Fara í efni

Spennt fyrir vetrinum og nýju starfi

Sólveig Birna H. Elísabetardóttir.
Sólveig Birna H. Elísabetardóttir.

Sólveig Birna H. Elísabetardóttir er nýr viðburðastjóri í VMA. Hún hóf störf í byrjun þessa skólaárs og mun, eins og starfstitillinn gefur til kynna, leggja sín lóð á vogarskálarnar við undirbúning og framkvæmd ýmissa viðburða í skólanum, ekki síst mun hún vinna náið með nemendafélaginu Þórdunu og öðrum sem koma á einn og annan hátt að félagslífi nemenda í skólanum.

Sólveig orðar það svo að hún sé blanda af Reykvíkingi og Skagfirðingi enda var uppvöxturinn og grunnskólagangan bæði í Breiðholtinu í Reykjavík og á Sauðárkróki. Eftir að hafa lokið einni önn í framhaldsskóla í MK lá leiðin til Sauðárkróks og frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra lauk Sólveig stúdentsprófi.

Sólveig rifjar upp að í grunnskóla hafi hún verið með bæði afbragðs góða kennara og líka miður góða kennara og eftir að hafa upplifað ólíka nálgun kennara í kennslu hafi hún ákveðið að hún vildi læra að verða góður kennari og leggja sitt af mörkum. Og þessar hugrenningar grunnskólaáranna urðu síðan að veruleika. Að loknu stúdentsprófi á Króknum vorið 2019, sem Sólveig lauk á 5-6 árum vegna þess að hún fór um tíma út á vinnumarkaðinn og var um tíma í sjálfboðaliðastarfi í Suður-Afríku, innritaðist hún þá um haustið í menntunarfræði við Háskólann á Akureyri – fyrst í grunnnámið og síðan í meistaranám og útskrifaðist kennari frá skólanum sl. vor.

Það fer vel á því að kennarinn Sólveig sé viðburðastjóri í VMA því hún hefur haft frá unglingsárum sérstakan áhuga á því að skipuleggja viðburði, einkum brúðkaup! Og þessi gamli draumur hefur ræst því Sólveig skipulagði brúðkaup nýlega og hefur auk þess verið veislustjóri í þremur brúðkaupum.

Og í Háskólanum á Akureyri fékk Sólveig heldur betur, til hliðar við fullt nám, að láta ljós sitt skína í viðburðastjórnun. Hún var fyrstu tvö árin formaður félags kennaranema við skólann og fulltrúi þeirra í deildarfundum og í ýmsum nefndum og ráðum. Að loknu grunnnáminu stökk Sólveig út í dýpstu laugina og tók að sér formennsku tvö síðustu skólaár í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri, sem er í raun fullt starf en Sólveig gegndi formennskunni til hliðar við meistaranámið í menntunarfræðum og vinnu út í bæ. Hún sagði skilið við formennskuna í mars sl. og gat þá til vors einbeitt sér að því að skrifa meistaraprófsritgerðina!

Og beint úr námi og félagslífi í HA yfir í viðburðastjórnun í VMA! Sólveig segir að þegar hún hafi séð þetta starf auglýst hafi hún ákveðið að sækja um og sé afar ánægð að hafa fengið þetta tækifæri. Sú reynsla sem hún hafi fengið í allri félagsmálavinnunni í HA muni án efa nýtast sér vel í þessu nýja starfi í VMA.

Starf viðburðastjóra í VMA er hlutastarf og á móti mun Sólveig halda áfram að mennta sig því í vetur verður hún í diplómanámi í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum. Námið er fyrst og fremst fjarnám en einnig stuttar staðarlotur.

„Ég viðurkenni fúslega að ég þekkti mjög lítið til Verkmenntaskólans en strax á þessum fyrstu dögum finn ég að þetta er góður vinnustaður. Það taka allir afar vel á móti mér sem kemur mér ekki á óvart því það fer það orð af skólanum að starfsandinn sé sérstaklega góður hér. Á margan hátt fæ ég tækifæri til þess að móta þetta starf og nýta mér þá reynslu sem ég fékk í félagsstörfum mínum í HA. Þessa fyrstu daga er ég á fullu við að setja mig inn í þá fjölmörgu hluti sem ég þarf að kunna skil á. Ég er afar spennt fyrir vetrinum og þessu nýja starfi,“ segir Sólveig Birna H. Elísabetardóttir.