Skráning í Vorhlaup VMA í fullum gangi!
Vorhlaup VMA er orðinn fastur liður í starfi VMA og á hlaupadagatali akureyrskra hlaupara. Hlaupið verður haldið í níunda skipti nk. þriðjudag, 23. apríl, og verður ræst í það við austurinngang skólans kl. 17:30. Tvær hlaupaleiðir eru í boði, 5 og 10 km.
Í 5 km hlaupinu verður keppt í opnum flokki, framhaldsskólaflokki og flokki 15 ára og yngri. Í 10 km hlaupinu verður keppt í opnum flokki og framhaldsskólaflokki. Tímataka verður með flögum.
Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjú sætin í öllum flokkum karla, kvenna og kvára auk fjölda útdráttarvinninga. Verðlaunaafhending verður í Gryfjunni í VMA kl. 18:30.
Forskráning er á netskraning.is og verður hún opin til kl. 17.00 á hlaupadegi en einungis þeir sem skrá sig fyrir miðnætti þann 22. apríl eiga möguleika á útdráttarverðlaunum. Hægt verður að skrá sig á keppnisdegi í anddyri austurinngangs VMA kl. 14-17 gegn hærra gjaldi.
Skráningargjöld í forskráningu:
- 500 kr. fyrir grunn- og framhaldsskólanema
- 3000 kr. fyrir hlaupara í opnum flokki
Skráningargjöld á vorhlaupsdegi:
- 500 kr fyrir grunn- og framhaldsskólanema
- 4000 kr fyrir hlaupara í opnum flokki
Hlauparar fá gögn sín afhent í anddyri austurinngangs VMA kl. 14-17 á vorhlaupsdaginn 23. apríl.
Skipulag og utanumhald Vorhlaups VMA er ekki eins manns verk, að því hefur komið hópur kennara við skólann og einnig nemendur. Einn þeirra er Þór Reykjalín Jóhannesson, nemandi á viðskipta- og hagfræðibraut. Þór hefur komið að ýmsu í undirbúningnum, m.a. að falast eftir einu og öðru frá fyrirtækjum til að hafa í verðlaun. Undirbúa þurfi brautarvörslu og ýmislegt fleira á hlaupadaginn sjálfan. En einnig hafa nemendur ekki látið sitt eftir liggja við að kynna hlaupið - m.a. á samfélagsmiðlum. Í því sambandi nefnir Þór að póstað hafi verið myndbandi vegna væntanlegrar þátttöku Ólafs Páls Pálssonar í hlaupinu en hann hefur heitið því að mæta til leiks í sínu besta pússi, nefnilega jakkafötum! Fyrir vikið hleypur hann frítt. Og honum til samlætis í hlaupinu væri gaman að sjá fleiri í betri fötunum, þeir hinir sömu þurfa heldur ekki að greiða þátttökugjald.
Eftir langan vetur og einkar kaldan fyrrihluta apríl lofa veðurguðirnir því að þeir skipti um gír um helgina, yfir landið hellist sunnan þeyr með hlýindum og eins og staðan er núna lítur út fyrir ljómandi fínt hlaupaveður nk. þriðjudag. Það er því nú eða aldrei, skráningin er í fullum gangi!