuðu okkur. Þetta var mikið gæfuspor,“ segir Bernharð.
Já, þetta var fyrir þrjátíu árum síðan. VMA tók þetta stóra skref inn í framtíðina vegna þess að þeir Haukur og Adam trúðu á að þetta væri hægt og væri þess virði að prófa. Og það gekk.
Ekki þarf að hafa um það mörg orð hversu miklu máli þessi fjartækni skiptir fyrir skólastarf á öllum skólastigum í dag. Sumir skólar á bæði framhalds- og háskólastigi byggja að stórum hluta á þessari tækni. Nám óháð búsetu. Það eru engin landamæri, hvorki hér á landi né erlendis. Hafi menn góðan internetaðgang og góðan tölvubúnað eru engar hindranir. Og þróunin á bara eftir að verða í eina átt, tækninni á eftir að fleygja fram og við getum ómögulega áttað okkur á því í dag hvernig fjarnám verður eftir fimm ár, hvað þá þrjátíu.
Líklega hafa Haukur og Adam ekki séð þessa tækniþróun fyrir sér þegar þeir tóku að fikra sig áfram með þessa tækni fyrir þrjátíu árum. En hvað veit maður, þeir voru framsýnir menn og trúðu á að það sem þeir voru að gera væri framtíðin.
Í Morgunblaðinu 30. desember 1993 er fyrsta greinin sem hægt er að finna í fjölmiðlum frá þessum tíma um þessa nýjung í starfi VMA. Þar segir:
Fjarkennsla í tveimur áföngum í ensku hefst við Verkmenntaskólann á Akureyri eftir áramótin. Nemendur geta verið hvar sem er á landinu, en þeir verða að hafa aðgang að tölvu, síma og mótaldi. Sömu kröfur verða gerðar í fjarkennslunni um verkefnaskil og annað eins og þegar um nám í dagskóla er að ræða. Kennt verður í gegnum Íslenska-menntanetið; ismennt-netið.
Umsjón með kennslunni hafa þeir Adam Óskarsson og Haukur Ágústsson kennarar við Verkmenntaskólann á Akureyri og sögðu þeir að í fyrstu yrði um tilraun að ræða og yrði byrjað á tveimur áföngum í ensku, ensku 102 og ensku 212. Vonir stæðu þó til þess að þeir áfangar mörkuðu aðeins upphafið að mun meira framboði námsefnis á fjölda sviða. Þegar fram liðu stundir yrði einstaklingum, hvar sem þeir eru staddir á landinu gert kleift að stunda nám af heimilum sínum og ná hvort heldur sem væri ákveðnum réttindum eða að auka hæfni sína á hverju því sviði sem þeir kjósa. Samskipti milli nemenda og kennara verða annars vegar á opinni rás og hins vegar á persónulegum grunni með tölvupósti milli nemenda og kennara. Verkefni verða lögð inn á sérstakt svæði á ismennt sem allir hafa aðgang að, en hljóðbönd og annað efni sent nemendum eftir þörfum. Ákveðnar kröfur verða gerðar um framgang námsins m.a. varðandi verkefnaskil og annað, en standist nemandi ekki þær kröfur telst hann hafa sagt sig frá námi. Náminu lýkur með prófi sem er metið jafngilt þeim sem tekin eru í samsvarandi áföngum eða námi í almennum skólum.
Þeir Haukur og Adam sögðu að draumurinn væri að geta í nánustu framtíð boðið upp á heildstætt nám gegnum tölvunetið, ýmist til stúdentsprófs, réttindanáms eða verslunarskólaprófs. Þá nefndu þeir að hugsanlegt væri að koma á einstökum námskeiðum, m.a. væri hægt að bjóða bændum upp á námskeið í reikningsskilum og bókfærslu. „Við þykjumst að sumu leyti vera að brjóta upp nýja leið, einstaklingum gefst nú kostur á að velja þann tíma sem hentugast er til námsins og nemendur geta verið hvar sem er á landinu,“ sögðu kennaramir. Þessi nýjung í starfsemi Verkmenntaskólans á Akureyri hefur lítið verið kynnt enn sem komið er en Adam sagði að miðað við það væru viðbrögðin ágæt, margir hefðu spurst fyrir um þetta nám og sýnt því áhuga. Innritun á námskeiðin fer fram í skólanum fram til 10. janúar næstkomandi.
Svo mörg voru þau orð Morgunblaðsins í lok desember 1993. Fyrir marga var þetta vitaskuld framandi en enn þann dag í dag er fjarnámið í VMA við lýði. Þar stundar nám fólk á öllum aldri í ólíkum námsgreinum. Mikil ásókn er í nám í meistaraskólanum sem eingöngu er kenndur í fjarnámi og ótal aðrir áfangar eru kenndir í fjarnámi. Þessi eru mörg dæmi að nemendur í dagskóla bæti við sig einingum með því að taka áfanga í fjarnámi og stytti þannig leiðina að settu marki.
Fyrir nákvæmlega fimm árum birtist hér á heimasíðunni viðtal við frumkvöðlana Hauk Ágústsson og Adam Óskarsson um upphafið að fjarnámi skólans. Vert er að renna yfir það á þessum tímamótum og hverfa um stund rúma þrjá áratugi til baka í tíma.
Þann 15. janúar sl. lést Haukur Ágústsson á Akureyri. Hann var 86 ára að aldri. Haukur kenndi við VMA 1989-2002 og var á þeim tíma kennslustjóri öldungadeildar 1995-1999 og kennslustjóri fjarkennslu 1995-2002. Hann verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju fimmtudaginn 1. febrúar kl. 13:00.
Þá er látin á Akureyri Guðlaug Hermannsdóttir, fyrrum þýskukennari við VMA, á 87. aldursári. Hún verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju föstudaginn 26. janúar kl. 13:00.
Verkmenntaskólinn á Akureyri minnist Hauks og Guðlaugar með virðingu og þökk og sendir aðstandendum þeirra og ástvinum innilegar samúðarkveðjur.