Fara í efni

Frístundahúsið 2024-2025 reist

Búið að púsla gólf- og veggeiningum nýja frístundahússins saman. Og síðan áfram gakk í allan vetur!
Búið að púsla gólf- og veggeiningum nýja frístundahússins saman. Og síðan áfram gakk í allan vetur!

Það er árviss viðburður á fyrstu vikum skólaársins að nemendur á öðru ári í húsasmíði og kennarar þeirra reisi útveggi að frístundahúsi sem nemendur spreyta sig síðan á að byggja núna á haustönn og á vorönn 2025. Að þessu var komið í gær og eftir því sem næst verður komist hefur þetta aldrei gerst áður strax í þriðju kennsluviku. Hreiðar Hreiðarsson byggingarmeistari hjá B.Hreiðarssyni mætti á svæðið með kranabíl og hífði forsmíðaðar gólf- og veggeiningar, sem nemendur hafa verið að smíða síðustu daga, á sinn stað. Eru Hreiðari færðar bestu þakkir fyrir sína vinnu.

Hálfnað er verk þá hafið er, segir máltakið og í þessum orðum eru falin nokkur sannindi. Mikilsverðum áfanga er náð þegar búið er að reisa útveggina og næstu skref felast í því að koma fyrir þaksperrum og loka húsinu – og síðan koll af kolli.

Eins og undanfarin ár er húsið í vetur teiknað af Steinmari H. Rögnvaldssyni byggingartæknifræðingi. Í húsinu verða tvö svefnherbergi, baðherbergi/þvottahús, stofa og eldhús. Svefnloft verður í hluta hússins.

Leitast verður við að fara eins langt með byggingu hússins og mögulegt er í vetur en það kemur í ljós á vordögum á hvaða byggingarstigi húsið verður þá. Verður húsið þá auglýst til sölu. Húsið sem 2. árs húsasmíðanemar byggðu sl. vetur var selt á liðnu sumri og var flutt landleiðina suður á land.

Bygging frístundahúss er ómetanlegt tækifæri fyrir verðandi húsasmíði til þess að læra eitt og annað í byggingu timburhúsa. Að byggingunni koma einnig nemendur í bæði pípulögnum og rafvirkjun og því er þetta afar mikilvægt og gott verkefni.

Til gamans skal rifjuð upp bygging frístundahúsa VMA síðustu ellefu árin:

Haustið 2023
Haustið 2022
Haustið 2021
Haustið 2020
Haustið 2019
Haustið 2018
Haustið 2017
Haustið 2016
Haustið 2015
Haustið 2014
Haustið 2013